Ávarp Biden bað um stuðning við Ísrael og Úkraínu á fimmtudag.
Ávarp Biden bað um stuðning við Ísrael og Úkraínu á fimmtudag. — AFP/Jonathan Ernst
Neyðaraðstoð við Ísrael og Úkraínu og víðar upp á rúmlega 100 milljarða dala, sem Joe Biden Bandaríkjaforseti lagði til í ávarpi til þjóðarinnar á fimmtudagskvöld, er nú í uppnámi, því engin aðstoð getur farið í gegn nema hún sé samþykkt af starfhæfri fulltrúadeild með kosnum forseta

Neyðaraðstoð við Ísrael og Úkraínu og víðar upp á rúmlega 100 milljarða dala, sem Joe Biden Bandaríkjaforseti lagði til í ávarpi til þjóðarinnar á fimmtudagskvöld, er nú í uppnámi, því engin aðstoð getur farið í gegn nema hún sé samþykkt af starfhæfri fulltrúadeild með kosnum forseta. Biden sagði að þessi fjárútlát myndu skila sér margfalt þegar fram liðu stundir, en í Bandaríkjunum heyrast nú raddir um að draga þurfi úr stuðningi við Úkraínu. Vladimír Pútín Rússlandsforseti brást illa við ræðu Bidens og sagði hneyksli að bera saman árás hryðjuverkasamtakanna Hamas við innrás Rússa í Úkraínu.

Tapar í þriðja skiptið

Þriðja kosningin um Jim Jordan í forsetaembætti fulltrúadeildarinnar var haldin í gær og hefur atkvæðum honum í vil fækkað með hverri kosningu. Þrír repúblikanar bættust í hóp þeirra sem kusu gegn Jordan og voru þeir alls 25 sem ekki kusu hann. Hótanir sem repúblikanar og fjölskyldur þeirra hafa fengið frá harðlínustuðningshópi Jordans hafa vakið mikla hneykslan, en Jordan segir þær ekki á sínum vegum. Eftir lokaðan fund repúblikana í gær var ákveðið að Jordan færi ekki fram í fjórða sinn, en ekki er vitað hvort nýr kandídat er í sjónmáli. doraosk@mbl.is