Jón Ragnar Sigurjónsson fæddist á Laugavegi 43 í Reykjavík 17. apríl 1927. Hann lést 8. október 2023 á heimili sínu að Barmahlíð 40.

Foreldrar Jóns voru Guðrún Jónsdóttir, fædd á Lambafelli, A-Eyjafjöllum, 16. maí 1893, d. 11. mars 1987, og Sigurjón Jónsson úrsmiður, fæddur í Seljalandsseli, V-Eyjafjöllum, 29. janúar 1897, d. 22. september 1969. Systur hans eru: 1) Ágústa Kristín, f. 1929, d. 2023, gift Sigurði Marinóssyni, f. 1929, d. 2014. 2) Ólöf, f. 1931, sem ein lifir bróður sinn, gift Hákoni Heimi Kristjónssyni, f. 1928, d. 2022. 3) Ása, f. 1931, d. 2016, gift Axel Nikolaisyni, f. 1935.

Jón var kvæntur Nönnu Láru Karlsdóttur, f. 1936, þau skildu. Synir þeirra eru: 1) Karl Sævar, f. 1957, kerfisfræðingur búsettur í Bandaríkjunum, kvæntur Guðrúnu Halldórsdóttur, f. 1953, iðjuþjálfa. Börn þeirra eru: a) Júlía, f. 1971, maki Jamie Costabilo, börn þeirra eru Nole Ryan, f. 2004, og Brianna Þórey, f. 2005, b) Karl Daníel, f. 1976, dóttir hans er Kara, f. 2000, c) Jóhanna Guðrún, f. 1990. 2) Sigurjón Rúnar, f. 1959, blikksmiður í Reykjavík, dóttir hans með fyrrverandi eiginkonu hans Sólveigu Bjarnþórsdóttur, f. 1959, d. 2012, er Nanna Lára, f. 1990. Hennar maður er Snorri Gíslason, f. 1986, dóttir þeirra er Sóldís, f. 2022. Stjúpdóttir Sigurjóns, dóttir fyrrverandi eiginkonu hans Þórdísar Árnadóttur, f. 1968, er Særún Birta, f. 2000.

Eftirlifandi maki Jóns er Ásta Breiðdal, f. 1940. Foreldrar hennar voru María Þórðardóttir, f. 1911, d. 1986, og Guðmundur F.E. Breiðdal, f. 1906, d. 1975.

Jón ólst upp á ýmsum stöðum í miðbænum, á unglingsárunum flutti fjölskyldan í Stórholt 32. Þegar hann var þriggja ára var hann tæp tvö ár í fóstri hjá ömmu og afa á Seljavöllum. Hann var í sveit á Eyvindarhólum A-Eyjafj., Eystri-Sólheimum í Mýrdal og víðar. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1947 og útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands 1952. Hann var starfsmaður hjá Sameinuðum verktökum, aðalbókari hjá Mjólkursamsölunni í Reykjavík. Forstöðumaður Lífeyrissjóðs húsasmiða, svo Lífeyrissjóðs byggingamanna þar til hann sameinaðist Sameinaða lífeyrissjóðnum. Þar var hann starfsmaður um skeið en fékk svo vinnu hjá Flugfélaginu Atlanta, enda mikill áhugamaður um flug.

Trúnaðarstörf: Var í stjórn Lífeyrissjóðs Mjólkursamsölunnar og seinna forstöðumaður sjóðsins, í stjórn skíðadeildar Ármanns, ýmis nefndarstörf fyrir Samband almennra lífeyrissjóða og í stjórn Reiknistofu lífeyrissjóðanna. Jón Ragnar var í bridgeklúbbi, stundaði skíði, golf og sund. Fór síðast í laug í byrjun september. Hann var einn af stofnendum Lionsklúbbsins Freys. Hann hafði mikinn áhuga á tónlist, spilaði sjálfur á orgel, píanó, gítar, mandólín og fleiri hljóðfæri. Á skólaárunum söng hann í tvöföldum kvartett með skólafélögum sínum. Hann var mikill tæknimaður, var með þeim fyrstu til að eignast einkatölvu, lærði að forrita í Basic og nýtti vel kunnáttuna. Hann talaði mörg tungumál og bjargaði sér vel hvar sem hann var. Lærði auðvitað mál í MR og seint á lífsleiðinni bætti hann við frönskukunnáttuna hjá Alliance. Þá byrjaði hann líka að læra ítölsku. Vinir hans kölluðu hann Jón fræðing.

Útförin fer fram frá Háteigskirkju í dag, 20. október 2023, og hefst klukkan 13.

Athöfninni verður streymt á: http://www.streyma.is

Þá er hann pabbi farinn á 97. aldursári, fór að sofa á laugardagskvöldi og vaknaði á betri stað morguninn 8. október.

Ég fæddist á Höfn 1957, en við fluttum fljótlega þaðan til Reykjavíkur. Ég á mjög óljósar minningar frá þessum árum, en man fyrst eftir mér í Stigahlíðinni á hæðinni fyrir neðan Kristin Hallsson söngvara, og rámar mig í að hafa fara upp að heimsækja þann sómamann, þá trúlega þriggja eða fjögurra ára. Foreldrar mínir skildu svo þegar ég var fimm ára og flutti ég þá til afa og ömmu á Höfn. Eftir það verða minningarnar skýrari – flogið í bæinn á gamla þristinum, sem mér fannst algert ævintýri.

Sumar af mínum uppáhaldsminningum frá þessum árum eru frá því að heimsækja frændfólkið og öll frændsystkinin í Reykjavík. Einn af hátindunum var þegar pabbi tók okkur bræðurna niður á flugvöll. Oft sátum við í Öskjuhlíðinni fyrir ofan flugvöllinn og horfðum á litlu flugvélarnar æfa lendingar og flugtök, og kíktum stundum inn í flugskýli og fengum að skoða vélarnar. Þarna kviknaði neisti sem hefur lifað með mér síðan.

Pabbi var mikill ferðamaður og fór oft með vini sínum Arngrími Jóhannssyni til fjarlægra landa. Á þessum árum var Arngrímur flugstjóri hjá Cargolux og hringdi stundum í pabba og sagði honum að það væri laust sæti til Hong Kong á morgun ef hann gæti komist til Lúxemborgar fyrir hádegi.

Hann fór einhverjar ferðir sem fararstjóri fyrir hópa frá Trésmiðafélaginu til Austur-Evrópu. Og öllum ferðum fylgdu einhverjar góðar sögur, eins og gamli Rússinn sem settist niður hjá þeim á hótelbarnum í Moskvu. Það eina sem hann kunni í ensku var „perhaps it's necessary to have some vodka“ og þetta var endurtekið meðan menn gátu staðið.

Hann ferðaðist mjög mikið innanlands, var virkur meðlimur í Jöklarannsóknafélaginu og fór margar ferðir upp á jökla með félögum sínum þar. Seinna tók hann þátt í að merkja allar ár og brýr á landinu með vinum sínum í Lions.

Hann var mikill fræðimaður og grúskari. Það var fátt undir sólinni sem hann vissi ekki eitthvað um og hafði áhuga á. Ef hann vissi það ekki, þá var það trúlega ekki þess virði að vita það. Vinir hans kölluðu hann „Jón fræðing“ – þurfti ekkert að taka fram í hvaða sérgrein það var, hann vissi það allt.

Pabbi og Ásta Breiðdal hófu sinn búskap fyrir um 40 árum eftir margra ára vinskap. Hún hefur verið hans dyggi lífsförunautur síðan, og án hennar hefði hann ekki lifað eins lengi og vel og hann gerði. Við bræðurnir og okkar fjölskyldur verðum henni ávallt þakklát fyrir hvað hún var góð við pabba og studdi hann að fara í gönguferðir, sund og sjúkraþjálfun í gegnum árin. Saman ferðuðust þau mikið, margar ferðir til Evrópu og eins til okkar í Bandríkjunum.

Amma Guðrún sagði oft þegar fólk kvaddi þennan heim: „Guði sé lof að hann fékk að fara alla leið.“ Við erum þakklát að þegar tíminn hans kom fékk hann að fara fljótt og „alla leið“.

Hans verður lengi minnst og saknað.

Karl Sævar.

„Þeir sem eiga mikið missa mikið“ á vel við núna. Skarðið er djúpt þegar maður kveður jafn yndislega manneskju. Þú varst og verður alltaf stór hluti af mínu lífi. Ég hef alltaf talað mikið um þig og allir sem ég þekki vita hver afi minn var. Við vorum miklir vinir og áttum náið samband.

Ég brosi í gegnum tárin þegar ég rifja upp góðu minningarnar sem við höfum skapað og allt það sem þú hefur kennt mér. Þú varst áhugaverð manneskja sem vissir mikið um mikið, mikill ævintýramaður og áhugasamur um annað fólk, en umfram allt varst þú góð og hjartahlý manneskja sem vildir allt fyrir alla gera.

Þú vissir mikið um tækni, og kynntir þér alltaf það nýjasta í þeim málum. Þú varst líklega með þeim fyrstu til að eignast farsíma á Íslandi. Það var gert góðlátlegt grín að því þegar þú komst eitt sinn með nýja símann upp í bústað til okkar fjölskyldunnar. Það leið þó ekki á löngu þar til þú þurftir að nota símann til að hringja á lækni, þar sem ég hafði enn eina ferðina dottið og fengið gat á hausinn. Þá kom síminn að góðum notum. Það var ekki gert grín að símanum eftir það. Mörgum árum seinna varst þú líklega með þeim elstu til að eignast iPhone á Íslandi. Ég man hvað mér fannst það frábært að afi minn ætti iPhone. Þú gerðir aldrei neitt af hálfum hug og last auðvitað leiðarvísinn fyrir símann og kenndir mér eitt og annað. Þú varst alltaf svo áhugasamur um að læra. Það er fallegt að hugsa til þess núna, að nokkrum dögum áður en þú kvaddir baðstu mig að rifja upp með þér nokkra flýtivísa í excel. Aldurinn stoppaði þig aldrei, rétt eins og þegar þið Ásta tókuð rútu frá Berlín til Köben þegar þið komuð til að fagna 90 ára afmælinu þínu með okkur Snorra.

Þú sást ekki sólina fyrir langafastelpunni þinni, og sú hrifning var gagnkvæm. Sóldís ljómaði alltaf upp þegar við töluðum við ykkur Ástu í myndsímtölum. Hún var litli sólargeislinn þinn og þú vildir allt fyrir hana gera. Í síðasta skipti sem þú spilaðir á orgelið þitt, þá var það fyrir Sóldísi. Hún hafði reynt að draga þig upp úr stólnum nokkrum sinnum þegar þú stóðst á endanum upp, þrátt fyrir að það hafi tekið mikið á líkama þinn. Þú spilaðir fyrir hana lag og hún dansaði í kringum þig.

Við fjölskyldan áttum dásamlega daga með þér vikuna áður en þú lést. Mér finnst táknrænt að þú hafir látist um það leyti sem við fjölskyldan vorum að lenda aftur heima í Köben, enda varst þú mikill áhugamaður um flug og fylgdist iðulega með mér á rauntíma á „FlightRadar“ þegar ég ferðaðist með flugi. Í þetta skipti hefur þú flogið með okkur í síðasta sinn. Sagt bless á þinn einstaka hátt.

Elsku afi, ég mun sakna þess að hlusta á sögunar þínar, hringja í þig, knúsa þig og fá góð ráð frá þér. Ég er heppin að hafa átt jafn flottan afa sem fyrirmynd. Ég mun aldrei hætta að tala um þig og monta mig af þér. Við munum passa upp á Ástu þína og halda minningu þinni á lofti um ókomna tíð. Hvernig sem það er, þá veit ég að mamma tekur vel á móti þér og þið fylgist með okkur úr fjarlægð.

Þangað til næst.

Þín

Nanna Lára.

• Fleiri minningargreinar um Jón Ragnar Sigurjónsson bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.