Fjölgun kallar á innviði Á þessu svæði á að byggja nýja norðurbyggingu og hótel. Þá er rætt um fluglest. Með þessu á að bregast við fjölgun ferðamanna.
Fjölgun kallar á innviði Á þessu svæði á að byggja nýja norðurbyggingu og hótel. Þá er rætt um fluglest. Með þessu á að bregast við fjölgun ferðamanna. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hótelgeirinn hefur náð vopnum sínum eftir eftirspurnarfall í farsóttinni. Það birtist í fjölda seldra gistinátta og í hugmyndum um fjölda nýrra hótela

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Hótelgeirinn hefur náð vopnum sínum eftir eftirspurnarfall í farsóttinni. Það birtist í fjölda seldra gistinátta og í hugmyndum um fjölda nýrra hótela.

Fjallað hefur verið um hluta þessara áforma í Morgunblaðinu síðustu daga. Sagt var frá því að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefði á fundi um bættar samgöngur milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur fjallað um tólf áformuð hótel í Reykjavík og nágrenni. Þá var sagt frá því í blaðinu í gær að Isavia hyggst kanna áhuga fyrirtækja á að reka allt að 400 herbergja hótel við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Yrði það stærsta hótel landsins í herbergjum talið. Svo mörg hótelverkefni hafa ekki sést síðan á mestu vaxtarárum flugfélagsins WOW air. Umræða skapaðist í kjölfarið um skort á gistirýmum, ekki síst árin 2015 til 2017, sem brugðist var við með mikilli uppbyggingu.

Aftur spurt um innviði

Rifjast þá upp viðtal ViðskiptaMoggans við Friðrik Pálsson, eiganda Hótel Rangár, í febrúar 2016 en þar sagði Friðrik meðal annars: „Þegar það vekur orðið athygli ef það er ekki frétt af nýrri hótelbyggingu í Mogganum hvern dag ættu menn að staldra við.“ Taldi Friðrik ekki sjálfgefið að innviðir landsins myndu ráða við allan þann fjölda ferðamanna sem þá var spáð að myndi koma.

Nú er aftur rætt um að innviðir séu komnir að þolmörkum. Birtist það á áðurnefndum fundi um samgöngumál en sveitarstjórnarfulltrúar og þingmenn lýstu þar stuðningi við að kanna fýsileika fluglestar milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur. Hefur Runólfur Ágústsson, stjórnarmaður í Fluglestinni þróunarfélagi ehf., áætlað í samtali við Morgunblaðið að fluglest muni kosta um 140 milljarða og er þá miðað við að hún fari að hluta um jarðgöng.

Rætt um hundruð milljarða

Þá liggur fyrir að áformað er að ráðast í framkvæmdir fyrir á annað hundrað milljarða á Keflavíkurflugvelli til að þjóna meiri flugumferð.

Má af þessu ráða að ekki verði tekið á móti mikið fleiri erlendum ferðamönnum nema með því að uppfæra innviði fyrir verulegar fjárhæðir. Þar með talið með því að byggja fjölda hótela fyrir milljarðatugi.

Kristófer Oliversson, framkvæmdastjóri CenterHótela og formaður FHG – Fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu, segir ekki sjálfgefið að öll þessi hótel verði að veruleika. Kostnaður sé enda á uppleið.

„Ég held að mjög fá af þessum hótelum séu komin með hótelrekendur. Ég hef alltaf verið smeykur við þróun þar sem uppbyggingin er keyrð áfram af verktökum og fasteignaeigendum.“

Miklu dýrara að byggja

– Hvers vegna er ólíklegt að þetta verði allt að veruleika?

„Ef menn byggja hótel þurfa þeir að fá rekstraraðila. Nú er mjög dýrt að byggja hótel og það þarf þá annaðhvort að borga svimandi háa leigu eða byggingarkostnað, ef menn byggja sjálfir.“

– Er eftirspurnin slík að reisa þurfi öll þessi hótel? Rætt er um þúsundir herbergja. Það yrði tugprósenta aukning en alls voru tæplega 12 þúsund hótelherbergi á landinu í lok ágúst.

„Það sést á tölfræði hótela í Reykjavík að það hefur tiltölulega lítið bæst við framboðið á síðustu árum. Þetta byggist allt á því hvort við ætlum að leysa eftirspurn framtíðarinnar með íbúðagistingu eða hótelum. Ég myndi halda að það þyrfti að slá talsvert á íbúðagistinguna til þess að þetta geti allt gengið upp.“

Skilar meira til samfélagsins

– Þannig að eftirspurn eftir hótelum verði aukin með því að þrengja að íbúðagistingu í stað þess að stefna að því að hingað komi til dæmis þrjár milljónir erlendra ferðamanna á ári?

„Já, við höfum lagt mikla áherslu á það. Þannig að fjölgunin verði hæg og sjálfbær. Við höfum bent á að munurinn milli hótelanna annars vegar og farþegaskipanna og Airbnb hins vegar er mikill hvað snertir skattskil og framlag til samfélagsins. Ef niðurstaðan verður sú að drífa þróunina áfram með því að veita Airbnb og skemmtiferðaskipum forskot, þá verður uppbygging á hótelum miklu hægari og það verður erfiðara að koma þeim í skynsamlegan rekstur.“

– Hvaða áhrif hefði fækkun Airbnb-íbúða á eftirspurn eftir gistingu?

„Hún mun þá einfaldlega færast yfir í eftirspurn eftir hótelherbergjum. Nú er eftirspurninni mætt með því að taka þúsundir íbúða undir hótelgistingu eða ferðaþjónustu. Það hefur aftur mikil áhrif á húsnæðisverð.

Hærri laun skila sér ekki

Sólveig Anna [Jónsdóttir, formaður Eflingar] tók þetta fyrir í viðtali í tengslum við brunann á Funahöfða. Við deilum þeirri skoðun með henni að stærsta vandamálið hjá fólki í þjónustustörfum er hvað húsnæðiskostnaður vegur orðið þungt. Við höfum borið saman hvernig Eflingartaxtarnir og húsnæðisvísitalan hafa þróast í gegnum árin. Við hækkum og hækkum launin en náum aldrei að fylgja hækkun á húsnæði, svo hækkunin skilar sér ekki í vasa fólksins okkar,“ segir Kristófer og bendir á graf sem er endurgert hér á síðunni.

Sýnir það að laun hafa ekki haldið í við uppsafnaða hækkun á húsnæðisvísitölunni.

Takmarkar fjöldann

– Nú er hótelgisting jafnan dýrari en skammtímagisting enda þjónustustigið jafnan hærra. Hvaða áhrif myndi hærra meðalverð á gistingu hafa á eftirspurn eftir ferðum til Íslands?

„Ég hef alltaf orðað það þannig að betur borgandi ferðamenn gista á hótelum. Það er hin augljósa hagfræði að hækkandi verð hefur áhrif á eftirspurn. Og gestir sem koma munu borga meira ef þeir gista allir á hótelum og borga alla skatta. Það liggur í hlutarins eðli að það mun takmarka fjöldann ef allir eiga að fara að borga skatta.“

Ferðaþjónustan var ósjálfbær

– Málið er þá, að þínu mati, ekki að fá hingað mikið fleiri erlenda ferðamenn heldur betur borgandi?

„Já. Ef við byggjum hótel þá munu þeir sem koma taka þátt í sjálfbærri þróun á ferðaþjónustunni. Þetta er ósjálfbært eins og þetta er núna. Það á ekki að gera þetta eins og þegar WOW air var upp á sitt besta. Þá voru um 8.500 herbergi í útleigu hjá Airbnb í Reykjavík en um 5.000 á hótelum. Og þetta fólk var kannski flutt til landsins með miklu tapi hjá WOW air og síðan gisti það í íbúðum sem lúta minni kröfum en hótelherbergi og eru undanþegnar hluta af þeim sköttum og skyldum sem hótel greiða. Þetta var ósjálfbær þróun og svona viljum við ekki að Ísland þróist sem ferðamannaland.“

– Þannig að við þurfum ekki til dæmis 3 milljónir ferðamanna á ári til að það sé grundvöllur fyrir fleiri hótelum?

„Nei. Við þurfum bara að hafa skikk á þessu,“ segir Kristófer.

Höf.: Baldur Arnarson