Egyptaland Verið að tæma vél frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum á el-Arish flugvellinum í Egyptalandi með neyðaraðstoð fyrir Gasa í gær.
Egyptaland Verið að tæma vél frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum á el-Arish flugvellinum í Egyptalandi með neyðaraðstoð fyrir Gasa í gær. — AFP/Giuseppe Cacace
Dóra Ósk Halldórsdóttir doraosk@mbl.is „Við þurfum mat, vatn, lyf og bensín núna,“ sagði Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, í gær um samþykki Ísraelsstjórnar á miðvikudag um að opna leið fyrir mannúðaraðstoð inn á Gasasvæðið. Hann sagði að neyðaraðstoðin þyrfti að vera regluleg og hjálparstarfsmenn yrðu að geta sótt vistir og dreift þeim á öruggan hátt. Búist er við að landamærastöðin við Rafah, sem liggur á milli Egyptalands og Gasa-svæðisins, verði opnuð í dag.

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

„Við þurfum mat, vatn, lyf og bensín núna,“ sagði Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, í gær um samþykki Ísraelsstjórnar á miðvikudag um að opna leið fyrir mannúðaraðstoð inn á Gasasvæðið. Hann sagði að neyðaraðstoðin þyrfti að vera regluleg og hjálparstarfsmenn yrðu að geta sótt vistir og dreift þeim á öruggan hátt. Búist er við að landamærastöðin við Rafah, sem liggur á milli Egyptalands og Gasa-svæðisins, verði opnuð í dag.

Guterres kallaði um leið eftir að gíslar Hamas-hryðjuverkasamtakanna yrðu látnir lausnir samstundis og án skilyrða. Hann sagðist skilja reiði Palestínumanna, en ekkert gæti réttlætt hryðjuverk. Þá bætti hann við að á sama tíma væri ekki heldur hægt að réttlæta hefndaraðgerðir þar sem almennir íbúar Palestínu væru fórnarlömbin.

Mannlegur harmleikur

Rafah-landamærastöðin er eina leiðin til Gasa sem ekki er á valdi Ísraelsmanna, en Ísraelsher gerði þar fjórar loftárásir í síðustu viku. Aðstoð hefur þegar verið send til Kaíró í Egyptalandi og verið var að útbúa tuttugu flutningabíla með vistir við landamærastöðina Egyptalandsmegin í gær, sem samþykki hafði fengist fyrir hjá yfirvöldum í Ísrael, en nokkur fjöldi annarra flutningabíla bíður þess að fá samþykki. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO hvatti í gær til að auka mannúðaraðstoðina margfalt því mannlegur harmleikur blasti við á svæðinu.

Bensín er nauðsyn

„Við fögnum tilkynningu Ísraela um að þeir muni ekki hindra að hægt sé að flytja inn vatn, matvæli og lyf til Gasa,“ sagði Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri WHO, við fréttamenn egypsku Al Qahera-fréttastofunnar í gær. Hann bætti við að bensín væri einnig lykilatriði til að hægt væri að halda sjúkrahúsum opnum og keyra sjúkrabíla og hvatti Ísraelsmenn til að bæta bensíni við listann um nauðsynjavörur.

Rishi Sunak heimsótti Ísrael í gær og ræddi við Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, í gær. Hvatti Sunak Netanjahú til að auka við mannúðaraðstoðina til Gasa á sama tíma og hann ítrekaði stuðning Breta við Ísrael, líkt og Joe Biden og Olaf Scholz gerðu í heimsóknum sínum til Ísraels í vikunni. Sunak sagði mikilvægt að saklausir borgarar fengju aðstoð og að Bretar hefðu aukið mannúðaraðstoð vegna þess.

Stefnt var að því að Joe Biden Bandaríkjaforseti myndi ávarpa bandarísku þjóðina í sjónvarpi í gærkvöldi um miðnætti að íslenskum tíma. Var tilgangur ávarpsins sá að auka stuðning Bandaríkjamanna við aðstoð við bæði Ísrael og Úkraínu, en Biden ætlar að sækjast eftir allt að 100 milljörðum bandaríkjadala til að bregðast við ástandinu í alþjóðamálum. Bandaríska þingið lýsti yfir einróma stuðningi við Ísrael í gær og utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna gaf út varúðaryfirlýsingu um allan heim fyrir bandaríska ríkisborgara vegna hryðjuverka og hugsanlegra mótmælaaðgerða gegn Bandaríkjamönnum.

Landárás í burðarliðnum

Netanjahú sagðist þurfa stuðning umheimsins til að vinna stríðið og það yrði að tryggja að neyðaraðstoð bærist ekki til Hamas-samtakanna. Gervihnattamyndir Planet Lab í gær sýna að mikill fjöldi skriðdreka Ísraelsmanna bíður nú átekta á tveimur stöðum við landamærin norðan við Gasasvæðið. Hefur Ísraelsher hvatt íbúa svæðisins til að yfirgefa norðurhluta þess, þar sem innrás sé yfirvofandi, en hún gæti hafist á hverri stundu.

Helsta markmið Ísraelshers er að handsama tvo af höfuðpaurum Hamas-samtakanna, Mohammed Deif og Yahya Sinwar, en sá síðarnefndi er einn af stofnendum Hamas-samtakanna. Minna er vitað um Deif þó hann hafi verið tengdur við mörg óhæfuverk Hamas undanfarin tuttugu ár. Einungis ein ljósmynd er til af honum sem er tuttugu ára gömul og er sagt að hann sé aldrei meira en eina nótt á sama stað svo að erfiðara sé að hafa hendur í hári hans. Báðir mennirnir hafa verið á lista yfir þá hryðjuverkamenn sem Bandaríkjastjórn hefur mestan hug á að koma lögum yfir.

Biðluðu til Frans páfa

Formaður Alþjóðaþings gyðinga, Ronald Lauder, fundaði með Frans páfa í gær til að fá aðstoð hans við að tryggja lausn gísla í haldi Hamas-hryðjuverkasamtakanna á Gasasvæðinu, en samkvæmt upplýsingum frá Ísrael eru gíslarnir 203. Páfi hefur kallað eftir að gíslarnir verði látnir lausir, en lýsti í gær einnig áhyggjum sínum af stöðu almennings í Palestínu.