[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég held að áramótaheit síðustu fimm ára hafi verið nákvæmlega þau sömu, vinna minna og lesa meira. Þá get ég rætt bókmenntir og verið gáfulegur, en það er reyndar fátt sem pirrar mig meira en bókasnobb, heldur finnst mér skemmtilegast að ræða nördalegar bækur sem nánast enginn hefur lesið

Ég held að áramótaheit síðustu fimm ára hafi verið nákvæmlega þau sömu, vinna minna og lesa meira. Þá get ég rætt bókmenntir og verið gáfulegur, en það er reyndar fátt sem pirrar mig meira en bókasnobb, heldur finnst mér skemmtilegast að ræða nördalegar bækur sem nánast enginn hefur lesið.

Mig langaði mikið að nefna Meistarann og Margarítu eftir Bulgakov, en ég las einhvers staðar að það væri klisja. Þannig að ég ætla ekki að nefna hana. Sú bók sem ég er að lesa akkúrat núna heitir If Cats Disappeared from the World eftir Genki Kawamura, hún samtvinnar á listilegan hátt svolítið tristan raunveruleika með dass af heilsukvíða og köttum, kettir gera allt betra.

Það gerir líka bókin Felidae eftir Akif Pirinçci, ég man enn eftir snilldinni að koma sér inn í hugarheim kattar sem vill leysa sakamál, og lýsingarnar eru oft og tíðum bráðfyndnar. Ég hef alltaf verið smá veikur fyrir glæpasögum og hvað þá með köttum.

Síðasta glæpasagan sem ég las, fyrir utan Dicte og Stieg Larsson sem eru aldrei langt undan, var Útlagamorðin eftir Ármann Jakobsson. Virkilega áhugaverð lesning sem ég spændi upp á tveimur kvöldum, mæli með. Ég vil annaðhvort yfirgengilega krimma eða napurlegan realisma, og nánast ekkert á milli.

Kitchen eftir Banana Yoshimoto hakar við síðari kríteríuna. Dásamleg bók með stórfenglegum karakterum, maður sveif í gegnum bókina og um leið og henni var lokið þá saknaði maður hennar.

Svona svipað og Dagbók bóksala eftir Shaun Bythell, fékk svipaða tilfinningu þar, maður saknaði hreinlega pirraða en indæla bóksalans um leið og lestri lauk og vonaði innst inni að hann myndi rústa Amazon í eitt skipti fyrir öll.