Þóra Guðrún Gunnarsdóttir
Þóra Guðrún Gunnarsdóttir
Skautafólk er orðið langþreytt á áhugaleysi borgaryfirvalda.

Þóra Guðrún Gunnarsdóttir

Senn gengur vetur í garð. Leggst þá niður notkun fótboltavalla sem tekið hafa á móti börnum og ungmennum í sumar og við taka vetraríþróttir ýmiss konar. Aðstaða utanhúss fyrir vetraríþróttir er einn af þeim hlutum sem sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins hafa ekki sinnt af kostgæfni fyrir utan skíðaíþróttina þar sem þau hafa sameiginlega komið að uppbyggingu glæsilegrar íþróttaaðstöðu í Bláfjöllum. En hvað með íþróttagreinar sem stundaðar eru á skautum?

Til þessa hefur eingöngu Reykjavík verið með aðstöðu til skautaíþrótta í almannarými á Tjörninni, en því miður hefur verið stopult að svellinu sé haldið við. Hér áður fyrr hafði borgin veg og vanda af því að fleyta vatni á Melavöllinn sáluga sem var vel sóttur á köldum vetrardögum og fyrir það þóttu „hittingar“ á Tjörninni, þar sem skautað var undir tónlist og hægt að kaupa heitar veitingar, tilefni til stefnumóta og heilbrigðrar hreyfingar.

Síðustu misseri hafa minni sveitarfélög á landsbyggðinni komið sér upp aðstöðu til skautaíþrótta úti við á tjörnum eða manngerðum svæðum og má þar fremst nefna Flateyri og Dalvík sem lyft hafa grettistaki í uppbyggingu og komið sér upp skauta- og hjálmaeign sem almenningi býðst til brúks.

„Mannvirkjamál ísíþrótta á höfuðborgarsvæðinu eru í algjörum ólestri. Tvær skautahallir eru í Reykjavík sem þjóna iðkendum frá öllu svæðinu, samtals 230 þús. manns.“

Anna þær engan veginn eftirspurn eftir æfingatímum þeirra íþróttafélaga sem bjóða upp á ísíþróttir og komast færri að en vilja. Að auki deila íþróttafélögin ístímanum með almenningi.

Þarfagreining skautamála í nágrannaríkjum okkar telur að ein skautahöll eigi að vera á hverja 25-30 þús. íbúa. Það þýðir að skautahöll ætti að vera í hverju þeirra bæjarfélaga; Kópavogs, Garðabæjar og Hafnarfjarðar auk a.m.k. tveggja til viðbótar í Reykjavík. Þessi nágrannasveitarfélög Reykjavíkur hafa ekki gert neina tilraun til að þróa iðkun ísíþrótta innan bæjarmarka sinna þótt margir möguleikar séu í stöðunni eins og að koma upp ísíþróttaaðstöðu utanhúss til að byrja með á Vífilsstaðavatni, Urriðavatni, Bessastaðatjörn, Elliða- og Hvaleyrarvatni svo eitthvað sé nefnt en einnig gætu þessi bæjarfélög komið sér upp steyptum plötum með kælikerfi til vetrariðkunar sem hægt væri að breyta í go-cart, hjólaskautaaðstöðu eða markaðstorg á sumrin.

Í Reykjavík mætti reglubundið og með alvöru markmiðssetningu koma upp stemningu á Tjörninni á vetrardögum og ísgerð þar sinnt almennilega sem nýst gæti listskauturum og skautahlaupurum. Hægt væri að koma upp aðstöðu til að skipta um skóbúnað og hugsanlega að hafa kakósölu og bjóða upp á tónlist til að auka á stemninguna líkt og gert var í denn. Álíka væri hægt að koma upp við Rauðavatn.

Viljinn þarf að vera fyrir hendi og honum þarf að fylgja eftir með gjörðum. Því er skorað á Reykjavíkurborg og bæjarfélögin Kópavog, Hafnarfjörð og Garðabæ að koma upp aðstöðu til iðkunar ísíþrótta í almannarými til vetraríþrótta sem fyrst. Skautafólk er orðið langþreytt á áhugaleysi borgaryfirvalda og nágrannasveitarfélaga á ísíþróttum hvort sem er fyrir íþróttafólk þessara íþrótta eða almenning. Við erum jú frá ÍS-landi og ættum að vera framar í iðkun ís-íþrótta en við því miður erum.

Höfundur sér um þróunar- og útbreiðslumál Skautasambands Íslands.

Höf.: Þóra Guðrún Gunnarsdóttir