40 ára Salóme ólst upp í Hlíðunum í Reykjavík en hefur hreiðrað um sig með fjölskyldu sinni í Urriðaholti í Garðabæ. Hún er viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og með AMP-stjórnendagráðu frá IESE í Barcelona. Hún var framkvæmdastjóri Icelandic Startups á árunum 2014-2021, starfaði síðan fyrir sprotasjóð Eyris og tók nýlega við sem framkvæmdastjóri rekstrar hjá fyrirtækinu Justikal þar sem hún ber ábyrgð á daglegum rekstri og sókn félagsins á erlenda markaði. „Justikal hefur byggt stafrænt réttarkerfi samkvæmt ítrustu öryggisstöðlum og gerir aðilum í dómsmálum kleift að meðhöndla gögn á öruggan og rekjanlegan hátt. Kerfið veitir málsaðilum jafnframt aukið gagnsæi og yfirsýn yfir stöðu sinna mála og er hannað til að auka þægindi þeirra sem það nota umtalsvert.“
Salóme hefur gegnt ýmsum nefndar- og stjórnarstörfum í íslensku atvinnulífi. Hún situr í stjórn Viðskiptaráðs Íslands og Sýnar og er einnig leiðbeinandi við MBA-nám Háskólans í Reykjavík. Áhugamálin eru mörg, m.a. hreyfing og matargerð. „Ég lyfti lóðum og geri æfingar í heitum sal. Mér finnst líka gaman að elda mat sem er fallegur, litríkur og bragðgóður. Framsetningin er svo lykilatriði, það eru stóru smáatriðin! Mér þykir gaman að hóa fólki saman, skapa minningar og eiga góðar stundir með fjölskyldu og vinum.“
Fjölskylda Eiginmaður Salóme er Ársæll Páll Óskarsson, f. 1990, pípulagningameistari og rekur eigið fyrirtæki. Börn þeirra eru Benjamín, f. 2018, nemandi við Ísaksskóla, og Katrín, f. 2021. Foreldrar Salóme eru hjónin Guðmundur Magnússon, f. 1956, sagnfræðingur og fv. blaðamaður á Morgunblaðinu, og Vaka Hjaltalín, f. 1956, móttökuritari hjá Veritas.