Ég hef ekki mikla skoðun á því, en vil alla vega ekki sjá neinn frá þessum vinstri fokkum.

Pistill

Ásdís Ásgeirsdóttir

asdis@mbl.is

Heimur versnandi fer; það er ekki hægt að segja annað. Vikan hefur sannarlega verið viðburðarík fréttalega séð, þó því miður hafi flestar fréttir verið hræðilega átakanlegar. Stríðið í Ísrael er svo skelfilegt að maður getur varlað horft á ljósmyndir þaðan. Ekki ætla ég að greina stríðið; nóg er af sérfræðingum sem það geta, en ljóst er að ekki sér fyrir endann á þessum hörmungum. Aumingja saklausa fólkið sem þarna er fórnarlömb.

Af innlendum fréttum vikunnar ber auðvitað hæst ráðherrastólaskiptin. Til að leiða ykkur frá sorglegum stríðsfréttum eitt augnablik ætla ég að segja ykkur eina skemmtisögu því tengda. Ekki veitir af þessa dagana að fá að brosa að smá vitleysu sem ég lenti í.

Þannig er mál með vexti að hvern föstudag um hádegisbil fer ég á stjá með upptökutæki mitt að leita að fjórum manneskjum sem til eru að svara spurningu dagsins sem birtist hér vikulega á þessari síðu. Oft skrepp ég í bæinn, í búðarkjarna eða í Kringluna til að finna viðmælendur. Flestir taka því vel að lenda í spurningu dagsins, þó oft strunsi fólk framhjá með orðunun: „Ég hef ekki tíma.“ Aðrir vilja alls ekki láta á sér bera og allt í góðu með það; það vilja ekkert allir fá mynd af sér í Moggann.

Alla vega, spurning dagsins um síðustu helgi, áður en ljóst var að það yrðu ráðherrastólaskipti, var:

„Hvern viltu sjá sem næsta fjármálaráðherra?“

Tveir viðmælendur nefndu Þórdísi Kolbrúnu og sá þriðji hafði enga skoðun á því. Sá fjórði, ungur maður um þrítugt, kom með svar sem ég staldraði aðeins við því mér fannst svar hans fullruddalegt.

„Ég hef ekki mikla skoðun á því, en vil alla vega ekki sjá neinn frá þessum vinstri fokkum.“

Ég hugsaði mig aðeins um og svaraði svo, af því fólk hefur jú rétt á sínum skoðunum: „Tja, þetta er gott svar en ég veit ekki hvort ég geti skrifað „fokk“ í Morgunblaðið.“

Hann horfði á mig í forundran og sagði: „Ég sagði vinstri FLOKKUM.“

Já, sæll.

Kannski ætti þessi miðaldra kona að skella sér í heyrnarmælingu. Mögulega góð hugmynd.