Egill býr í Berlín og sýnir verk sín víða um heim. Nú njóta verk hans sín í Listasafni Íslands.
Egill býr í Berlín og sýnir verk sín víða um heim. Nú njóta verk hans sín í Listasafni Íslands. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir að ég sá Tove Jansson-sýningu árið 2015 í Helsinki þar sem mér fannst að múmínálfarnir væru alvöru list en ekki bara barnabókmenntir, þá sá ég að ég yrði að koma út úr skápnum með tröllin.

Egill Sæbjörnsson og óendanlegir vinir alheimsins er titill veglegrar sýningar á verkum eftir listamanninn í þremur sölum Listasafns Íslands.

Stærsti salur safnsins er ríki tröllanna Ugh and Boogar sem hafa gegnt stóru hlutverki í lífsstarfi Egils frá árinu 2008. „Við sjáum eins og inni í stofu hjá þeim þar sem er dót og verk eftir þá sem búið er að taka upp úr kössum, annað er hálfkomið úr kössunum. Þarna eru gull og gersemar sem þeir eru að búa til og við sjáum nýju vaxlitina þeirra sem eru risastórir. Sömuleiðis er þarna nýja myntin þeirra, því þeir vilja eiga eigin mynt, og hún glitrar á gólfinu,“ segir Egill.

Ugh and Boogar hafa þarna með sér sinn eigin gervigreindarspjallyrkja, sem var unninn í samvinnu við fyrirtækið Miðeind, sem er frumkvöðull í máltæknihugbúnaði fyrir íslenskt mál. Systir þeirra Gubb er svo mætt á svæðið en kanadíska tónlistarkonan Peaches túlkar hana.

Í salnum er líka að finna verk eftir Ásgrím Jónsson, Mugg, Finn Jónsson, Kjarval, hina finnsku Tove Jansson höfund Múmínálfanna og norsku listakonuna Tori Wrånes. Einnig eru þarna verk eftir Steingrím Eyfjörð og Gabríelu Friðriksdóttur, sem hafa unnið með tröll í verkum sínum. Ugh and Boogar er því þarna í afar góðum félagsskap.

Áhrif frá Jansson

„Við höfum öll okkar hugmynd um tröll og þar með eru þau mætt inn í huga hvers og eins. Við eigum þau saman. Árið 2008 byrjaði ég að gera list með tröllunum eftir að hafa séð mjög hallærislega túristastyttu af trölli á flugvellinum í Ósló. Ég var forvitinn hvort ég gæti gert list með tröllum en á þessum tíma fannst mér nánast jafn hallærislegt að vinna með tröll og fyrir listamann frá New York að vinna með Frelsisstyttuna. Mér fannst eitthvað áhugavert og ögrandi við að vinna með tröllin.“

Egill fer ekki dult með að hann sé undir áhrifum frá Tove Jansson. „Ég var að fíflast með tröllin í mörg ár en eftir að ég sá Tove Jansson-sýningu árið 2015 í Helsinki þar sem mér fannst að múmínálfarnir væru alvöru list en ekki bara barnabókmenntir, þá sá ég að ég yrði að koma út úr skápnum með tröllin. Það má segja að ég hafi frumsýnt þau árið 2017 á tvíæringnum í Feneyjum. Þar tóku þau sín fyrstu opinberu skref.“

Skúlptúrar sem verur

Í sal 2 er verkið Eggið og hænan, við eða þau frá 2011 en þar eru 49 hlutir úr pappamassa sem þykjast vera steinar. Teiknimyndum í stöðugu streymi er varpað yfir þessa hluti, sem fá þá sífellt nýja sýn og tilefni til nýrrar túlkunar.

Þrír skúlptúrar úr gifsi eru í sal 3. „Þetta eru skúlptúrar sem líta út fyrir að hafa getað verið búnir til á sjötta eða níunda áratugnum,“ segir Egill. Í hinum enda salarins er tölva með gervigreindarforriti sem skapar nýjar stafrænar myndir og varpar þeim á yfirborð skúlptúranna. „Skúlptúrarnir verða um leið allt í einu eitthvað annað en maður hélt að þeir væru. Skilaboðin eru meðal annars að hver og einn hlutur, eins og skúlptúrar, er stöðugt að senda frá sér upplýsingar. Alveg eins og bók er með sinn boðskap. Skúlptúrar eru verur, hlutaverur.“

Spurður hvernig það sé að sjá list sína í þremur sölum Listasafns Íslands segir Egill: „Það er rosa gaman. Fólkið í safninu hefur lagt mikið á sig, vakir yfir sýningunni og blæs lífi í hana. Ég er mjög þakklátur.“

Spennandi líf

Egill býr í Berlín en eyðir þó nokkrum tíma hér á landi. „Berlín er í blóma. Reykjavík er líka í blóma. Ég er með tvö stúdíó úti, annað inni í Berlín og hitt í sveit rétt fyrir utan Berlín en þar fæ ég mykjulykt, beljubaul og kindajarm og er í gífurlegri ró. Ég er líka mikið á Íslandi og er einnig á ferðinni í öðrum löndum út af sýningum og verkefnum. Þetta er mjög spennandi líf.

Ég þrífst bara innan myndlistarinnar og hún er margslungin vera og hlutategund sem við eigum samskipti við. Ef ég kem inn í herbergi og sé myndlist þá kippist ég við. Mér finnst myndlist stórkostleg.“

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir