— Morgunblaðið/Eggert
Hvernig vildi það til að miðaldra lesbíur ákváðu að stofna hljómsveit? Það var nú þannig að okkur fannst hljómsveitarnafnið Ukulellur svo flott þannig að við ákváðum að stofna hljómsveit lesbískra kvenna sem spila á ukulele

Hvernig vildi það til að miðaldra lesbíur ákváðu að stofna hljómsveit?

Það var nú þannig að okkur fannst hljómsveitarnafnið Ukulellur svo flott þannig að við ákváðum að stofna hljómsveit lesbískra kvenna sem spila á ukulele. Þannig að nafnið kom fyrst.

Voru til svona margar lesbíur sem spiluðu á ukulele?

Við spiluðum ekkert á ukulele þá; það var algjört aukaatriði. Sumar höfðu spilað á gítar og áttu auðveldara með að læra á ukulele en við hinar fengum bara fyrirskipun um að mæta með ukulele á æfingu og við mættum með verðmiðann dinglandi á hljóðfærinu. Nú æfum við vikulega.

Hafðir þú aldrei spilað á hljóðfæri?

Ég hafði spilað á píanó sem krakki en kunni ekkert. Við byrjuðum á því að leita uppi auðveld lög í C-, G- og F-dúr. Eitthvað nógu einfalt. En smám saman lærðum við meira og meira. Nú er þetta alvöru hljómsveit og við erum þrettán konur, þó að við mætum ekki alltaf allar.

Eruð þið að semja sjálfar?

Aðallega erum við að taka gamla slagara og semja við þá nýja texta um reynsluheim miðaldra kvenna. Við höfum samið lög um liðskipti og lesgleraugu, nokkuð sem hefur ekki áður verið samið um. Og alveg sérstaklega höfum við samið texta um reynsluheim miðaldra lesbískra kvenna. Og nú erum við pínu pirraðar yfir þessu bakslagi, og guð hjálpi þeim sem pirra miðaldra konur. Við erum aðeins farnar að steyta hnefann meira.

Þið ætlið sem sagt að halda upp á fimm ára afmælið?

Já, með pompi og prakt. Þetta er á „happy hour“-tíma sem hentar vel okkar aðdáendahópi sem er á þeim aldri sem vill komast heim áður en dagur rennur.

Ukulellur fagna fimm ára afmæli hljómsveitarinnar með tvennum tónleikum í Þjóðleikhúskjallaranum, 27. og 28. október. Miðar fást á tix.is.