Kolbrún Bergþórsdóttir
kolbrun@mbl.is
Erla Þórarinsdóttir sýnir sautján verk á sýningu sinni 107.000 km/klst í Portfolio galleríi á Hverfisgötu.
Sýningarsalurinn er á tveimur hæðum. Á efri hæð eru átta verk sem eru gerð með olíulitum og blaðsilfri.
„Blaðsilfur er ljósnæmt og það er mikil birta í verkunum,“ segir Erla. „Verkin eru gerð á covid-tímanum og núna á þessu ári. Þau bera þess merki, fara inn á við og leitast við að heila og kanna það sem við sem manneskjur eigum sameiginlegt. Við erum öll saman á þessari jörð á fleygiferð, 107 þúsund kílómetrum á klukkustund, umhverfis sólina og förum einnig um eigin öxul. Við erum líka að vesenast í því að vera manneskjur og eigum í styrjöldum og stríði, sem ég skil ekki að skuli gerast eftir heimsfaraldur.“
Teikningar sem undirstaða
Í neðri salnum eru átta teikningar. „Þetta eru blýantsteikningar á karton. Ég geri einlínur, teikna lúppu eða línu sem hangir saman og fer svo aftur yfir hana þannig að línan fer að mynda þrívídd.
Ég lít á teikningar sem undirstöðu og nota kannski eitthvað af þeim í verk eða umbreyti. Mig langaði að sýna þær og sýna grunninn sem margt sprettur síðar upp af.“
Nokkur orð eru skrifuð á teikningarnar, flest á ensku og íslensku, en ekki eingöngu. „Þetta eru orð yfir hugtök og hugmyndir sem tengjast tíma tilurðar teikninganna. Synaesthesia er eitt þessara orða en það er hugtak yfir það þegar heyrn og sjón fer saman. Ahimsa er sanskrít og þýðir bókstaflega „ekki meiða“. Svo er þarna orðið súrefni sem er mjög mikilvægt, hvort sem er á covid-tíma, í andrúmslofti eða í sambandi við allt líf og tilveru.“
Erla hefur ekki sýnt mikið af teikningum á ferli sínum. „Þegar ég ferðast teikna ég og ég á mikið af skissubókum. Teikningarnar hjálpa mér að hugsa. Þegar maður veit ekki hvað er í gangi þá er gott að teikna og þá verður til eitthvað sem maður veit kannski ekki alveg hvað er. Svo kemur seinna í ljós nákvæmlega hvað það er.“
Í neðri salnum er einnig stór mynd, gerð með fölbleikum olíulit og blaðsilfri á striga. „Þetta er cobalt-fjólublátt sem er eðallitur, hann andar og er heilandi,“ segir Erla um bleika litinn. „Verkið nefnist „Core et pulm“ eða „Hjarta og lungu“ og varð til í covid. Myndin er eiginlega eins og léttur skúlptúr sem svífur í eilífðinni.“
Á leið til Kína
Spurð hvort ekki megi kalla verk hennar mjög andleg segir hún: „Líklega eru þau það, þau koma úr hinum innri andlega heimi og sameiginlegri arfleifð.“
Gallerí Portfolio var stofnað árið 2021 og Erla var fyrst listamanna til að sýna þar. „Þetta er fallegt gallerí með góðri birtu og góðu fólki og það er gaman að vera komin hingað aftur,“ segir Erla.
Teikningar eftir hana eru nú á samsýningu hjá Atelier des Empreintes í Val de Loire í Frakklandi. Í janúar tekur hún þátt í sýningu á Da Xin Art Museum í Guanzhou í Kína.
Sýning hennar í Portfolio stendur til 4. nóvember.