Sóðaskapur Veggjakrotarar hafa löngum fengið útrás á húsi Héraðsdóms Reykjavíkur í Austurstræti.
Sóðaskapur Veggjakrotarar hafa löngum fengið útrás á húsi Héraðsdóms Reykjavíkur í Austurstræti. — Morgunblaðið/Hákon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Þetta er auðvitað alger hryllingur,“ segir Svavar Sigurðsson, dómvörður í Héraðsdómi Reykjavíkur. Veggjakrotarar hafa löngum gert húsnæði dómsins í Austurstræti að skotmarki sínu og síðustu vikur og mánuði hefur það ekki verið þrifið af, eins og jafnan er gert reglulega. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins hefur krotið sem sést á meðfylgjandi myndum fengið að standa óhreyft síðan í byrjun júní eða í ríflega fjóra mánuði.

Svavar segir að sumarleyfi hafi riðlað málum að nokkru en beiðni hafi verið lögð fram fyrir nokkrum vikum um þrif. Það hafi farist fyrir hjá þeim sem um það sér. Hann segir að flókið geti reynst að þrífa húsnæði Héraðsdóms, mála þurfi fletina undir gluggunum en háþrýstiþvo þarf steininguna. „Okkur finnst skelfilegt að þurfa að standa í þessu. Ég held að við höfum náð 3-4 vikum eftir síðustu þrif áður en búið var að sprauta á húsið aftur. Þetta er mjög bagalegt.“

Þær upplýsingar fengust frá Framkvæmdasýslunni – ríkiseignum að eignastjóri stofnunarinnar hefði tryggt að Héraðsdómur Reykjavíkur yrði hreinsaður í næstu viku. „FSRE er ekki með virkt eftirlit með veggjakroti á byggingar í umsjá stofnunarinnar, en þegar þess verður vart eru viðeigandi ráðstafanir gerðar,“ segir í svari við fyrirspurn Morgunblaðsins.

Megn óánægja er meðal íbúa og verslunareigenda í miðborg Reykjavíkur með veggjakrot. Í umfjöllun blaðsins í vikunni lýsti Sigrún Tryggvadóttir, formaður Íbúasamtaka miðborgar Reykjavíkur, óánægju með ásýnd miðborgarinnar. „Okkur finnst að veggjakrotið sé að aukast og við viljum að tekið sé á því,“ sagði Sigrún sem kveðst telja að veggjakrot hafi aukist að undanförnu.

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon