[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Knattspyrnuþjálfarinn Hólmar Örn Rúnarsson hefur skrifað undir samning við Keflavík og gerst aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla hjá félaginu. Kemur hann til Keflavíkur frá KA, þar sem hann var á síðustu leiktíð

Knattspyrnuþjálfarinn Hólmar Örn Rúnarsson hefur skrifað undir samning við Keflavík og gerst aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla hjá félaginu. Kemur hann til Keflavíkur frá KA, þar sem hann var á síðustu leiktíð. Hólmar verður Haraldi Frey Guðmundssyni til halds og trausts, en Haraldur tók við Keflavík af Sigurði Ragnari Eyjólfssyni þegar skammt var eftir af nýliðinni leiktíð. Hólmar þekkir vel til hjá Keflavík, því hann er uppalinn hjá félaginu og lék með því í alls 14 tímabil í meistaraflokki. Keflavík féll úr Bestu deildinni á leiktíðinni og leikur því í 1. deildinni að ári.

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, hefur tekið ákvörðun um að fresta öllum leikjum liða frá Ísrael í keppnum á vegum sambandsins um óákveðinn tíma vegna átaka Ísraels og Palestínu. Þar með tók sambandið fram fyrir hendurnar á úkraínska félaginu Zorya Luhansk, sem gaf í gær út yfirlýsingu þess efnis að það hefði hafnað beiðni Maccabi Tel Aviv um að fresta leik liðanna í B-riðli Sambandsdeildar Evrópu, riðli Breiðabliks, sem átti að fara fram í Tel Aviv eftir slétta viku.

Stórleikur Njarðvíkingsins Elvars Más Friðrikssonar, landsliðsmanns í körfuknattleik, í leik PAOK gegn Galatasaray í Meistaradeild Evrópu á miðvikudagskvöld reyndist sögulegur því hann varð fyrsti leikmaðurinn til að ná þrefaldri tvennu í keppninni í sex ár. Því náði Elvar Már í 88:77-sigri í Istanbúl í Tyrklandi er hann skoraði 19 stig, tók 11 fráköst og gaf tíu stoðsendingar.

Hollenski sóknarmaðurinn Cody Gakpo hefur jafnað sig á meiðslum sem hann varð fyrir í 1:2-tapi Liverpool gegn Tottenham Hotspur í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu undir lok síðasta mánaðar. Gakpo fór þá af velli í hálfleik eftir að hafa jafnað metin í 1:1 skömmu fyrir leikhlé. Hann meiddist á hné, sást svo í spelku eftir leik og var óttast að liðbönd hefðu skaddast. Gakpo var mættur á æfingu hjá Liverpool í gærmorgun, tók fullan þátt í henni og gæti því tekið þátt í grannaslagnum gegn Everton í úrvalsdeildinni í hádeginu á morgun.

Enska knattspyrnufélagið Manchester United hefur ákveðið að selja enska kantmanninn Jadon Sancho þegar félagaskiptaglugginn í Evrópu opnast um áramótin. Mirror greinir frá því að búið sé að taka ákvörðun um að selja Sancho þar sem hann neiti að biðja knattspyrnustjórann Erik ten Hag afsökunar. Kastaðist í kekki á milli þeirra þegar ten Hag sagði Sancho ekki hafa verið valinn í leikmannahópinn fyrir leik gegn Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í upphafi síðasta mánaðar vegna þess að hann hefði ekki æft nægilega vel.

Íslands- og bikarmeistarar Víkings úr Reykjavík hafa mikinn áhuga á að fá framherjann Emil Atlason til liðs við sig. Albert Brynjar Ingason, fyrrverandi leikmaður og núverandi fjölmiðlamaður, greindi frá þessu í hlaðvarpi sínu Gula spjaldinu. Emil skoraði 17 mörk í 21 leik fyrir Stjörnuna í Bestu deildinni á nýliðinni leiktíð og varð markakóngur. Hefur hann gert 28 mörk í 40 síðustu leikjum með Garðabæjarfélaginu.