Vasyl og Matvii Vasyl flutti til Íslands fyrir átta árum og Matvii fyrir einu ári, en hann er stríðsflóttadrengur.
Vasyl og Matvii Vasyl flutti til Íslands fyrir átta árum og Matvii fyrir einu ári, en hann er stríðsflóttadrengur. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég áttaði mig fljótt á að þessir strákar væru afburðanemendur, því ég hef verið tónlistarkennari í 35 ár og það leynir sér aldrei þegar börn búa yfir yfirburðahæfileikum. Þau bera í sér einhvern eld sem er þeirra innri drifkraftur, en það þarf að…

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Ég áttaði mig fljótt á að þessir strákar væru afburðanemendur, því ég hef verið tónlistarkennari í 35 ár og það leynir sér aldrei þegar börn búa yfir yfirburðahæfileikum. Þau bera í sér einhvern eld sem er þeirra innri drifkraftur, en það þarf að viðhalda eldinum og því þarf líka að koma til metnaður og vinnusemi. Þetta þarf alltaf að fara saman og gerir það svo sannarlega hjá þeim báðum,“ segir Nína Margrét Grímsdóttir, deildarstjóri framhaldsdeildar hjá Tónskóla Sigursveins, en úkraínsku drengirnir Vasyl Zaviriukha, 14 ára, og Matvii Levchenko, 12 ára, eru báðir nemendur hennar. Þeir eru fæddir í Úkraínu en Vasyl hefur búið á Íslandi í átta ár og Matvii aðeins í rúmt ár. Báðir hafa þeir unnið til fjölda verðlauna bæði hér heima og erlendis eftir að þeir fluttu til Íslands.

„Á þeim sex árum sem Vasyl hefur stundað píanónám hjá mér hefur hann unnið til 11 innlendra og alþjóðlegra verðlauna í píanókeppnum, komið fram á tónleikum Sinfóníunnar og leikið í útvarpi og sjónvarpi. Hann er óumdeilanlega fremsti píanistinn í sínum aldursflokki, 14 ára og yngri, efnilegra píanóleikara hér á landi. Vasyl vann til verðlauna núna í lok september í Tapiola Youth, píanókeppni sem fram fór í Finnlandi, en verðlaunin voru veitt fyrir framúrskarandi tónleikaflutning á verki tónskálds frá barokktímabilinu. Þetta eru þriðju alþjóðlegu verðlaunin sem hann hlýtur í píanóleik á þessu ári, því hann vann líka Jury Discretionary-verðlaunin í 2nd Nordic Junior píanókeppni í Svíþjóð í vor og einnig vann hann til verðlauna í konsertkeppninni International Summer Academy & Festival í Grikklandi í ágúst, en þar lék hann Haydn-píanókonsertkafla með Sinfonietta-hljómsveit Aþenu. Það er nánast sama hvaða verkefni ég fel honum, hann gerir það fullkomlega. Þetta er alveg með ólíkindum.“

Nína segir að Vasyl hafi verið aðeins átta ára þegar hann kom í nám til hennar en þá hafði hann engan bakgrunn í tónlistarnámi.

„Hann átti lítið rafmagnshljómborð og hafði verið að kenna sjálfum sér á það eftir myndböndum á Youtube. Hann las ekki nótur en var greinilega með mjög fínt tóneyra, því hann kom og spilaði fyrir mig fyrsta hlutann á verki Liszts La Campanella sem hann hafði lært utan að. Þetta var alveg dásamlegt,“ segir Nína og bætir við að þegar foreldrar Vasyls hafi keypt handa honum alvöru píanó hafi orðið gríðarlegar framfarir hjá honum á stuttum tíma.

„Hann er einstaklega fljótur að læra og fyrir vikið var hann mjög ungur þegar hann tók grunnpróf og miðpróf. Hann var aðeins níu ára þegar hann spilaði Bach-prelódíu í Hörpu.“

Algerlega einstakur

Nína segir að Matvii hafi á því eina ári sem hann hefur verið í námi hjá henni unnið konsertkeppni hérlendis og að hann hafi farið ásamt Vasyl og tveimur öðrum nemendum hennar til Svíþjóðar að keppa sl. vor.

„Núna er Matvii að undirbúa sig fyrir Amadeus-keppni í Tékklandi í lok nóvember en þá verða keppendur að leika verk eftir Mozart. Auk þess mun hann leika einleik í píanókonsert Mozarts K414 með Sinfóníuhljómsveit áhugamanna í febrúar á næsta ári. Matvii flutti til landsins í fyrravor í kjölfar stríðsins, hann er því stríðsflóttadrengur og ég byrjaði að kenna honum strax í fyrrasumar. Það leyndi sér ekki að hann væri afburðanemandi, hann er með ótrúlega næmt tónlistareyra, hann þarf ekki annað en að hlusta á píanókonsert Tchaikovskys og þá getur hann spilað fyrsta hlutann, þó hann hafi aldrei séð nóturnar. Auk þess semur hann líka tónlist. Hann er algerlega einstakur, rétt eins og Vasyl,“ segir Nína og bætir við að vegna tungumálaörðugleika hafi kennslan vissulega verið áskorun til að byrja með.

„Matvii er ofurklár og hafði náð góðum tökum á enskunni eftir aðeins þrjá mánuði hér og nú skilur hann íslensku vel. Vasyl náði tökum á íslenskunni á undraverðum tíma, en það er sama hvort það eru tungumál, stærðfræði eða aðrar greinar, þeir skara fram úr á öllum sviðum þessir strákar. Þetta eru svakalega miklir afburðadrengir,“ segir Nína sem vinnur með afburðanemendur saman í hópum.

„Þau fá mikinn stuðning hvert af öðru og þegar ég hef farið með þau í keppnir erlendis þá finn ég hvað þessi stuðningur skiptir miklu fyrir þau. Afar áríðandi er að hitta aðra nemendur í öðrum löndum til að geta borið sig saman við það sem þeir eru að gera. Hljómsveitarkrakkarnir fara í strengjasveit og æfa saman en píanistarnir eru mikið einir og koma fram einir, því er einstakt fyrir mig að hafa tvo afburðapíanista í mínum hópi núna sem eru báðir frá Úkraínu.“

Lífið snýst um tónlistina

Vasyl segir ástæðu þess að hann flutti frá Úkraínu til Íslands fyrir átta árum vera þá að mamma hans hafi kynnst manni sem býr á Íslandi.

„Við mamma bjuggum bara tvö saman heima í Úkraínu en við fluttum hingað þegar mamma og þessi maður sem núna er fósturpabbi minn tóku saman. Þau keyptu handa mér rafmagnspíanó og ég byrjaði að æfa mig á það og langaði strax að fara í tónlistarnám og byrjaði þá hjá Nínu. Núna snýst líf mitt mikið um tónlistina, ég þarf að æfa mikið og líka keppa, bæði hérna heima á Íslandi og fara í keppnisferðalög til útlanda,“ segir Vasyl sem kveðst ekki pæla mikið í framtíðinni, það muni koma í ljós hvernig þetta þróist hjá honum.

„Mér finnst mjög gaman að taka þátt í keppnum og ferðast og ég er með mikið keppnisskap. Ég æfi í þrjá til þrjá og hálfan tíma á hverjum einasta degi og mæti í tíma hjá Nínu tvisvar í viku, en daglega þegar keppni er fram undan. Ég hef kynnst mörgum krökkum í gegnum tónlistarnámið og þetta er mjög gaman.“

Matvii segist hafa byrjað í tónlistarnámi heima í Kænugarði í Úkraínu þegar hann var sjö ára.

„Ég hafði ekki fyrirmyndir á heimilinu því það er enginn tónlistarmaður í minni fjölskyldu en ég hef alltaf notið stuðnings fjölskyldu minnar frá því ég byrjaði í tónlist. Ég var mjög ungur þegar ég fann að mig langaði að læra á píanó. Mamma gaf mér leikfangapíanó þegar ég var þriggja ára og ég fékk hljóðgervil þegar ég var fimm ára. Ekki löngu síðar byrjaði ég að búa sjálfur til tónlist, með spuna, og ég tilkynnti þegar ég var sjö ára að ég vildi fara í tónlistarskóla. Ég hef verið í tónlistarnámi síðan þá,“ segir Matvii sem stefnir á nám í Dresden College of Music til að læra tónsmíðar.

„Ég vil mennta mig í þeim fræðum því ég nýt þess að semja tónlist,“ segir Matvii sem syngur einnig í Drengjakór Reykjavíkur.

Vasyl verður að fá vegabréf

Nína segir að Vasyl og móðir hans uppfylli öll skilyrði til að fá íslenskt vegabréf, og hafi fyrir löngu sótt um, en bíði enn eftir afgreiðslu hjá Útlendingastofnun.

„Það kemur í veg fyrir að hann geti tekið þátt í fleiri keppnum erlendis. Honum hefur verið boðið í þrjár keppnir á þessu ári og er kominn í úrslit í keppni í Hollandi í febrúar á næsta ári, en kemst ekki nema hann verði kominn með vegabréf. Mér finnst óásættanlegt fyrir afburðadreng sem er að keppa fyrir Íslands hönd að þetta sé ekki afgreitt strax,“ segir Nína og bætir við að fjárhagslegur stuðningur sé lítill hér á landi fyrir afreksfólk sem keppir í tónlist í öðrum löndum.

„ÍSÍ fær rúmar 500 milljónir á ári frá hinu opinbera sem eru eyrnamerktar fyrir ungt afreksfólk í íþróttum til að keppa í útlöndum, en tónlistarfólkið unga fær ekkert. Úr þessu þarf að bæta, þessir tveir drengir eru í landsliði Íslands í píanóleik og þeir hafa sýnt og sannað að þeir eru á heimsmælikvarða. Við leggjum allt í þetta og þó ég sé hugsjónamanneskja þá krefst það gríðarlegrar vinnu að taka þátt í keppnum erlendis. Vert er að geta þess að HS Orka veitti Matvii keppnisstyrk til að keppa í Tékklandi í næsta mánuði, af því hann er flóttadrengur. Þegar við fórum til Svíþjóðar studdi Tónskóli Sigursveins okkur til fararinnar, en þetta ætti að vera undir sama hatti og aðrar íþróttir þegar kemur að dýrum keppnisferðalögum.“

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir