Franska tónskáldið Francis Poulenc (1899-1963) verður í brennidepli á þriðju tónleikum Kammermúsíkklúbbsins sem verða haldnir í Norðurljósum Hörpu á morgun, sunnudaginn 22. október, kl. 16. Á þessu ári eru 60 ár liðin frá andláti Poulencs og falleg og fjörug tónlist hans hefur sjaldan verið vinsælli. Poulenc varð snemma þekktur í listalífi Parísarborgar sem snjall píanóleikari og frumlegt tónskáld, en ekki síður frægt og orðheppið samkvæmisljón. Hann var að mestu sjálfmenntaður sem tónsmiður og samdi tónlist af flestum gerðum, píanótónlist, kammertónlist, sönglög, trúarlega tónlist og óperur. Kímni, glens og góðlátleg kaldhæðni einkennir mörg verka hans, en í höfundarverki hans má einnig finna mikla dýpt, trúarlegan innileika og drama.
Á efnisskrá tónleikanna í Hörpu eru sex verk fyrir blásara og píanó frá ýmsum tímum á ferli tónskáldsins. Flytjendur eru í fremstu röð hljóðfæraleikara á Íslandi, þau Pamela De Sensi flauta, Eydís Franzdóttir óbó, Ármann Helgason klarínetta, Kristín Mjöll Jakobsdóttir fagott, Joseph Ognibene horn og píanóleikarinn Ingunn Hildur Hauksdóttir.