Landspítalinn Nýi Landspítalinn verður listaverkum prýddur, skv. fyrirmælum myndlistarlaga.
Landspítalinn Nýi Landspítalinn verður listaverkum prýddur, skv. fyrirmælum myndlistarlaga. — Morgunblaðið/Kristinn
„Verja skal að minnsta kosti 1% af heildarbyggingarkostnaði opinberrar nýbyggingar til listaverka í henni og umhverfi hennar.“ Svo er mælt fyrir um í 14. grein myndlistarlaga sem sett voru á Alþingi árið 2012, en Jón Gunnarsson…

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Verja skal að minnsta kosti 1% af heildarbyggingarkostnaði opinberrar nýbyggingar til listaverka í henni og umhverfi hennar.“ Svo er mælt fyrir um í 14. grein myndlistarlaga sem sett voru á Alþingi árið 2012, en Jón Gunnarsson alþingismaður vakti athygli á lagagreininni í ræðu á Alþingi í vikunni. Benti hann á að í tilviki nýs Landspítala þýddi þetta að verja þyrfti rúmlega 2 milljörðum króna í listaverk í byggingunni.

Í lagagreininni kemur fram að með listaverkum sé átt við „hvers konar fasta og lausa listmuni, svo sem veggskreytingar innan húss og utan, höggmyndir, málverk, myndvefnað og aðra listræna fegrun“.

Fjármálaráðuneytið upplýsti sl. sumar að heildarkostnaður við byggingu nýs Landspítala yrði ríflega 210 milljarðar króna og var þá miðað við kostnaðartölur 2022 og á verðlagi í október það ár. Ætla má að endanleg tala verði hærri, t.a.m. í ljósi verðbólgu. Það þýðir að fjárfesta þarf í listaverkum fyrir spítalann fyrir a.m.k. 2,1 milljarð, þ.e. ef hugtakið „heildarbyggingarkostnaður“ innifelur jafnframt tæki og búnað. Í tölum fjármálaráðuneytisins kemur fram að kostnaður vegna tækja verði rúmir 25 milljarðar króna sem myndi þá mögulega lækka fyrrgreinda upphæð til listaverkakaupa um 250 milljónir.

„Það er ekkert óeðlilegt við það að hið opinbera kaupi listaverk, en ég tel að ekki eigi að binda það við fasta prósentu af útgjöldum og ætti þar að nota annað viðmið. Það ætti að meta svona mál sérstaklega hverju sinni og taka um þau sjálfstæðar ákvarðanir,“ segir Jón í samtali við Morgunblaðið.

Jón segist telja að umrætt ákvæði eigi einnig við þegar ríkið geri gagngerar endurbætur á húsnæði, eins og gert hefur verið hjá Seðlabankanum og ýmsum ráðuneytum t.a.m. sem kostað hefur háar fjárhæðir.

„Þar eru þegar til staðar listaverk og menn hljóta að skoða það þegar kemur að myndlist að nýta mikið listaverkasafn Listasafns Íslands, eins og ráðuneyti og stofnanir hafa jafnan gert til skreytingar í sínum húsakynnum,“ segir Jón.

„Mér finnst að það þurfi að endurskoða þetta lagaákvæði og nálgast málið með öðrum hætti en þessum. Ég hef rætt þetta við þingflokk Sjálfstæðisflokksins og við erum sammála um að skoða málið nánar, en það verður að koma í ljós hvert framhaldið verður. En við munum kryfja þetta mál frekar,“ segir Jón Gunnarsson alþingismaður.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson