Ben-Yehuda-stræti Götuskilti í Jerúsalem á hebresku, arabísku og ensku.
Ben-Yehuda-stræti Götuskilti í Jerúsalem á hebresku, arabísku og ensku. — Shutterstock/Stanislav Samoylik
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Heimsbyggðin horfir í örvinglun á hryllilegt blóðbað fyrir botni Miðjarðarhafs þar sem Ísraelar og Palestínumenn berast á banaspjót sem aldrei fyrr. Ástandið er þeim mun hörmulegra þar sem tungumál þeirra, hebreska og (palestínsk) arabíska, eru náskyldar greinar á meiði semísku málafjölskyldunnar

Tungutak

Þórhallur Eyþórsson

tolli@hi.is

Heimsbyggðin horfir í örvinglun á hryllilegt blóðbað fyrir botni Miðjarðarhafs þar sem Ísraelar og Palestínumenn berast á banaspjót sem aldrei fyrr. Ástandið er þeim mun hörmulegra þar sem tungumál þeirra, hebreska og (palestínsk) arabíska, eru náskyldar greinar á meiði semísku málafjölskyldunnar. Semísk mál eru svo hluti af afróasísku málaættinni.

Elsta heimild á hebresku er Gamla testamentið, ritað 1200-165 f.Kr. Hebreska var upphaflega töluð í Kananslandi, þar sem í nú eru Ísrael, Líbanon, Jórdanía og Sýrland. Til forna var það áhrifasvæði stórvelda eins og Hettíta, Forn-Egypta og Assýríumanna. Hebreska var raunar liðin undir lok sem talmál á dögum Krists og næstum eingöngu notuð sem helgimál. Málið sem Jesús talaði var arameíska, sem er náskyld hebresku og enn töluð í Miðausturlöndum (m.a. í Írak og Íran).

Þorri gyðinga í Austur-Evrópu talaði jiddísku, hebreskuskotna þýska mállýsku sem gyðingar tóku með sér í austurveg og varð þar fyrir áhrifum af slavneskum málum. Jiddíska barst með gyðingum hvert sem þeir fluttu, m.a. til Bandaríkjanna. Í Vestur-Evrópu mæltu flestir gyðingar hins vegar á tungu þeirra landa sem þeir bjuggu í, t.d. þýsku í Þýskalandi.

Í byrjun 19. aldar var hebreska ekki lengur bundin við helgimál. Þá voru m.a. gerðar þýðingar á heimsbókmenntum, t.d. Shakespeare. Smám saman kviknaði sú hugmynd að endurvekja hebresku sem samskiptamál gyðinga. Sá sem hratt þessari hugmynd í framkvæmd var Eliezer Ben-Yehuda (‘sonur Júda’) (1858-1922). Þessi „faðir nútímahebresku“ var fæddur í Belarús sem þá var hluti af Rússaveldi. Hann fluttist til Palestínu 1881 ásamt fjölskyldu sinni og varð eindreginn formælandi síonisma. Á fullorðinsaldri tileinkaði hann sér hebresku sem talmál. Börnin hans voru fyrstu einstaklingarnir sem áttu nútímahebresku (hebr. ivrit) að móðurmáli.

Eftir heimsstyrjöldina fyrri varð Palestína breskt „verndarsvæði“. Ben-Yehuda sannfærði Breta um að gera hebresku að opinberu máli í Palestínu, ásamt ensku og arabísku. Það hélst nánast óbreytt eftir að Ísrael fékk sjálfstæði 1948 til ársins 2018. Þá varð hebreska eina opinbera málið í Ísrael (um 9 millj. málhafar) en arabíska fékk „sérstaka stöðu“ sem minnihlutamál (1,6 millj. málhafar).

Sú stefna að endurlífga útdautt tungumál – að vísu með ýmsum málfræðilegum breytingum – er einstakt fyrirbæri; sambærileg tilraun hefur aldrei verið gerð þannig að málið næði útbreiðslu í stóru samfélagi. Í hebreskri málstefnu er lögð áhersla á nýyrðasmíð og notkun gamalla orða í nýrri merkingu. Það minnir á íslensku. Hins vegar er í hebresku sægur tökuorða, einkum úr þýsku, frönsku og rússnesku, en líka úr latínu og grísku, og vitaskuld í auknum mæli úr ensku. Þessi saga er heillandi en sama verður ekki sagt um ástandið í Austurlöndum nær. Þar er kveðin heimsendaspá um dauða og tortímingu.