Skólastarf Í einhverjum leikskólum verður engin starfsemi á þriðjudag.
Skólastarf Í einhverjum leikskólum verður engin starfsemi á þriðjudag. — Morgunblaðið/Eggert
„Það er alveg viðbúið að skólum verði lokað og þá sérstaklega leikskólum,“ segir Helgi Grímsson, sviðsstjóri á skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar, spurður út í áhrif kvennaverkfalls á starfsemi grunnskóla og leikskóla í Reykjavík

Geir Áslaugarson

geir@mbl.is

„Það er alveg viðbúið að skólum verði lokað og þá sérstaklega leikskólum,“ segir Helgi Grímsson, sviðsstjóri á skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar, spurður út í áhrif kvennaverkfalls á starfsemi grunnskóla og leikskóla í Reykjavík.

Næstkomandi þriðjudag, 24. október, verður boðað til kvennaverkfalls í tilefni kvennafrídagsins, en konur eru í miklum meirihluta starfsfólks á skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar.

Búið að upplýsa foreldra

Í skriflegu svari til Morgunblaðsins segir upplýsingastjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar að í leikskólum borgarinnar séu 2.052 konur af 2.286 starfsmönnum, eða um 90%. Í grunnskólum er hlutfallið aðeins jafnara, en þar er 2.121 kona af 2.743 starfsmönnum eða 77%.

„Verkfallið mun hafa veruleg áhrif á starfsemina hjá skóla- og frístundasviði,“ segir Helgi. Búið sé að upplýsa foreldra og skólastjórnendur þurfi hver um sig að ákveða hvernig starfsemi verði háttað innan viðkomandi skóla. „Það mun ráðast af því hve hátt hlutfall karlmanna er í viðkomandi skóla.“ Verið er að forgangsraða þjónustu til viðkvæmasta hóps barna, segir Helgi og tekur sem dæmi Klettaskóla sem er sérskóli fyrir nemendur á aldrinum 6-16 ára með þroskahamlanir. Starfsemi skólans verður haldið gangandi og kvenkynsstarfsfólk þar mun ekki taka þátt í verkfallinu „og standa vörð um þjónustu við þá aðila,“ segir Helgi enn fremur.

Skólar hætta fyrr

Í samtali við Morgunblaðið segir Kristín Jóhannesdóttir, skólastjóri Austurbæjarskóla, að hún búist við þátttöku starfsmanna í verkfallinu, en að karlar muni halda uppi kennslu í fyrsta bekk. Spurð út í kynjahlutfall starfsmanna skólans sagði Kristín að hún væri ekki með tölurnar fyrir framan sig en að það segði sig sjálft að það væri bara hægt að halda uppi kennslu í fyrsta bekk. Austurbæjarskóli gengur upp í tíunda bekk.

Hafdís Svansdóttir, leikskólastjóri Sæborgar, segir að þau muni ekki geta haldið uppi starfsemi umræddan dag því þar eru einungis konur í vinnu og ætla þær allar að taka þátt í verkfallinu. Hafdís segir enn fremur að búið sé að tilkynna foreldrum stöðu mála.

Það má því áætla að mikil röskun verði á skólastarfi í höfuðborginni og án efa mun víðar um landið næstkomandi þriðjudag.