Vilhjálmur Bjarnason
Vilhjálmur Bjarnason
Þrátt fyrir áhuga á fortíðinni er framtíðin það sem við eigum ólifað. Tilgangurinn með rannsóknum í líf- og læknavísindum er að bæta mannlíf í framtíð.

Vilhjálmur Bjarnason

Á framanverðri síðustu öld þóttu það helst vísindi hér í landi að rannsaka örlög framliðinna. Störf miðla, þeirra sem höfðu milligöngu um samskipti við framliðna, þóttu merkileg störf, sérlega ef kraftaverk fylgdu með.

Svo hófust rannsóknir á afstöðu Hallgerðar til Bergþóru og vinskap Gunnars og Njáls. Einhverjum þótti of langt gengið í niðurstöðum þeirra rannsókna að sennilega væri samband Gunnars og Njáls kynferðislegt, af ergi.

Auðvitað geta rannsóknir á menningararfi verið gagnlegar, hvort heldur á fornsögum ellegar þjóðsögum, sem safnað var á nítjándu öld. Þær kunna að bæta geð en verða aldrei forgangsverkefni. Eiginlega eru slíkar rannsóknir dæmi um velmegun.

Líf- og læknavísindi

Þrátt fyrir áhuga á fortíðinni er framtíðin það sem við eigum ólifað. Tilgangurinn með rannsóknum í líf- og læknavísindum er að bæta mannlíf í framtíð.

Rannsóknir í líf- og læknavísindum kunna að byggjast á upplýsingum og gögnum, eins og lífsýnum, úr fortíð. Vissulega kunna sjúkraskrár að gefa upplýsingar sem koma að gagni í rannsóknum. Þá er komið að viðkvæmum persónuupplýsingum. Upplýsingar úr sjúkraskrám má aldrei nota gegn viðkomandi sjúklingi eða aðstandendum hans og niðjum.

Skýrsla heilbrigðisráðherra

Nokkrir alþingismenn lögðu fyrir heilbrigðisráðherra beiðni um skýrslu um stöðu rannsókna í líf- og læknavísindum með áherslu á rannsóknir krabbameina. Telja má að beiðnin um skýrsluna hafi verð lögð fram í samhengi við uppbygginu nýs háskólasjúkrahúss. Til þess að sjúkrahús teljist háskólasjúkrahús þarf að vinna markvissar rannsóknir í tengslum við starfsemi sjúkrahússins.

Í beiðninni segir: „Í greinargerð kemur fram að mörg dæmi séu um að forvirkar aðgerðir og rannsóknir á sviði líf- og læknavísinda hafi með marktækum árangri dregið úr ótímabærum dauðsföllum vegna sjúkdóma. Með rannsóknum og forvarnaraðgerðum á sviði kransæðasjúkdóma hafi til að mynda tekist að fækka ótímabærum dauðsföllum af völdum kransæðasjúkdóma um 80% á síðastliðnum 50 árum. Að sama skapi hafi tekist að draga úr ótímabærum dauðsföllum kvenna með skipulegri leit að frumubreytingum í legi og brjóstum. Þess sé að vænta að skipuleg leit að frumubreytingum í ristli muni einnig leiða til bættra lífslíka.

Skýrslubeiðendur telji að sjálfstæðar rannsóknir á sviði krabbameina séu órjúfanlegur hluti af þeirri grundvallarþjónustu sem veitt er í heilbrigðiskerfinu og af þeim sökum sé skýrslubeiðnin lögð fram.“

Sá er þetta ritar telur að hér komi fram grundvallarþættir varðandi starfsemi háskólasjúkrahúss og jafnframt sé bent á jákvæðan árangur af rannsóknum, til að bæta mannlíf.

Þegar fjallað er um rannsóknir á krabbameinum má flokka rannsóknir með grófum hætti í þrjá flokka.

Grunnrannsóknir

Grunnrannsóknir fara gjarnan fram á rannsóknarstofum og fela í sér ræktun frumna með það að markmiði að komast að því hvers vegna krabbamein myndast, hvernig þau vaxa og breiðast út. Aukinn skilningur á áðurnefndum þáttum er nauðsynlegur svo hægt sé að þróa aðferðir til að vinna gegn myndun og framþróun krabbameina.

Klínískar rannsóknir

Klínískar rannsóknir eru aftur á móti rannsóknir sem gerðar eru á fólki, veiku eða heilbrigðu. Slíkar rannsóknir eru til dæmis gerðar til þess að skoða eða bera saman árangur lyfja, meðferða og aðgerða. Rannsóknir sem þessar eru aldrei gerðar nema ítarlegar grunnrannsóknir bendi til þess að gagnsemi þess sem prófað er sé meiri en möguleg skaðsemi þess.

Af þessum sökum lúta klínískar rannsóknir ströngum öryggiskröfum. Með því að Landspítali háskólasjúkrahús gegnir lykilhlutverki í klínískri meðferð við krabbameinssjúklinga leggst sú skylda á spítalann að hann vinni að klínískum rannsóknum á krabbameinum og þar með þjónustu og virðingu við einstaklinga sem greinst hafa með krabbamein hér á landi.

Krabbameinsskrá og faraldsfræði krabbameina

Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands er sennilega viðamesti gagnagrunnur af sínu tagi fyrir heila þjóð í víðri veröld. Sá er lagði grunn að þeirri skrá var prófessor Níels P. Dungal. Prófessorinn lagði í raun grunn að rannsóknum í líf- og læknavísindum hér á landi þegar hann kom að rannsóknarstofu læknadeildar Háskóla Íslands 1926. Það var á sama tíma sem „sálarrannsóknir“ voru á hátindi sínum hér á landi. Prófessorinn barðist við hindurvitni og fjárveitingavald sem taldi að rannsóknir væru afgangsstærð í heilbrigðismálum.

Búfjársjúkdómar og rannsóknarhús

Prófessornum tókst að fjármagna byggingu rannsóknarhúss með því að framleiða og selja lyf við búfjársjúkdómum.

Sannast þar enn sem bóndi í Skagafirði sagði eitt sinn við mig, „það er aðeins eitt heilbrigðisvandamál, það eru búfjársjúkdómar“.

Vissulega er það einn meginábati við hina nýju byggingu við Hringbraut í Reykjavík að mestöll rannsóknarstarfsemi stofnunarinnar flyst á einn stað.

Menntun lækna

Þá á að nota gullið tækifæri til að efla rannsóknarstarfsemi, bæði sjálfstæða og ekki síður í alþjóðlegu samstarfi.

Það er nefnilega meginkostur menntunar íslenskra lækna að þeir hafa sótt framhaldsmenntun sína í háskóla og sjúkrahús beggja vegna Atlantshafs.

Með tengslaneti við erlenda háskóla á að vera hægt að byggja upp mikilsverða rannsóknaraðstöðu.

Það er til siðs að tala illa um Íslenska erfðagreiningu. Ég hyggst ekki gera það. Mér er tjáð að markverður hluti þess, sem telst til rannsókna við Háskóla Íslands, sé unninn í samstarfi við vísindamenn hjá Íslenskri erfðagreiningu. Íslensk erfðagreining hefur fært íslenskt vísindastarf stórlega fram á veg.

Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins

Þá hefur stofnun Vísindasjóðs Krabbameinsfélagsins skipt miklu máli, en hann styrkir árlega rannsóknir á krabbameinum, jafnt grunnrannsóknir sem klínískar rannsóknir. Þar má sjá þverskurð þeirra krabbameinsrannsókna sem stundaðar eru á landinu.

Sjóðurinn byggir á stofnframlögum, utanaðkomandi styrkjum og styrkjum frá Krabbameinsfélaginu. Það liggur í hlutarins eðli að sjóðurinn getur ekki rækt hlutverk sitt nema af veikum mætti. Ætla má að styrkþegar geti með framlagi sínu til nýrrar þekkingar bætt aðgengi sitt að stórum og metnaðarfullum verkefnum.

Spurningar til háskólaráðherra

Það kann að vera álitamál hvort þingmennirnir hefðu ekki fremur átt að beina skýrslubeiðni sinni til háskólaráðherra, sem er eðli máls samkvæmt jafnframt vísindaráðherra.

Jarðvísindi, rannsóknir á Njálu og rannsóknir á kosningaþátttöku eru ekki forgangsvísindi. Okkur varðar mest lífið sjálft.

Það eru forgangsvísindi að bæta mannlíf í landinu með metnaðarfullum hætti. Vísindamennirnir eru til en þeir eru oftar en ekki að sanna getu sína fyrir fjárveitingavaldi fremur en að geta einbeitt sér að vísindum og rannsóknum.

Árangur í vísindum

„Aðalatriðið er hvorki að tala um Jesúm stutt né langt, heldur þrá hann í hljóði; að hafa rúm fyrir hann í húsi sínu; og að vera glaður.“

Því er eins farið í vísindum. Árangurinn næst í langhlaupi, og að vera glaður á meðan á hlaupi stendur.

Höfundur var alþingismaður.