Halldór Ólafsson fæddist 23. júlí 1937. Hann lést 20. september 2023.

Útför Halldórs fór fram 28. september 2023.

Hvítan jökul

hátt við himin ber.

Grænn dalur

gróðri vafinn

brosir móti mér.

(Sigríður Einars frá Munaðarnesi)

Það er með djúpum söknuði sem við kveðjum afa Halldór.

Hávaxni, góði afi okkar sem tók alltaf á móti okkur með fangið fullt af hlýju og augun geislandi af glettni.

Íslandsmeistarinn í ólsen-ólsen sem varð þó að játa sig sigraðan fyrir litlu stelpuskotti sem náði honum varla í hné. Mögulega leyfði hann henni að vinna því þannig var hann, undurgóður.

Afi fylgdist alltaf vel með því sem við tókum okkur fyrir hendur. Hann sýndi því áhuga og hikaði ekki við að gefa góð ráð þegar eftir því var leitað. Honum var umhugað um að við fengjum að finna og rækta hugðarefni okkar og sagði oft hve mikilvægt það væri að fá að vinna við eitthvað sem veitti manni gleði.

Hann hafði kynnst því sjálfur þegar hann var ráðinn til starfa hjá Norrænu eldfjallastöðinni því þá fékk hann tækifæri til að dvelja löngum stundum á fjöllum þar sem honum leið best.

Það var ekki annað hægt en að hrífast með þegar afi sagði frá störfum sínum, þannig vakti hann einlægan áhuga okkar og væntumþykju gagnvart öllu sem viðkemur íslenskri náttúru. Það er enda merkilegt að eiga afa sem hefur séð hvert einasta eldgos á Íslandi frá Heklugosinu 1947.

Afi var mikill ættfræðigrúskari og sagði stundum að þessi eða hinn væri frændi okkar. Þegar skeptísk dótturdóttir nýtti Íslendingabók til að kanna málið kom oft í ljós að viðkomandi var reyndar skyldur okkur í sjötta eða sjöunda lið en frændi eftir sem áður því afi gat rakið ættirnar án nokkurrar tækniaðstoðar.

Hann var flinkur frásagnarmaður og skemmtilegast var að heyra hann segja sögur af litríkum persónum sem mótuðu æskuár hans í miðborg Reykjavíkur.

Nú verða sögurnar ekki fleiri.

Við erum þakklátar fyrir þá gæfu að hafa átt hann afa Halldór og getum hlýjað okkur við minningarnar um hann.

Tinna, Arnheiður og Jóhanna María.

Halldór Ólafsson var einn mesti mannkostamaður sem ég hef kynnst um ævina. Fyrir utan góðar gáfur og fádæma verksvit hafði hann létta lund og sérstaka hæfileika í mannlegum samskiptum. Það var gæfa eldfjallarannsókna þegar hann var ráðinn sem tæknimaður á hinni nýstofnuðu Norrænu eldfjallastöð 1973. Það átti sér raunar lengri aðdraganda en stofnun stöðvarinnar, því Halldór hafði verið sérlegur aðstoðarmaður Sigurðar Þórarinssonar við rannsóknir um langt árabil. Eftir að ég hóf störf við Raunvísindastofnun Háskólans 1975 fór ekki hjá því að verkefni okkar Halldórs sköruðust, sérstaklega eftir að umbrot hófust við Kröflu í Mývatnssveit þá um sumarið með vaxandi skjálftum. Eftirminnilegust eru ævintýri okkar í Gjástykki í mars 1977. Eftir kvikuhlaup undangengið ár hafði landris við Kröflu enn eina ferðina nálgast þau mörk að búast mátti við eldgosi eða gangainnskoti þá og þegar. Skjálftavirkni jókst í byrjun mars og var þá ákveðið að setja upp tvo nýsmíðaða jarðskjálftamæla í Gjástykki til að fylgjast með yfirvofandi gangainnskoti. Þetta voru svokallaðir sótmælar, sem skráðu hreyfingar jarðarinnar með nál á sótaðan pappír. Mælunum var komið fyrir í snjóhúsum og þurfti að sinna þeim á tveggja daga fresti, lakka sótritið og sóta nýtt blað. Við Dóri settum þá upp tjald við Sandmúla í Gjástykki og lögðumst út í tvær vikur til að sinna þessu verki. Þarna nýttist vel reynsla Dóra af fjalla- og jöklaferðum. Ýmislegt bar við, til dæmis eini eldsvoði í snjóhúsi sem ég hef haft fréttir af. Ekki er að orðlengja það að Krafla sá við okkur og hélt sínu landrisi áfram í tvo mánuði án teljandi umbrota, langt umfram fyrri mörk. Í lok apríl kom síðan lítið gos við norðurbrún Kröfluöskjunnar, skammt frá Sandmúla, en megnið af kvikunni hljóp þó neðanjarðar til suðurs, undir Bjarnarflag og allt suður undir Hverfjall. Þessu fylgdu sprunguhreyfingar og talsvert tjón á Kísiliðjunni í Mývatnssveit. Ekki varð þó útilega okkar til einskis því gögn sem söfnuðust nýttust til að afmarka svæði í jarðskorpunni á Kröflusvæðinu þar sem kviku var að finna.

Annað ævintýri okkar Dóra tengist sameiginlegu áhugamáli á allt öðru sviði. Á ferðum sínum með Sigurði Þórarinssyni safnaði Halldór kveðskap Sigurðar og skráði hjá sér. Flest bendir til þess að hann hafi haft mun betri hugmynd um afköst Sigurðar á þessu sviði en skáldið sjálft. Mörg kvæðin voru ort við þekkt lög og ætluð til söngs og skemmtunar. Gallinn var sá að það vildi gleymast hvaða lög áttu við kvæðin. Halldór var góður söngmaður og hafði gott tónminni. Við settum okkur því það verkefni fyrir allmörgum árum að skrá lögin eftir minni hans. Auk þess kunni Halldór oft sögu viðkomandi kvæðis og tilefni yrkingarinnar. Í sambandi við þetta verkefni varð til sönghópur sem æfði mörg þessara laga og flutti nokkrum sinnum á mannamótum. Sumt af þessu efni var skráð á hljómdisk og gefið út undir nafninu „Kúnstir náttúrunnar“.

Ég kveð góðan dreng, frábæran samstarfsmann og kæran vin, um leið og ég votta aðstandendum innilega samúð.

Páll Einarsson.

Elskulegur vinur okkar Halldór Ólafsson hefur nú lagt upp í sína síðustu fjallaferð.

Halldór hafði einstaka nærveru og hlýjan faðm. Hann hafði þann eiginleika að fólk sóttist í að vera nálægt honum. Hann unni íslenskri náttúru, fjöllunum, jöklunum og ferðunum öllum.

En það var einmitt á fjöllum sem einstök tengsl mynduðust á meðal þess fólks sem þar dvaldi. Vinskapur sem entist þeim öllum ævina á enda.

Góðir vinir sjá nú á bak mikilvægum liðsmanni sem sannarlega lagði sitt af mörkum til að rækta dýrmætan vinskap. Þegar fjallaferðunum fækkaði og aldur hópsins hækkaði sá Halldór til þess að félagstengslin töpuðust ekki. Í hverri viku sótti hann félaga sína sem alltaf áttu heimboð til gamalla vina. Þannig hélt hópurinn saman, rifjaði upp dýrmætar sögur úr fjöllunum, hló og átti virkilega notalegar stundir sem allir hlökkuðu til.

Sumir höfðu ekki sést í langan tíma og þessir endurfundir gáfu svo margt. Að tilheyra hópi vina á níræðis- og tíræðisaldri eru forréttindi sem seint verður þakkað fyrir. Fjöllin drógu þau saman og fjöllin munu geyma minningar þessa hóps sem á sinni löngu ævi kenndi okkur hvað er að vera sannur vinur. Guð geymi minningu elsku Dóra. Við sendum Ingu Dagnýju og fjölskyldunni allri okkar innilegustu samúðarkveðjur. Það hafa margir góðir fjallavinir tekið á móti honum við lok ferðar.

Þar sem jökulinn ber við loft hættir landið að vera jarðneskt, en jörðin fær hlutdeild í himninum, þar búa ekki framar neinar sorgir og þessvegna er gleðin ekki nauðsynleg, þar ríkir fegurðin ein, ofar hverri kröfu.

(Halldór Kiljan Laxness)

Með kveðju og þakklæti fyrir áratuga vinskap,

Haukur Hafliðason, Ingibjörg Árnadóttir, Ólafur Nielsen.