Atvinnulíf Sigríður sagði grænar lausnir, vaxtartækifæri, mannauð og tækni áberandi viðfangsefni næstu ár.
Atvinnulíf Sigríður sagði grænar lausnir, vaxtartækifæri, mannauð og tækni áberandi viðfangsefni næstu ár. — Morgunblaðið/Eggert
Baksvið Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Katrín Jakokbsdóttir forsætisráðherra sagðist á ársfundi Samtaka atvinnulífsins sem haldinn var í Borgarleikhúsinu í gær vona að vaxtahækkunarferli Seðlabanka Íslands væri lokið. Sagði hún í því samhengi að ríkisstjórnin hefði gripið til ýmissa aðgerða til að styðja við það verkefni Seðlabankans að halda niðri verðbólgu.

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Katrín Jakokbsdóttir forsætisráðherra sagðist á ársfundi Samtaka atvinnulífsins sem haldinn var í Borgarleikhúsinu í gær vona að vaxtahækkunarferli Seðlabanka Íslands væri lokið. Sagði hún í því samhengi að ríkisstjórnin hefði gripið til ýmissa aðgerða til að styðja við það verkefni Seðlabankans að halda niðri verðbólgu.

Mörg góð teikn á lofti

Hún sagði mörg góð teikn vera á lofti í efnahagslífinu. Afkoma ríksins hefði batnað langt umfram spár og undirliggjandi verðbólga stefndi niður á við, sem skapi forsendu fyrir lækkun vaxta sem farnir séu að bíta verulega eins og hún orðaði það. Þá sagði hún að miklu skipti að aðilar vinnumarkaðarins fengju svigrúm til að landa farsælum kjarasamningum til að tryggja að lífskjör almennings í landinu verði áfram á meðal þess besta sem þekkist. Þar muni stjórnvöld greiða fyrir eins og hægt sé.

Katrín kom víða við í ræðu sinni. Minntist hún á gervigreind og það hvernig hún væri hljóðlega að taka yfir fleiri og fleiri verkefni í samfélaginu. Þá fór hún yfir áskoranir í loftslagsmálum sem eru að hennar mati þær stærstu í samtímanum og hefðu í för með sér breytingu á lýðræðislegri umræðu sem einkenndist af síaukinni skautun. Það gerði að verkum að erfitt geti reynst að eiga opið samtal um málefnið.

Katrín ræddi einnig jafnréttismál. Hún sagði að enn væri langt í land með að útrýma óútskýrðum kynbundnum launamun hér á landi þar sem konur fái minna greitt en karlar. Sagði hún að hefðbundnar kvennastéttir væru verr launaðar en hefðbundnar karlastéttir, sem væri fráleitt.

Hún beindi orðum sínum að fundargestum, hvatti þá til dáða og sagði að Íslendingar hefðu tækifæri til að verða fyrstir í heimi til að ná fullkomnu jafnrétti.

Hægja á öldrun

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði í ræðu sinni að landsmenn væru fastir í vítahring verðbólgu og vaxta.

Þá fór hún yfir helstu áherslumál samtakanna á næstu árum, þar sem grænar lausnir, vaxtartækifæri, mannauður og tækni eru stóru málin.

Hún ræddi einnig um vinnumarkaðinn og sagði að Ísland kæmi til með að treysta á aðflutta til að standa undir hagvexti framtíðarinnar. „[…] aðfluttir hægja jafnframt á öldrun þjóðar, auka fjölbreytileika í menningu og þekkingu. Fyrirtæki eru ekkert án fólks og því er mannauður Íslands okkur hjartans mál. Náttúruleg fjölgun íbúa á vinnualdri á Íslandi getur einungis staðið undir 0,5% hagvexti og því þarfnast hagvöxtur umfram 0,5% aðfluttra einstaklinga til þess að sinna þeim störfum sem verða til,“ sagði Sigríður.

Þrálát verðbólga

Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður SA, sagði í ræðu sinni að verðbólgan hefði reynst þrálátari en gert hefði verið ráð fyrir. Þá sagði hann að það hlyti að vera sameiginlegt markmið aðila vinnumarkaðarins, stjórnvalda og Seðlabanka Íslands að ná verðbólgunni sem fyrst í námunda við markmið bankans. Með samtakamætti myndi það hafast.

Hann lagði einnig áherslu á aðhald í ríkisfjármálum og skynsamlega kjarasamninga. Taldi hann að stýrivextir hefðu nú væntanlega náð hámarki enda væru merki um að aðgerðir Seðlabankans hefðu þegar dregið úr þenslu í hagkerfinu.

Hann lýsti í ræðu sinni einnig áhyggjum af hægagangi í uppbyggingu nýrra orkumannvirkja. „Markmið stjórnvalda um orkuskipti eru mögulega í hættu og því til viðbótar má búast við að hægja muni á almennri uppbyggingu í atvinnulífinu vegna orkuskorts ef fram heldur sem horfir. Hér er átt við bæði raforku og jarðvarma. Það er öfugsnúið að skammta þurfi heitt vatn í kuldaköstum á höfuðborgarsvæðinu og að fiskimjölsverksmiðjur þurfi að nota jarðefnaeldsneyti þegar þær hafa komið sér upp búnaði til að nýta hreina raforku til að knýja framleiðslutæki sín,“ sagði Eyólfur í ræðu sinni.