Ágúst Bjarni Garðarsson
Ágúst Bjarni Garðarsson
Stjórnvöld fylgist náið með stöðunni, greini hana og bregðist við með aðgerðum fyrir þá hópa sem verða hvað verst úti með ábyrgum og öruggum hætti.

Ágúst Bjarni Garðarsson

„Stjórnvöld þurfi að vera búin undir það að hlutirnir geti snúist svolítið hratt,“ sagði Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka í Morgunútvarpinu á Rás 2 á mánudaginn spurður um stöðu heimilanna og hvernig hún geti tekið breytingum á næstu mánuðum. Það eru krefjandi aðstæður uppi um þessar mundir og brýn verkefni fram undan. Verðbólga hefur áhrif á samfélagið allt þar sem fólk og fyrirtæki finna fyrir hækkandi vöxtum sem reynist mörgum þungur baggi að bera. Það liggur fyrir að stór hluti lána er á föstum vöxtum sem losna nú á komandi ársfjórðungum og það getur breytt stöðunni nokkuð hratt til hins verra. Því er sérstaklega mikilvægt að stjórnvöld fylgist náið með stöðunni, greini hana og bregðist við með aðgerðum fyrir þá hópa sem verða hvað verst úti með ábyrgum og öruggum hætti.

Lægri verðbólga og fyrirsjáanlegra vaxtaumhverfi

Stjórn efnahagsmála verður mikilvægasta verkefni stjórnmálanna og samfélagsins alls á næstu mánuðum með það að markmiði að ná hér tökum á verðbólgu og vöxtum. Það gerum við fyrst og fremst með ábyrgum rekstri og aðhaldi í ríkisfjármálum, um leið og viðkvæmir hópar eru varðir með aðgerðum fyrir áhrifum verðbólgunnar. Kjarasamningar á vinnumarkaði losna nú um áramótin og þar er allra hagur að vel takist til. Höfuðmarkmiðið er að lenda farsælum langtímakjarasamningum sem styðja við það mikilvæga verkefni að ná hér niður verðbólgu og vöxtum sem er óumdeilt mesta kjarabót heimila og fyrirtækja í landinu. Heilt yfir er staðan nokkuð góð á vinnumarkaði, þar sem atvinnuleysi er í lágmarki og nýjum atvinnutækifærum fjölgar stöðugt í fjölbreyttara atvinnulífi um land allt.

Þó svo að stjórnvöld eigi ekki formlega aðkomu að kjarasamningsgerðinni er ljóst að aðilar vinnumarkaðarins munu kalla eftir því að stjórnvöld liðki fyrir samningsgerð. Þar er líklegt að háværust verði krafan um frekari úrræði til að stuðla að auknu húsnæðisöryggi og að barnafjölskyldur og þeir sem lakast standa verði varin. Stjórnvöld átta sig á hlutverki sínu í komandi kjarasamningum og mikilvægi þess að vel takist til. Nú þegar hefur ríkisstjórnin stigið inn með aðgerðir á húsnæðismarkaði þar sem stutt hefur verið við uppbyggingu með opinberum stuðningi og má þar nefna uppbyggingu almennra íbúða og veitingu hlutdeildarlána til kaupa á hagkvæmum íbúðum. Eins hefur verið stutt við barnafjölskyldur með hækkun barnabóta með hærri grunnfjárhæð og skerðingamörkum. Þessu til viðbótar er hér rétt að nefna að húsaleigubætur hafa verið hækkaðar um fjórðung frá miðju ári 2022 auk þess sem frítekjumörk voru hækkuð til jafns við hækkun bóta.

Húsnæðismarkaður á krossgötum

Tryggt framboð og öryggi á húsnæðismarkaði er mikið hagsmunamál í íslensku samfélagi. Langtímaskortur á íbúðum á Íslandi hefur valdið því að bæði leigu- og fasteignaverð hefur hækkað mikið. Það er aðeins ein leið sem mun koma í veg fyrir að leigu- og fasteignaverð muni halda áfram að hækka óeðlilega mikið líkt og verið hefur á undanförnum árum. Sú leið er aukið framboð af húsnæði. Markmið innviðaráðherra um aukna húsnæðisuppbyggingu og þær aðgerðir sem gripið hefur verið til er mikilvægt innlegg í þá vegferð. Hins vegar er það svo að húsnæðismarkaðurinn hefur fundið verulega fyrir aðgerðum Seðlabankans, þar sem kaupendum hefur verið gert erfiðara um vik að komast inn á markaðinn og fjármögnun nýframkvæmda er orðin dýrari. Þvert á það sem við þurfum nú, og þegar allt er saman tekið, hefur þetta letjandi áhrif á framkvæmdaaðila til að halda áfram að framkvæma íbúðir.

Ég er fullmeðvitaður um þann línudans sem þetta er á tímum hárra vaxta og verðbólgu, en núverandi ástand mun einungis leiða til hærra leiguverðs og auka þrýsting á mjög hátt fasteignaverð þegar núverandi ástandi slotar. Það er engum til góðs og að mínu mati ljóst að gera þarf sérstakar ráðstafanir til að leysa þann hnút sem við erum komin í. Slíkt mætti gera með tímabundnum og sértækum lánaskilmálum hjá fjármálafyrirtækjum til að tryggja áfram nauðsynlega uppbyggingu. Með slíku myndu fjármálafyrirtækin rísa undir þeirri ábyrgð sem á þeim hvílir um þessar mundir. Þessu til viðbótar tel ég skynsamlegt að ráðast í nauðsynlegar lagabreytingar á fjárfestingaheimildum lífeyrissjóða sem myndi gera þeim heimilt að eiga meira en 20% í félagi sem myndi sinna fasteignaverkefnum fyrir lífeyrissjóði og gæti þar með styrkt okkur sem samfélag í því verkefni að hér á landi verði til traustur og heilbrigður leigumarkaður.

Höfundur er þingmaður og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar.

Höf.: Ágúst Bjarni Garðarsson