Bæjarrústir Grafið hefur verið í Firði í fjögur sumur og þar hafa komið í ljós byggingar frá ýmsum tímum.
Bæjarrústir Grafið hefur verið í Firði í fjögur sumur og þar hafa komið í ljós byggingar frá ýmsum tímum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Brýni, snældusnúðar, kljásteinar, vaðsteinar, kolur, lyklar, hnífar, önglar, járnnaglar, perlur, brotasilfur, silfurhringur og taflmenn úr hnefatafli. Munir af þessum toga og margt fleira er meðal þess sem fannst í viðamiklum fornleifarannsóknum í Firði í Seyðisfirði sem stóðu yfir í allt sumar

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Brýni, snældusnúðar, kljásteinar, vaðsteinar, kolur, lyklar, hnífar, önglar, járnnaglar, perlur, brotasilfur, silfurhringur og taflmenn úr hnefatafli. Munir af þessum toga og margt fleira er meðal þess sem fannst í viðamiklum fornleifarannsóknum í Firði í Seyðisfirði sem stóðu yfir í allt sumar. Ragnheiður Traustadóttir fornleifafræðingur leiðir starfið; uppgröft sem hófst árið 2020. Svo hefur verið haldið áfram ár hvert og alveg fram í síðustu viku var verið í rannsóknum í Firði. Alls tóku um 40 manns þátt í starfi þessa árs. Í liðinu voru fornleifafræðingar og nemar í þeim fræðum, þjóðfræðingur, gjóskulagafræðingur, nemi í afbrotafræði, menntaskólanemar og óperusöngvari svo eitthvað sé tiltekið.

Fjörður, eins og staðurinn heitir, er fyrir botni Seyðisfjarðar; norðan Fjarðarár. Er fyrir innan og ofan blámálaða kirkju kaupstaðarins, svo þekkt kennileiti sé haft til hliðsjónar. Þarna er talið og raunar sagt með vissu að hafi verið bær landsnámsmannsins Bjólfs; þess sem fjallið háa sem gnæfir yfir bænum er nefnt eftir. Og satt að segja þykir Fjörður afar fróðlegur staður frá sjónarhóli fornleifafræðinnar. Þar hafa fundist munir og rústir frá 10. öld fram á þá fjórtándu. Einnig minjar frá 18. til fyrri hluta 20. aldar; svo sem bæjarstæði, mylla og útihús.

Mannvistarlög undir skriðu

Við uppgröft haustið 2021 kom í ljós skriða frá því um 1100. Undir henni voru mannvistarlög og fjögur ríkulega búin kuml. Árið eftir var grafið sunnan við kumlateiginn þar sem kom í ljós mannvirki frá tvennum tímum: annars vegar skáli, útihús og vefjarstofa frá 940-1100 og hins vegar byggingar frá 1100-1300. Öskuhaugur, sem greindur er frá landnámsöld, fannst sumarið 2022 og þar hefur margt leynst. Nefna má brýni, kljásteina, snældusnúða, skrautsteina, eldstál, tinnur, hnífa, ýmsa járngripi, sylgjur, perlur og leirkerabrot.

„Minjar frá miðöldum eru lítt rannsakaðar á Íslandi, sérstaklega á Austurlandi. Rannsóknin í Firði hefur því mikla þýðingu. Að hafa tækifæri til að rannsaka kuml, útihús, öskuhaug og híbýli þar sem eina heild er einstakt tækifæri,“ segir Ragnheiður Traustadóttir. Með sínu fólki gróf hún upp í sumar fjós og útihús frá 10. öld fram á 19. öldina. Þá var áfram grafið í öskuhaugum og skálarústum; með setum og langeldi.

„Á skálanum sjást nokkur byggingarskeið, en þegar skriðan féll um árið 1100 hefur hann verið um 30 metra langur. Í suðurenda hefur verið búr en sáför komu í ljós í sumar. Fyrir miðjum skálanum voru set og langeldur og í norðurenda hefur verið smiðja. Einnig tvær viðbyggingar sem ganga úr vesturhlið skála, stór vefjarstofa auk smárýmis sem hefur verið túlkað sem búr. Torfveggir í vefjarstofunni, um 60 cm háir, og torfveggir í vesturhlið skálans eru einstaklega vel varðveittir. Í vefjarstofunni fundust tveir helluhlaðnir ofnar en allt bendir til þess að þeir hafi verið notaðir á sama tíma.“

Brunnin bein á öskuhaugum

Fundist hafa um 3.300 gripir í Firði í sumar auk þess sem mikið fannst af brenndum beinum í öskuhaugnum. „Íbúar í Firði hafa stundað hnefatafl og hafa 40 taflmenn fundist við uppgröftinn í skálanum og öskuhaugnum. Efniviður hefur verið sóttur í nánasta umhverfi en taflmennirnir eru úr rauðabergi og gjóskubergi og hafa þeir verið tálgaðir af heimamönnum. Þetta á annars allt eftir að rannsaka betur í vetur þegar gripir og uppgraftargögn verða rannsökuð betur.“

Rannsóknir síðustu sumur sýna að Fjörður – hús þar og önnur mannvistarlög – hafa að stórum hluta lent undir skriðunni miklu sem fyrr er lýst.

„Skriðulögin er flókið að grafa í, enda hafa komið í ljós skriður á svæðinu sem ekki voru til heimildir um,“ segir Ragnheiður Traustadóttir og að síðustu: „Við sáum líka þegar við grófum í sumar að öskuhaugarnir, þar sem fundust á annað þúsund gripir, voru tveir. Annar ofan á skriðunni en hinn undir. Öskuhaugurinn sem lá ofan á skriðunni var útmokstur af gólflögum úr skálanum og niðurrif af torfveggjum á skálanum eftir að skriðan hafði fallið. Þarna er einstakur vitnisburður um miklar náttúruhamfarir.“

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson