Kylfingur Axel Bóasson náði afar góðum árangri í golfinu í ár.
Kylfingur Axel Bóasson náði afar góðum árangri í golfinu í ár. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Axel Bóasson, atvinnukylfingur úr Keili, tryggði sér í gær sæti á Áskorendamótaröðinni, næststerkustu atvinnumótaröð Evrópu. Axel lék á Nordic Golf League, þriðju sterkustu mótaröð Evrópu, í ár og tryggði sér sæti á Áskorendamótaröðinni með því að hafna í 19

Axel Bóasson, atvinnukylfingur úr Keili, tryggði sér í gær sæti á Áskorendamótaröðinni, næststerkustu atvinnumótaröð Evrópu.

Axel lék á Nordic Golf League, þriðju sterkustu mótaröð Evrópu, í ár og tryggði sér sæti á Áskorendamótaröðinni með því að hafna í 19. sæti á Road to Europe Final-mótinu í gær, en um lokamót ársins á Nordic Golf League var að ræða.

Hafnaði Axel í fimmta sæti í heildarstigakeppninni, sem dugði honum til að komast á sterkari mótaröð að ári.

Fimm efstu kylfingarnir á stigalista Nordic Golf League tryggja sér sæti á Áskorendamótaröðinni og var Axel rétt tæplega 3.000 stigum fyrir ofan næsta mann í sjötta sæti og aðeins 194 stigum frá fjórða sætinu.

Hann á enn möguleika á að vinna sér inn þátttökurétt á sterkustu atvinnumótaröð Evrópu, sjálfri Evrópumótaröðinni. Axel tekur þátt á öðru stigi úrtökumótsins fyrir Evrópumótaröðina í byrjun nóvember.

Axel, sem er 33 ára, hefur áður náð góðum árangri á Nordic Golf League-mótaröðinni og unnið fjögur mót, síðast 14. júlí á þessu ári. Þá hafnaði hann í efsta sæti mótaraðarinnar árið 2017

Í kjölfarið keppti hann á Áskorendamótaröðinni en náði sér ekki almennilega á strik. Fær hann nú annað tækifæri í næstfremstu röð Evrópu.