Þorsteinn Gunnarsson fæddist 21. október 1953 og ólst upp á bænum Teigi í Vopnafirði. „Foreldrar mínir bjuggu þar með blandaðan búskap, einkum sauðfé og kýr, þannig að ég vandist fljótt algengustu sveitastörfum. Á þessum tíma var Vopnafjörður afskekkt sveit og samgöngur takmarkaðar, einkum að vetrarlagi. Skóli sveitarinnar á Torfastöðum var heimavistarskóli þar sem ég byrjaði mitt nám á níunda ári. Þetta var áður en snjósleðar urðu staðalbúnaður á sveitabæjum og stundum var erfitt að komast til og frá skólanum. Á sumrin var oft gestkvæmt í Teigi m.a. voru enskir veiðimenn tíðir gestir þar og var ég þeim stundum til aðstoðar.“
Að loknu fullnaðarprófi frá Torfastaðaskóla í Vopnafirði tók við nám í Héraðsskólanum á Laugum í Reykjadal og þaðan lá leiðin í Menntaskólann á Akureyri (MA) en hann útskrifaðist þaðan árið 1973. „Ég kunni afar vel við mig í MA. Þetta voru miklir breytinga- og umbrotatímar, ég var í síðasta árganginum á málabraut sem lærði latínu í þrjú ár en þetta voru lærdómsrík ár og ég á margar góðar minningar og flestar góðar frá samskiptum mínum við lærifeður mína þar. Í MA kynntist ég fyrst konunni minni, Árþóru Ágústsdóttur frá Stykkishólmi, en við erum samstúdentar og má því segja að við höfum mæst á miðri leið. Sameiginlega eigum við traustan vina- og kunningjahóp frá þessum árum sem við rækjum tengslin við.“
Hugur Þorsteins stóð til frekara náms og að loknu stúdentsprófi lærði hann sálfræði við Háskóla Íslands og útskrifaðist með BA-próf 1976. Þá hófust afskipti hans af skólamálum en hann kenndi við Víghólaskóla í Kópavogi og einnig Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Tónlistarskólann í Reykjavík til 1979. Samhliða þessari kennslu lauk hann námi til kennsluréttinda 1978. „Við keyptum okkar fyrstu íbúð í Kópavogi og sonur okkar, Huginn Freyr, fæddist þegar við bjuggum þar.“
Næstu fjögur ár var Þorsteinn kennari við Menntaskólann á Egilsstöðum, sem þá var nýtekinn til starfa og jafnframt áfangastjóri fyrir allt framhaldsnám á Austurlandi. „Á Egilsstöðum byggðum við okkur hús og þar fæddist dóttir okkar Sólveig 1982.“ Síðan lá leið fjölskyldunnar á Skagann þar sem Þorsteinn kenndi í Fjölbrautaskólanum á Akranesi til 1985 en þá urðu þáttaskil þegar hann hlaut Fulbright-styrk til framhaldsnáms í uppeldisfræðum í Bandaríkjunum og fjölskyldan fluttist frá Skaganum til Athens í Ohio í Bandaríkjunum. „Það voru miklar breytingar fyrir fjölskylduna að flytja til Athens sem er lítill háskólabær við rætur Appalachia-svæðisins.“
Þorsteinn lauk doktorsprófi frá Ohio University 1990 þar sem námskrárgerð og kennslufræði var hans sérsvið. Síðan lá leiðin til Íslands að nýju. „Ég fékk strax starf í háskóla- og vísindadeild menntamálaráðuneytisins og vann þar í rúm þrjú ár. Meðfram því starfi sinnti ég reyndar af og til stundakennslu við Háskóla Íslands í uppeldis- og kennslufræði. Eitt af verkefnum mínum í ráðuneytinu var að taka þátt í að undirbúa aðild Íslands að rannsóknaáætlunum Evrópusambandsins á grundvelli EES-samningsins. Árið 1993 var ég ráðinn vísinda- og menntamálafulltrúi við sendiráð Íslands í Brussel og var í því starfi þar til ég var skipaður rektor Háskólans á Akureyri 1.9. 1994.“
Þorsteinn gegndi rektorsstarfinu í 15 ár, eða til ársins 2009. „Störf rektors á þessum tíma voru krefjandi en jafnframt gefandi. Með dugandi samstarfsfólki þar tókst að skipuleggja og byggja upp nýtt háskólasvæði, koma á fót nýjum námsleiðum, efla rannsóknir og stórauka alþjóðasamstarf. Háskólinn tók forystu í að byggja upp fjarnám hér á landi og hafði leiðandi hlutverk í norðurslóðasamstarfi á alþjóðavettvangi.“
Í ágúst 2009 var Þorsteinn ráðinn sem sérfræðingur við Rannsóknamiðstöð Íslands, Rannís, þar sem hann sinnti margvíslegum verkefnum, m.a. mati á háskólum, rannsóknastofnunum og stórum rannsóknaverkefnum, var m.a. framkvæmdastjóri Gæðaráðs íslenskra háskóla 2012-2014, vann að samræmingu norðurslóðarannsókna, m.a. á vettvangi Alþjóðlegu norðurskautsvísindanefndarinnar (e. International Arctic Science Committee (IASC) og tók þátt í að flytja skrifstofu IASC frá Potsdam í Þýskalandi til Akureyrar 2017. Árið 2020 lét Þorsteinn af störfum hjá Rannís sökum aldurs en hefur síðan sinnt ýmsum verkefnum fyrir ráðuneyti, Háskólann á Akureyri, Rannís og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar þar sem hann hefur stöðu vísindafélaga.
Þorsteinn og Árþóra fluttust frá Akureyri til Garðabæjar árið 2018. „Alla ævina hef ég verið að læra. Ég hef orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að vinna náið með mjög hæfu samstarfsfólki sem er annaðhvort að skapa nýja þekkingu eða vinnur við að styðja þá sem eru að afla nýrrar þekkingar. Fyrir mig hefur þetta verið mikið lærdómsferli og vonandi hef ég líka getað miðlað einhverju til míns samferðafólks.“
Til hliðar við vinnuna hefur Þorsteinn verið virkur í alþjóðasamstarfi. Svo nokkur dæmi séu tekin þá var hann í sendinefndinni þegar forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, fór í opinbera heimsókn til Rússlands árið 2002, hann var annar af varaformönnum í samninganefnd Íslands í tengslum við umsókn Íslands að Evrópusambandinu 2009-2013, var einn af stofnendum Rannsóknaþings norðursins árið 1999 og hefur tekið þátt í ráðgjafarráði Hringborðs norðurslóða síðan 2013. Hann hefur þegið ýmsar viðurkenningar, m.a. fálkaorðuna árið 2001. Í félagsstörfum er Þorsteinn virkur í Oddfellow-hreyfingunni og í körfuboltadeild Ungmennafélags Álftaness.
„Ég hef mjög gaman af að ferðast og stunda þá gjarnan útiveru, gönguferðir, náttúruskoðun og stangveiði. Einnig stunda ég reglulega líkamsrækt hjá Hress í Hafnarfirði, les mikið og á veturna spila ég bridge. En mest um vert er að eiga góðar stundir með stórfjölskyldunni.“
Fjölskylda
Eiginkona Þorsteins er Árþóra Ágústsdóttir, f. 4.3. 1953, grunnskólakennari. Foreldrar Árþóru voru hjónin Ágúst Þórarinsson, skipstjóri í Stykkishólmi, f. 16.8. 1916, d. 29.9. 1988, og María Bæringsdóttir, f. 2.8. 1930, d. 31.3. 2020, starfrækti gistingu í Stykkishólmi.
Börn Þorsteins og Árþóru eru 1) Huginn Freyr, f. 29.12. 1978, ráðgjafi og einn af eigendum Aton JL. Maki: Dagný Bolladóttir, kennari og markþjálfi. Þau eru búsett á Álftanesi; 2) Sólveig, f. 29.6. 1982, bókari. Maki: Haraldur Freyr Helgason, f. 11.8. 1976, stundar nám og vinnur við pípulagnir. Þau eru búsett í Mosfellsbæ. Barnabörnin eru sex.
Systkini Þorsteins eru Höskuldur Ásgeirsson, f. 29.3. 1952, framkvæmdastjóri, búsettur í Kópavogi; Erla, f. 25.3. 1955, hjúkrunarfræðingur, búsett á Kanaríeyjum, Helga, f. 8.5. 1957, náttúrufræðingur, búsett í Osló, og Einar, f. 8.4. 1960, skógfræðingur, búsettur í Reykjavík.
Foreldrar Þorsteins: Gunnar Valdimarsson, f. 25.5. 1924, d. 10.12. 2011, bóndi í Vopnafirði og fornbókasali í Reykjavík, og Sólveig Einarsdóttir, f. 24.10. 1930, húsfreyja í Vopnafirði og fulltrúi í Reykjavík.