Á laugardag datt Ingólfi Ómar í hug að lauma að mér eins og einni hestavísu: Svörðinn flettir, teygir tá, tifar létt á grjóti. Fótum nettum flýgur á farar glettinn skjóti. Enn sagði Ingólfur Ómar: Það er farið að frysta og veturinn er á næsta leiti

Á laugardag datt Ingólfi Ómar í hug að lauma að mér eins og einni hestavísu:

Svörðinn flettir, teygir tá,

tifar létt á grjóti.

Fótum nettum flýgur á

farar glettinn skjóti.

Enn sagði Ingólfur Ómar: Það er farið að frysta og veturinn er á næsta leiti. Datt í hug að lauma að þér eins og einni vísu:

Stráin falla, stirðnar jörð,

stormar allir næða.

Hamrastalla hlíð og skörð

hjúpar mjallarslæða.

Hallgrímur Indriðason á Akureyri sendi mér eina kuldalega vísu:

Úti er kuldi andskotans,

ekki kominn vetur þó.

Nístir að beinum meðalmanns,

meðan aular niður snjó.

Pétur Stefánsson gaukaði til mín þessum vísum, sú fyrri er veðurvísa en sú seinni um tómstundir hans á myrkum vetrarkvöldum:

Himinn grár og gugginn er,

grætur tárum óður.

Ýfast bárur út við sker,

orgar kári móður.

Löngu kveldin ljúf og blíð

ljóðaelda kveikja.

Í myrkraveldi og vetrartíð

ég vísna held til leikja.

Mógils Katan sendi mér góðan póst: Kváraverkfall:

Nú kvárin og konurnar þylja

en karlarnir það ekki skilja,

því margt snýr á haus,

rasshögg og raus.

Full „laun“ í verkfalli vilja.

Sigurlín Hermannsdóttir yrkir á Boðnarmiði:

Værukær er karlanginn

kríu fær sér stundum.

Slær á lær í sérhvert sinn

sem hann hlær á fundum.

Jóhann S. Hannesson yrkir:

Maður hlýtur að telja á því tormerki

að tala á þorra um vormerki,

þó svolítið hlýni,

nema helst þá í gríni

og með hugsuðu öfugu formerki.

Limra eftir Kristján H.
Theodórsson:

Í fréttum þeir segja að sunnan,

um sómamann þó nokkuð kunnan.

Hann ábyrgðir axli,

með einbeittum jaxli,

en aldeilis tóm sé hans tunnan.


Þó svo minn ágæti afi
í ættfræði rýni og grafi
og þreifi um áana alla
enga hann finnur þar skalla
á hann þó synina sjö
sem samanlagt hár hafa tvö.
Ólafur Stefánsson: Var að horfa á þýska veðurkortið. Þar hafa skipast veður í lofti. Eftir heitasta haust „ever“ er kominn grimmur vetur sumstaðar:
Þar sem fyrir þremur dögum
þrjátíu gráður á mæli stóðu,
malbikstaumar á götu glóðu,
gerist sporrækt með snjó í drögum.
Þorgeir Magnússon er fyrirhyggjusamur og praktískur:
Vissa hluti verið getur
viðeigandi upp að grafa
núna þegar nálgast vetur:
nagladekk og gluggaskafa.
Halldór Blöndal