Sveinn Vilhjálmsson fæddist í Vestur-Berlín 29. júlí 1958. Hann lést 1. október 2023.

Foreldrar hans voru Vilhjálmur Þorláksson verkfræðingur, f. 27. júlí 1933, d. 4. apríl 2022, og Lára Hjálmarsdóttir Schmidt (áður Lore Else Charlotte Schmidt), kjólasaumakona og húsfreyja, f. 4. nóvember 1933, d. 21. desember 1987.

Systkini Sveins eru Þuríður, f. 12 nóvember 1956, eiginmaður hennar er Vigfús Ásgeirsson, f. 17. maí 1948, Hilmar, f. 13. febrúar 1964, eiginkona hans er Sigríður Logadóttir, f. 15. september 1962, og Kári, f. 15. maí 1968.

Hinn 27. desember 1980 kvæntist Sveinn Guðmundu Ingu Forberg leikskólakennara, f. 4. apríl 1958. Foreldrar Ingu voru Örn Forberg Bjarnason, skólastjóri og kennari, f. 15. október 1933, d. 12. mars 2010, og Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir kennari, f. 10. október 1934, d. 1. september 2015.

Kjördóttir þeirra hjóna er Elín Jóna Birgisdóttir myndlistarkona, f. 4. júlí 1991.

Fjölskylda Sveins flutti frá Vestur-Berlín til Íslands 1961 og ólst hann upp í Garðahreppi, nú Garðabær. Sveinn útskrifaðist sem stúdent frá Flensborgarskóla. Sveinn og Inga bjuggu í Reykjavík sín fyrstu ár eftir að þau kynntust en fluttust til Svíþjóðar 1980 og hafa búið þar síðan.

Sveinn var alla tíð virkur í félagsstarfi, var skáti í skátafélaginu Vífli, spilaði handbolta og fótbolta með Stjörnunni, tók þátt í leiklistarstarfi í Flensborgarskóla. Hann söng lengi með Íslendingakórnum í Lundi og söng í söngleikjum í Lundi.

Sveinn stofnaði árið 2002 ásamt fleirum fyrirtæki sem framleiddi og seldi hágæðapylsur, hann rak fyrirtækið af mikilli alúð og elju þar til það var selt í fyrra.

Útför Sveins fer fram frá St. Olafs-kapellunni í Lundi í dag, 20. október 2023, klukkan 14 að sænskum tíma.

Það fer ekki á milli mála að Sveinn vinur minn Vilhjálmsson var gjörvulegasti ungi maður sem ég hef á ævinni kynnst. Hann hafði „þetta“ eins og sagt er. Hann var góður sonur, bróðir, vinur og félagi. Hann hafði ríka foringjahæfileika sem gerðu hann að hinum augljósa leiðtoga hvar sem hann var eða fór um ævina. Að auki var hann leikari góður.

Ég kynntist honum í Flensborg þegar þannig háttaði til að unglingar úr Garðabæ fóru að sækja framhaldsskóla í Flensborg. Kom þá stór hópur af góðu fólki í skólann sem blandaðist vel við okkur Hafnfirðingana og úr varð mörg vináttan sem enst hefur alla ævina. Flensborg var þá í miklu breytingaferli og var skipulag félagslífsins í nokkru uppnámi vegna þessa. Leiðir okkar Sveins lágu saman í umræðum um hvað mætti betur fara og gera. Leiddi það til þess að stór hópur tók saman höndum um að gera breytingar að miklu leyti byggðar á hugmyndum Sveins og vinar okkar og skólafélaga Ævars Harðarsonar, eins konar hægláta menningarbyltingu. Þungamiðjan í því var, að öðru fjölbreyttu starfi ólöstuðu, leiklistarstarf skólans. Hápunkturinn var uppsetning leikritsins Indíánar þar sem Svenni lék aðalhlutverkið sem sögumaðurinn Buffaló-Bill.

Það er merkilegt hvað þessi ungdómsár vega hlutfallslega þungt í lífi okkar, þegar lífsins bók er að mestu leyti auðar og óskrifaðar blaðsíður, og allar okkar upplifanir eru nýjar og marka því dýpri spor en ella. Gleðin sem betur fer oftast allsráðandi. Það þurfti þó stundum að staldra við og taka sér tak þegar hlutir fóru úr böndunum. Það hefur sennilega verið eftir eitthvert slíkt tilfellið sem hugmyndin kom upp um að gera eitthvað uppbyggilegt og fara í Interrail-ferðalag. Fyrst ætluðum við bara tveir en þegar þessar áætlanir fóru að spyrjast út kom í ljós að fleiri vildu fara með. Á endanum urðu þetta átta manns úr Hafnarfirði og Garðabæ í tveimur hópum, tvær stelpur og tveir strákar í hvorum hóp, sem lögðu upp saman í ógleymanlega og vel heppnaða för í ágúst 1977.

Hestarnir urðu fljótlega sameiginlegt áhugamál okkar Sveins og deildum við þeim áhuga óskiptum með vini okkar og skólafélaga Gunnari Erni. Jónas Sigurðsson tónlistarmaður segir í texta að „hamingjan kæmi ríðandi á hesti“. Það reyndist raunin í tilfelli Sveins því við vorum staddir á Landsmóti hestamanna á Þingvöllum 1978 á sólbjörtum sumardegi þegar kallað var til Sveins út úr einu tjaldinu og hann beðinn að koma. Sveinn svaraði kallinu eins og lærisveinarnir við Galíleuvatn forðum daga og hefur fylgt Ingu, ástinni sinni og eiginkonu, æ síðan.

Þegar höf og lönd skilja menn að um langan tíma verða samskiptin önnur en böndin verða samt alltaf jafn traust. Það hefur verið gaman að heimsækja Svein og Ingu í Lundi, mæla sér mót við þau í Kaupmannahöfn, hittast hér heima og eiga svo löng símtöl þar á milli. Það hvarflaði þó aldrei að mér að fundur okkar fyrir ári yrði sá síðasti. En allt hefur sinn tíma.

Fyrir hönd okkar Steinu og systkina minna votta ég Ingu, Elínu og systkinum Sveins okkar dýpstu samúð.

Árni M. Mathiesen.

• Fleiri minningargreinar um Svein Vilhjálmsson bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.