Titillag Bleed Out er tileinkað minningu írönsku baráttukonunnar Möshu Amini.
Titillag Bleed Out er tileinkað minningu írönsku baráttukonunnar Möshu Amini. — AFP/Drew Angerer
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Margir segja: „Þegiði bara og syngið. Þegiði bara og spilið. Við höfum engan áhuga á skoðunum ykkar.“ Í mínum huga snýst tónlist hins vegar um einmitt það. Hún snýst um vangaveltur, heimspeki

Margir segja: „Þegiði bara og syngið. Þegiði bara og spilið. Við höfum engan áhuga á skoðunum ykkar.“ Í mínum huga snýst tónlist hins vegar um einmitt það. Hún snýst um vangaveltur, heimspeki. Hún snýst um svo margt, en ekki síst stóru málin í heiminum, vegna þess að þau veita okkur innblástur og hefur maður ekki rétt til að tala um það sem blæs manni í brjóst?“

Þannig komst Sharon den Adel, söngkona Within Temptation, að orði í samtali við miðilinn FaceCulture, en yrkisefnið á nýjustu breiðskífu sinfóníska málmbandsins frá Hollandi, Bleed Out, er þegar orðið umdeilt. Þar velta Den Adel og félagar vöngum yfir stríðinu í Úkraínu, dularfullu andláti baráttukonunnar Möshu Amini í Íran, ofsóknum á hendur jaðarsettum hópum og fleiru eldfimu. Platan, sem kom út á föstudaginn, var fullgerð áður en stríðið fyrir botni Miðjarðarhafs hófst, ella er ekki ólíklegt að það hefði ratað þangað inn líka, með einum eða öðrum hætti, eins og þar stendur.

Den Adel er þakklát fyrir að búa í lýðræðisríki þar sem hún getur sagt það sem henni finnst, alltént upp að vissu marki. „Þar liggur munurinn, byggi ég í Rússlandi eða Íran væri ég eflaust í bráðri hættu. Að því sögðu er ég svo sem ekki hólpin, fólk getur brugðist ókvæða við og við höfum fundið fyrir því nú þegar. En þegar maður skrifar um eitthvað og hefur sterkar tilfinningar gagnvart því …“

Within Temptation hefur margoft komið fram bæði í Rússlandi og Úkraínu og kynnst mörgu dásamlegu fólki á báðum stöðum, að sögn Den Adel. Enginn vafi leiki hins vegar á því að Rússland sé seki aðilinn í því stríði og ólíðandi sé að brotið sé með þessum hætti gegn fullvalda ríki. „Við erum í áfalli út af þessu vegna þess að eftir seinni heimsstyrjöldina áttum við ekki von á því að horfa upp á stríð af þessari stærðargráðu. Ég óttast líka að þessu ljúki ekki með Úkraínu og það síðasta sem við þurfum er fleiri kúgaðar þjóðir. Breiða þarf lýðræðið út og vonandi getum við stutt þá [Úkraínumenn] uns yfir lýkur. Ekki síst þar sem þetta stendur heimahögunum svo nærri, aðeins tveggja og hálfs tíma flug er frá flugvellinum okkar. Það er jafnlangt til Barcelona. Þannig að þetta blasir við.“

Í öðru viðtali, við málmgagnið Kerrang!, segir hún lagið Wireless á Bleed Out fjalla um stöðuna sem almenningur í Rússlandi er í nú um stundir. „Venjulegt fólk notað sem maríonettur í annarra manna leik. Í Rússlandi er aðeins einn aðili sem miðlar upplýsingum, stjórnvöld.“

Den Adel gengur svo langt að fullyrða að Within Temptation eigi ólíklega eftir að leika aftur í Rússlandi. „Það væri einfeldni að ætla annað.“

Titillagið sjálft, Bleed Out, er tileinkað Möshu Amini. Í samtali við annað málmgagn, Metal Hammer, kveðst Den Adel bera djúpa virðingu fyrir fólki sem hættir lífi sínu og limum til að mótmæla harðræði. „Fjölmargar konur [í Íran] eru að taka mikla áhættu með því að mótmæla en einnig karlar af þeirra kynslóð sem einnig eru að lenda í vandræðum. Eldri kynslóðin vill halda í horfinu en sú yngri vill breytingar.“