Jenny Colgan
Jenny Colgan
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Angústúra leggur áherslu á vandaðar þýðingar en verk íslenskra höfunda leynast líka á útgáfulista haustsins. Hjörleifur Hjartarson og Rán…

Angústúra leggur áherslu á vandaðar þýðingar en verk íslenskra höfunda leynast líka á útgáfulista haustsins.

Hjörleifur Hjartarson og Rán Flygenring, sem hafa áður sent frá sér bækurnar Fuglar og Hestar, halda samstarfi sínu áfram með bókinni Álfar. Þar er nýju ljósi varpað á íslenska álfinn og átakasama sambúð huldufólks og mannfólks frá upphafi byggðar í landinu. Við sögu koma undirheimaviðskipti, blóðug jólaboð, róttækar aðgerðir í umhverfismálum, rómantískar og forboðnar ástir í handanheimum og æsilegar hetjudáðir sauðamanna og mjaltakvenna.

Bókin Reykjavík sem ekki varð, eftir sagnfræðinginn Önnu Dröfn Ágústsdóttur og arkitektinn Guðna Valberg, verður endurútgefin eftir að hafa verið ófáanleg undanfarin ár. Þau rekja sögu bygginga í Reykjavík sem í upphafi átti að reisa á öðrum stað eða í annarri mynd en flestir þekkja. Í þeirri Reykjavík sem ekki varð stendur Alþingishúsið í Bankastræti, Háskóli Íslands á Skólavörðuholti og Þjóðleikhúsið á Arnarhóli. „Hvers vegna þessi Reykjavík varð ekki að veruleika er í senn stórfróðleg og skemmtileg saga sem ríkulegt myndefni gerir ljóslifandi,“ segir útgefandi.

Ármann Jakobsson prófessor sendir frá sér þriðju bókina af fjórum í Álfheimaflokknum sínum. Sú ber titilinn Álfheimar 3: Ófreskjan. „Konáll, Soffía, Pétur og Dagný hafa verið krýnd konungar í heimi álfanna. Konáll er alsæll í nýju hlutverki þótt hann kæri sig lítið um þær áskoranir sem starfinu fylgja. Fljótlega verða þau vör við ill öfl sem ef til vill hafa slæðst úr öðrum heimum. Auk heldur vofir yfir möguleikinn að hin ógurlega ófreskja Vritra losni úr álögum og þá er bæði konungsríkinu og heiminum hætt,“ segir útgefandi um söguþráðinn.

Þá er væntanleg ný þýðing á bók úr smiðju skoska metsöluhöfundarins Jenny Colgan sem heitir Miðnætti í litlu jólabókabúðinni. Hún er sjálfstætt framhald af Jólum í litlu bókabúðinni. Sagan gerist í Edinborg og segir af Carmen sem stýrir þar bókabúð.

Tvær bækur eru væntanlegar í áskriftarseríu Angústúru. Sú fyrri er Heaven eftir japanska höfundinn Mieko Kawakami, sem að sögn útgefanda „kom eins og ferskur andblær inn í fremur karllæga bókmenntahefð Japan með sinni fyrstu skáldsögu árið 2007“. Síðan þá hefur hún unnið til fjölmargra virtra bókmenntaverðlauna og bækur hennar verið þýddar á yfir 30 tungumál. Heaven var tilnefnd til Alþjóðlegu Booker-verðlaunanna 2022. Jón St. Kristjánsson þýðir.

Sú seinni er sögulega skáldsagan Paradís eftir tansaníska rithöfundinn Abdulrazak Gurnah (f. 1948) sem hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 2021. Paradís var tilnefnd til Booker-verðlaunanna og Whitbread-verðlaunanna. Helga Soffía Einarsdóttir þýðir.

ragnheidurb@mbl.is