Lou Gramm var söngvari Foreigner frá 1976 til 1990 og aftur frá 1992 til 2003.
Lou Gramm var söngvari Foreigner frá 1976 til 1990 og aftur frá 1992 til 2003. — AFP/Rick Diamond
Bresk/bandaríska rokksveitin geðþekka Foreigner naut lýðhylli í sjöunni og áttunni og sendi frá sér smelli sem enn heyrast á öldum ljósvakans, svo sem Cold As Ice, Urgent, Waiting For a Girl Like You og síðast en ekki síst ofurballöðuna I Want to…

Bresk/bandaríska rokksveitin geðþekka Foreigner naut lýðhylli í sjöunni og áttunni og sendi frá sér smelli sem enn heyrast á öldum ljósvakans, svo sem Cold As Ice, Urgent, Waiting For a Girl Like You og síðast en ekki síst ofurballöðuna I Want to Know What Love Is, sem ófáir hafa vangað við gegnum tíðina.

Einhver kann því að hleypa brúnum þegar upplýst er að Foreigner hafi ekki enn verið innlimuð í Frægðarhöll rokksins. Lou Gramm, hinn upprunalegi söngvari Foreigner, var einmitt spurður um þetta þegar hann kíkti í morgunkaffi á sjónvarpsstöðina 13 Wham Í New York á dögunum og þar kom fram að menn ættu ekki von á því að þetta kæmi til með að gerast.

Skýringin sem Gramm gaf var sú að kastast hefði í kekki milli Mick Jones gítarleikara Foreigner og „gaursins sem var framkvæmdastjóri Frægðarhallarinnar“ fyrir einhverjum 25-30 árum. Gramm mundi ekki nafnið á honum í svipinn. Jones og gaurnum hafði víst verið afar vel til vina og þegar biðin eftir innlimun í Frægðarhöllina gerðist Foreigner-liðum hvimleið gekk Jones á fund vinar síns til að krefjast skýringa. Þeim fundi lauk með ósköpum, að sögn Gramms sem þó var ekki á staðnum, og „gaurinn“ stóð á endanum upp og mælti: „Það mun frjósa í helvíti áður en Foreigner verður tekin inn í Frægðarhöll rokksins.“

Þar við situr.