Körfuboltinn
Jóhann Ingi Hafþórsson
johanningi@mbl.is
Íslandsmeistarar Tindastóls eru enn með fullt hús stiga á toppi úrvalsdeildar karla í körfubolta eftir 106:96-sigur á Grindavík í æsispennandi leik í 3. umferð í Grindavík í gærkvöldi. Lokatölurnar gefa ekki rétta mynd af leiknum, því úrslitin réðust í framlengingu.
Var Grindavík með sjö stiga forskot, 84:77, þegar skammt var eftir. Stefndi þá í fyrsta sigur Grindavíkur á leiktíðinni og í leiðinni fyrsta tap meistaranna. Skagfirðingar neituðu hins vegar að gefast upp og Sigtryggur Arnar Björnsson jafnaði í 93:93, þegar 34 sekúndur voru eftir af venjulegum leiktíma, og því varð að framlengja.
Í framlengingunni hrukku meistararnir í gang og unnu að lokum tíu stiga sigur. Er um annan útileikinn á nýju tímabili að ræða þar sem Tindastóll lendir í vandræðum, en sýnir mikinn styrk og siglir sigri í höfn.
Sigtryggur Arnar Björnsson fór mikinn í leiknum og skoraði 32 stig. Davis Geks kom þar á eftir með 23 stig og Þórir Guðmundur Þorbjarnarson skoraði 16 stig og gaf 16 stoðsendingar að auki.
Ólafur Ólafsson skoraði 24 stig og tók átta fráköst fyrir Grindavík og Dedrick Basile skoraði 20 og gaf níu stoðsendingar. Er Grindavík eitt þriggja liða sem eru án stiga, en Hamar og Breiðablik eru einnig stigalaus.
Næsti leikur Tindastóls er gegn Val og bíða margir spenntir, þar sem þau hafa háð tvö stórkostleg úrslitaeinvígi um Íslandsmeistaratitilinn undanfarin tvö tímabil. Grindavík leikur stóran leik við Breiðablik, þar sem annað liðið kemst loks á blað.
Sannfærandi Njarðvíkingar
Njarðvíkingar eru einnig með fullt hús stiga eftir afar sannfærandi 107:71-heimasigur á Hetti, sem hafði einnig unnið tvo fyrstu leiki sína. Njarðvík náði afgerandi forskoti strax í fyrsta leikhluta, en staðan eftir hann var 32:15.
Héldu Njarðvíkingar áfram að auka forskotið það sem eftir lifði leiks, en grænklæddir heimamenn unnu alla fjóra leikhlutana og leikinn örugglega í leiðinni. Njarðvíkingar eru á miklu flugi, en Hattarmenn eru komnir aftur á jörðina eftir skemmtilega byrjun.
Chaz Williams hefur farið mjög vel af stað með Njarðvík og hann gerði 24 stig, tók sjö fráköst og gaf níu stoðsendingar í gær. Hinn 19 ára gamli Elías Pálsson heldur einnig áfram að heilla, en hann skilaði 19 stigum.
Hjá Hetti skoraði Obadiah Trotter mest, eða 18 stig. Adam Ásgeirsson og Gustav Suhr-Jessen komu næstir með 13 stig hvor.