Dagný Kristjánsdóttir fæddist í Reykjavík 22. september 1990. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Klausturhólum á Kirkjubæjarklaustri 9. október 2023.

Foreldrar Dagnýjar eru Sólveig Davíðsdóttir, f. 3. desember 1965, og Kristján Böðvarsson, f. 20. september 1955.

Systkini Dagnýjar eru: Pálmi, f. 5. október 1983, kona hans er Elina Locmele, f. 9. október 1991, börn: Símon Davíð og Sara María; Þorbjörg, f. 7. október 1985, maður hennar er Gunnar Þormar Þorsteinsson, f. 13. nóvember 1981, börn: Garðar Andri, Birgitta Ósk og Andrea Ósk.

Dagný ólst upp í Vík í Mýrdal þar sem stutt var að fara í sveitina til ömmu og afa að Fossum og á Klaustri þar sem hún átti fjölmargar góðar stundir í stórum hópi frændsystkina. Mjög snemma varð ljóst að Dagný væri einstök sál. Hún var ung þegar hún fékk stórt verkefni þegar hún greindist með

sjaldgæfan sjúkdóm en hún lét það aldrei stoppa sig í að lifa lífinu til fulls. Hún var hrókur alls fagnaðar og henni fylgdi ekkert nema gleði öllum stundum. Hún var afar sjálfstæð og fór sínar eigin leiðir. Bjó hún til að mynda ein í íbúð á vegum Blindravinafélagsins í nokkur ár þar sem hún skapaði sér heimili. Ung að aldri fór Dagný að safna servíettum og átti hún eitt af stærstu servíettusöfnum sem þekkst hafa á landinu. Hefur hún boðið til servíettusýninga reglulega, við miklar undirtektir. Hún var límið í stórri fjölskyldu, sem hún hélt ástfóstri við. Hún elskaði afmælisdaga og kunni alla afmælisdaga í fjölskyldunni. Dagný elskaði að skrifa ljóð og gaf hún til að mynda út ljóðabók árið 2020 sem hún seldi fjölmörg eintök af. Dagný eignaðist vini víða, enda var einstaklega gaman að vera í kringum hana.

Henni héldu engin bönd þrátt fyrir fötlun sína. Hún var mjög öflug í félagsstarfi og var félagskona í Blindrafélaginu og Þroskahjálp og var í stjórn Átaks – félags fólks með þroskahömlun.

Útför Dagnýjar fer fram frá Víkurkirkju í dag, 20. október 2023, klukkan 13 og streymt á slóðinni https://netkynning.is/dagny-kristjansdottir.

Elsku Dagný mín, mikið þykir mér erfitt að sjá á eftir þér, uppáhaldsfrænkan mín. Vinátta okkar risti djúpt. Þegar þú hringdir þá setti maður allt til hliðar, gaf sér tíma, settist niður og ræddi málin. Það var alltaf eitthvert skemmtilegt umræðuefni, þá aðallega servíettumálin. Einnig ef ég mundi ekki eitthvað, þá hringdi ég í þig og þú vissir alltaf það sem mig vantaði að vita. Þú varst alveg ótrúleg og var stórkostlegt að fylgja þér í servíettusöfnuninni sem komin var upp í 50 þúsund servíettur. Ég kom reglulega með servíettur handa þér, þú skoðaðir hverja einustu og flokkaðir í þær sem þú áttir ekki og þær sem þú áttir nú þegar. Þú varst með það alveg á hreinu hvað þú áttir, þrátt fyrir allan þennan fjölda. Reglulega kom ég í heimsókn til þín til þess að taka til í servíettuherberginu. Það voru gæðastundir þar sem við skemmtum okkur með gamansögum og fíflagangi, hlógum og gerðum grín hvert að öðru. Það eru þung skref að kveðja þig. Þú skilur svo mikið eftir þig, í minningu og hlutum. Þrátt fyrir veikindin sem tóku mikið á þig þá var alltaf stutt í húmorinn. Það var svo gaman að heimsækja þig, þú tókst alltaf jafn vel á móti manni. Heimurinn verður ekki samur án þín, Dagný mín. Þú ert komin í sumarlandið en sorgina þarf ég að takast á við sem verður ekki auðvelt, en ég geri það fyrir þig.

Elsku Sólveig, Kristján og fjölskylda, mínar dýpstu samúðar- og kærleikskveðjur til ykkar.

Steinar frændi.

Ég bara trúi því ekki að stundin sé komin, hvert fór tíminn eiginlega?

Engin fleiri símtöl og engar fleiri sundferðir með uppáhaldsfrænkuskottinu mínu.

Við höfum náð að bralla ýmislegt undanfarin ár, baka saman, elda saman og ekki síst skottast í sund og fá okkur ís, í brauði með dýfu. Alltaf hafa þetta verið skemmtilegar samverustundir.

Síðastliðin fjögur ár höfum við markvisst verið að vinna í að heimsækja sem flestar sundlaugar á höfuðborgarsvæðinu og gefa þeim einkunn eftir aðgengi og þægindum. Við áttum þó alveg Hafnarfjörðinn eftir. Sumar laugarnar fórum við oft í og okkar uppáhalds voru Sundhöllin og Grafarvogslaug. Gott rými og stutt í pottinn. Þetta voru notalegar stundir og gátum við setið og spjallað í pottinum heillengi, en mörkin voru sett við kalda pottinn, þangað varð ég að fara ein. Í hverri ferð var umræða um hvor okkar þyrfti meiri hjálp með að finna skápinn og setja lykilinn í því ekki var alltaf vissa um hvor sæi verr, sú gamla eða sú lögblinda.

Ferðin sem við fórum austur í Hveragerði var dásamleg. Þar fengum við okkur pizzu og fórum í Laugaskarð með Huldu og kíktum svo óvænt í heimsókn til Steinars og Berglindar. Það var svo fyndið og skemmtilegt að fylgjast með þeim þegar við renndum í hlaðið og þau höfðu ekki hugmynd um hver væri að koma í heimsókn. En fyndnast fannst okkur að við gleymdum að fá okkur ís þar sem besti ísinn er búinn til og við bara kjöftuðum svo mikið að við gleymdum okkur.

Okkur fannst við líka ferlega fyndnar þegar við ræddum um að banka upp á í tilteknu húsi í Hafnarfirði og tilkynna húsráðendum að við værum komnar til að fara í pottinn á pallinum hjá þeim og hlógum mikið þegar við ímynduðum okkur viðbrögð viðkomandi við heimsókninni. Því miður náðum við ekki að framkvæma áætlun okkar en stundum er áætlanagerðin og hugmyndin um framkvæmdina það skemmtilegasta.

Við reyndum nú stundum á þolrif hvor annarrar á köflum og það var sko alls ekki alltaf sem við hreinlega nenntum hinni og það var alveg gagnkvæmur skilningur og virðing fyrir því. Oft fóru augun marga hringi í ranghvolfi þegar ég var með einhver bölvuð dólgslæti eða fullyrðingar um hvað skottan væri frek, sem var sko aldrei samþykkt. Skemmtilegast fannst okkur þó að rúnta um og spjalla um sæta stráka sem unnu á einhverju veitingahúsi eða sem við höfðum hitt einhvers staðar.

Núna þegar frænkuskottið mitt er farið þá mun ég lenda í vandræðum, því nú er enginn til að halda mér upplýstri um hvaða börn í ættinni eiga að fermast næst og hvort þar verði merktar servéttur. Eins mun ég alveg missa af því hverjir eiga von á barni eða hvað allur þessi skari heitir og hvenær þau eiga afmæli öllsömul. Að kaupa jólagjafir hefur líka verið stór þáttur og nú mun ég sennilega bara gleyma að kaupa allar jólagjafir því ekkert frænkuskott mun minna mig á að hún sé búin að kaupa allar jólagjafirnar í október.

Minning þín er mér ei gleymd;

mína sál þú gladdir;

innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

(Káinn)

Takk fyrir samveruna, elsku skottan mín. Þín langskemmtilegasta frænkutuðra,

Eygló Kr.

• Fleiri minningargreinar um Dagnýju Kristjánsdóttur bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.