Í vikunni gustaði um klerka líkt og við vígslubiskupsvígsluna 2022 að ofan, en úrskurðarnefnd sagði Agnesi M. Sigurðardóttur hafa borið bagal sinn, mítur og innsigli í í óleyfi frá fyrra sumri og landið eiginlega biskupslaust síðan.
Í vikunni gustaði um klerka líkt og við vígslubiskupsvígsluna 2022 að ofan, en úrskurðarnefnd sagði Agnesi M. Sigurðardóttur hafa borið bagal sinn, mítur og innsigli í í óleyfi frá fyrra sumri og landið eiginlega biskupslaust síðan. — Morgunblaðið/Björn Björnsson
Þingmenn ríkisstjórnarflokkanna skunduðu á Þingvöll og treystu sín heit á fyrsta sameiginlega vinnufundi þingflokkanna á þessu kjörtímabili. Að sögn var ágæt stemning í hópnum, en færra kom fram um hvaða ágreiningsefni flokkunum hefði tekist að jafna

14.10-20.10

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Þingmenn ríkisstjórnarflokkanna skunduðu á Þingvöll og treystu sín heit á fyrsta sameiginlega vinnufundi þingflokkanna á þessu kjörtímabili. Að sögn var ágæt stemning í hópnum, en færra kom fram um hvaða ágreiningsefni flokkunum hefði tekist að jafna.

Fundur stjórnarþingmanna var haldinn eftir viðræður leiðtoga stjórnarflokkanna um skipan ráðuneyta, verklag og áherslumál á síðari hluta kjörtímabilsins. Grunnt hefur verið á því góða milli flokkanna, en eftir að Bjarni Benediktsson tilkynnti brotthvarf úr fjármálaráðuneytinu varð það brýnna, ætti stjórnin að lifa.

Isavia áætlar að verðmæti Keflavíkurflugvallar verði um 240 milljarðar króna eftir að byggingu nýrrar austurálmu lýkur. Í innviðaráðuneytinu hafa menn ekki minni hugmyndir um verkefni sín og er farið að dreyma um að leggja járnbrautarlest suður á völl, sem kostað gæti um 50-500 milljarða kr.

Sama dag greindi eldfjallaprófessorinn Þorvaldur Þórðarson frá því að hann gerði ráð fyrir næsta eldgosi á Reykjanesskaga á næsta ári.

Fótboltamaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson lék fyrsta leik sinn með landsliðinu í tæp þrjú ár, en hann var úr leik vegna rannsóknar í Bretlandi sem felld var niður. Ísland gerði jafntefli við Lúxemborg, 1-1.

Fram kom að flugfélagið Lufthansa, sem flýgur hingað til lands, hefði aldrei skilað farþegaupplýsingum til íslenskra stjórnvalda eins og því er skylt. Í framhaldinu vöknuðu spurningar um hvers vegna félaginu væri leyft að lenda hér.

Verið er að stilla loftræstikerfi og rakastig í Eddu í aðdraganda þess að handritin verði flutt þangað. Veðbankar eru þegar komnir með stuðla um það hvenær þjóðararfurinn verði myglu að bráð.

Myndlistarkonan Myriam Bat-Yosef lést í París 92 ára.

Ráðherraskipti urðu á ríkisráðsfundi síðastliðinn laugardag, en þá skiptust sjálfstæðismennirnir Bjarni Benediktsson og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir á ráðuneytum, hann fór í utanríkismálin og hún í fjármálin.

Dr. Sharon Nazarian, stjórnarmaður í ADL, alþjóðlegum mannréttindasamtökum gegn gyðingahatri, segir að Ísland sé ekki laust við gyðingaandúð og bendir þar m.a. á félagið Ísland-Palestínu sem rækti tengsl við Hamas og neiti að fordæma skelfileg hryðjuverk þeirra og fjöldamorð í Ísrael.

Lús leggst nú á fisk í sjókvíum í svo auknum mæli að Matvælastofnun hefur gefið leyfi fyrir lyfjagjöf við henni. Ástæðan er talin sú að lúsin sé farin að aðlagast hitastigi í sjónum hér, sem upphaflega hélt aftur af henni.

Tónlistarkonan Laufey Lín Jónsdóttir er talin afar líkleg til tilnefninga til Grammy-verðlauna, en þær verða kunngerðar í komandi mánuði. Verðlaunin verða svo afhent í febrúar á næsta ári.

Allir dómarar landsins eru taldir vanhæfir í máli Ástríðar Grímsdóttur héraðsdómara og íslenska ríkisins. Þess í stað verða fimm félagar þeirra – tveir úr lagadeild, tveir lögmenn sem eiga mikið undir velvilja dómara og einn fv. dómari fengnir til þess að leggja fullkomlega hlutlaust mat á málið.

Úrskurðarnefnd þjóðkirkjunnar komst að þeirri niðurstöðu að Agnes M. Sigurðardóttir biskup hefði verið vanhæf til að gegna embætti eftir að skipunartími hennar rann út 1. júlí 2022. Við þetta má segja að landið sé biskupslaust, biskup a.m.k. í uppnámi og kristindómurinn í kreppu.

Agnes biskup kvaðst þegar í stað ætla að skjóta málinu til dómstóla.

Borgarlínan er mörgum árum á eftir áætlun, en til stóð að taka 1. áfanga í notkun nú í ár, en framkvæmdir eru ekki einu sinni hafnar. Það mun tefjast um a.m.k. fimm ár og margháttaðar samgönguframkvæmdir aðrar í uppnámi.

Karlalandsliðið í fótbolta hældist um af 4:0-sigri á Liechtenstein.

Sumarið hefur verið ákaflega lélegt þegar horft er til laxveiði.

Bruni varð í leiguherbergjum á Höfðanum. Flestir íbúa komust óhultir út, en einn ekki og lést á sjúkrahúsi síðar.

IKEA hefur sett upp jólageitina við hlið bensínstöðvar Costco í Garðabæ, en hún hefur ekki verið brennd síðan jólin 2016.

Agnes M. Sigurðardóttir biskup kvaðst taka úrskurð um hæfi sitt alvarlega. Til greina komi að hún feli vígslubiskupum sínum tilteknar ákvarðanir, en það gæti þó reynst snúið því að hún vígði þá báða og vígsla vígslubiskupanna því víxlverkandi vafamál.

Tveir piltar skvettu stíflueyði framan í 12 ára skólasystur sína á lóð Breiðagerðisskóla. Lögregla og Þorkell Daníel Jónsson skólastjóri vörðust allra frétta af atburðinum, en þó spurðist út að svipuð árás hafði verið gerð í sama skóla viku fyrr, án þess að greint hefði verið frá henni.

Borgarstjórn bað þá afsökunar sem sættu illri meðferð og uppeldistilgátum á vöggustofum á liðinni öld.

Malarhaugum hefur verið hrúgað upp í miðju íbúðahverfi í Árskógum í Breiðholti, en Reykjavíkurborg hefur ekki viljað gefa neinar
upplýsingar um þá. Á meðan
fýkur sandur og leir inn á heimilin í kring.

Nýr starfshópur verður skipaður um nýja Sorpustöð í stað þeirrar sem loka þarf á Dalvegi í Kópavogi. Fallið hefur verið frá fyrri hugmynd um að setja endurvinnslustöð í kirkjugarðinn við Lindakirkju, sem féll í blandaðan jarðveg hjá Kópavogsbúum.

Hótelherbergjum hefur fjölgað jafnt og þétt í landinu og eru þau orðin nær 12 þúsund talsins. Fráfarandi borgarstjóri boðar byggingu 11 nýrra hótela í borginni, en Isavia – æðstráðandi til sjós og lands – vill reisa stærsta hótel landsins á hinum ömurlega rokrassi á Miðnesheiði.

Grynnkað hefur á jarðneskum fjársjóðum þjóðkirkjunnar, en aðkeypt lögfræðiþjónusta hennar á þessu ári nemur nær 23 milljónum króna, en biskup enn í uppnámi.

Lögmaður sagði að sem stæði væri enginn biskup yfir Íslandi. Í Landakoti ræskti sig biskup.

Lögreglan viðurkenndi mistök í Drangahraunsmálinu, en rannsóknarlögregluþjónum yfirsást morðvopnið. Dóttir hins látna fann í vikunni blóðugan hníf á heimili þeirra, fjórum mánuðum eftir að lögregla hnusaði af vettvangi. Ósennilegt er að það breyti nokkru um rannsóknina þar sem morðinginn er búinn að játa á sig verknaðinn.

Aftur á móti munu íslenskar ömmur og afar aldrei hafa verið fleiri, sem sjálfsagt er að fagna með kandísmola.

Íslensk stjórnvöld hafa sent um 1.300 milljónir króna til Palestínu á liðnum áratug, en þar af má gera ráð fyrir að liðlega hálfur milljarður króna hafi farið til Gasasvæðisins, þar sem hryðjuverkasamtökin Hamas gína yfir öllu.

Stefán Reynir Gíslason, kórstjóri og organisti, lést 68 ára.

Ólafur Ragnar Grímsson setti Hringborð norðurslóða í tíunda sinn, en það er að þessu sinni helgað heimildarmynd um forsetann fyrrverandi, Úr þorpi í heimsþorpið.

Skoðanakönnun sýndi að yfirgnæfandi meirihluti almennings telur að hóflegir kjarasamningar séu forsenda lækkunar vaxta og verðbólgu. Meirihlutinn telur lítið eða ekkert svigrúm til launahækkana hjá sínum vinnuveitanda.

Búist er við því að mikil truflun geti orðið af kvennafrídeginum 24. október, enda bæði konur og kvár hvött til þátttöku. Kvár er ókyngreint nafnorð um fullvaxta mann, svo þar er boðað til allsherjarverkfalls svo konurnar þurfi ekki að vera einar.