Handrit Guðrún Nordal forstöðumaður Árnastofnunar líkir verkefninu við brúarsmíði þar sem kynslóðabil hér heima og í vestri er brúað.
Handrit Guðrún Nordal forstöðumaður Árnastofnunar líkir verkefninu við brúarsmíði þar sem kynslóðabil hér heima og í vestri er brúað. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Árnastofnun opnar í dag nýjan gagnagrunn, Handrit íslenskra vesturfara, sem verður aðgengilegur almenningi og inniheldur yfir 1.000 handrit sem Katelin Marit Parsons, verkefnastjóri átaksins Í fótspor Árna Magnússonar í Vesturheimi, og hennar hópur hafa tekið saman í Vesturheimi

Geir Áslaugarson

geir@mbl.is

Árnastofnun opnar í dag nýjan gagnagrunn, Handrit íslenskra vesturfara, sem verður aðgengilegur almenningi og inniheldur yfir 1.000 handrit sem Katelin Marit Parsons, verkefnastjóri átaksins Í fótspor Árna Magnússonar í Vesturheimi, og hennar hópur hafa tekið saman í Vesturheimi. Átaksverkefnið felur í sér að finna, skoða og greina alls kyns handrit sem íslenskir vesturfarar skildu eftir sig í vestri.

Gríðarlega mikið efni

Guðrún Nordal, forstöðumaður Árnastofnunar og prófessor, segir þetta vera gríðarlega mikið af efni sem verður miðlað til almennings. Eitt meginmarkmið verkefnisins er að brúa bilið á milli eldri kynslóða sem sömdu efnið og yngri kynslóða, bæði vestra og hér heima, en nú eru liðin 150 ár síðan fyrsti stóri hópur vesturfara fór vestur um haf. Kynslóðabilið er því orðið ansi stórt á milli yngstu kynslóða og þeirra sem héldu vestur fyrir einni og hálfri öld. Í því samhengi segir Guðrún að eðlilega missi afkomendur vesturfara meiri tengsl við íslenskuna með hverri kynslóð og það hafi verið einn hvati að gagnagrunninum að sjá til þess að gögnin í fórum þessara afkomenda féllu ekki í gleymsku.

Guðrún tekur þó sérstaklega fram að markmið vefsins hafi aldrei verið að koma handritunum til Íslands, en eins og fram kom í viðtali Morgunblaðsins við Katelin Marit Parsons í vikunni voru stafrænar myndir teknar af handritunum. Katelin sagði að handritin hefðu einnig mikla merkingu fyrir afkomendur vesturfara og að þetta væri í raun sameiginlegur arfur okkar.

Mikil vinna fram undan

Guðrún líkir verkefninu við eins konar brúarsmíði á milli gagnanna og notendanna. Þannig gæti notandi sem hefur einstakan áhuga á einhverju ákveðnu skjali kynnt sér uppruna þess og hvar það er geymt.

Þetta er fyrsti áfangi verkefnisins sem felur í sér heilmikla vinnu. Guðrún bendir á að auðvitað sé ekki bara nóg að skrá efnið heldur þurfi einnig að greina það til þess að það nýtist. Verkefnið er hugsað fyrir almenna notendur fyrst og fremst og verið er að tengja saman sögur vesturfara fyrir notendur vefsins. Vefurinn verður einnig aðgengilegur á ensku, enda er hann ekki einungis ætlaður Íslendingum heldur einnig afkomendum vesturfara í vestri.

Að lokum nefnir Guðrún sérstaklega þá Svavar Gestsson, fyrrverandi ráðherra og stjórnarmeðlim Þjóðræknisfélagsins, og Halldór Árnason, fyrrverandi stjórnarformann Þjóðræknisfélagsins, sem hvatamenn verkefnisins. Guðrún segir þá báða hafa veitt verkefninu mikinn stuðning.

Gagnagrunnurinn verður opnaður á opnunarþingi í Eddu, húsi íslenskra fræða, og hefst dagskráin klukkan 13.30 í dag.

Höf.: Geir Áslaugarson