Skák
Helgi Ólafsson
helol@simnet.is
Skákdeild Fjölnis hefur náð miklu forskoti eftir fyrri hluta Íslandsmóts skákfélaga sem fram fór í Rimaskóla um síðustu helgi. Fjölnismenn gerðu meiri breytingar á liði sínu fyrir þetta keppnistímabil en önnur félög og tefldu fram fjórum stigahæstu skákmönnum keppninnar, þar af þrem stórmeisturum frá Litháen. Þetta skilaði sér í sigrum í öllum fimm viðureignum liðsins og samtals 10 stigum. Víkingaklúbburinn kemur næstur með 7 stig.
Það er harla ólíklegt að breyting verði á stöðu mála í seinni hlutanum og má nánast bóka sigur Fjölnis í efstu deild. Í 1. deild er skákdeild Breiðabliks í efsta sæti, Skákfélag Akureyrar b-lið er í efsta sæti 2. deildar, Fjölnir b-sveit í 3. deild og í 4. deild hefur Dímon a-sveit náð forystu. Seinni hluti keppninnar fer fram um mánaðamótin febrúar/mars á næsta ári.
Það er einn helsti kostur þessarar keppni að ungir skákmenn fá þar að spreyta sig við þrautreynda stórmeistara. Örn Leó Jóhannsson, sem teflir fyrir Taflfélag Vestmannaeyja, hefur margt til brunns að bera en gæti bætt sig með því að kynna sér fræðin betur. Í viðureign TV við Fjölni náði hann að vinna einn sterkasta skákmann Dana með þrautseigjuna eina að vopni. Lengst af var Daninn með heldur betra tafl og stundum mun betra. En Örn Leó gafst ekki upp og náði að lokum að snúa taflinu sér í vil:
Íslandsmót skákfélaga 2023-´24; 5. umferð:
Jesper Thybo – Örn Leó Jóhannsson
Reti byrjun
1. Rf3 d5 2. g3 Rf6 3. Bg2 c6 4. O-O Bg4 5. h3 Bxf3 6. Bxf3 Rbd7 7. d4 e5 8. c4 dxc4 9. Rd2 exd4 10. Rxc4 b5 11. Rd2 Re5 12. Bg2 Db6 13. a4 Hd8
Besti leikurinn en staðan er erfið þó svarti eigi peði meira. Hvítur teflir framhaldið af miklu öryggi.
14. Dc2 Bb4 15. Re4 Rd5 16. Rg5 Dc5 17. Dxc5 Bxc5 18. Bf4 Rxf4 19. gxf4 Rg6 20. Hfc1 Bb6 21. Bxc6+ Ke7 22. Bxb5 Rxf4 23. Kf1 Hd5 24. h4 h6 25. Rf3 g5 26. Bc6 Hd6 27. a5 Bd8 28. Hc4 Re6 29. b4 Bc7 30. Be4 Kf6 31. Hac1 Bb8 32. b5 gxh4 33. Rxh4 Ke5 34. Bd3 Hhd8 35. Rf5 H6d7 36. Hc6 h5 37.
Sjá stöðumynd 1.
37. Rh4?!
Það vill stundum þvælast fyrir góðum skákmönnum að „spila út trompunum“ í hagstæðari stöðum. Bæði hér og leik fyrr gat hvítur leikið b5-b6 með vinningsstöðu. Eftir þetta hik nær svartur að rétta úr kútnum.
37. … Hc7 38. Rf3 Kf6 39. Rd2 Hxc6 40. Hxc6 h4!
Svartur er sloppinn frá því versta. Þetta frípeð sér til þess.
41. Kg2 Ke7 42. Bf5 Rf4 43. Kf3 Hd5! 44. Hc8 Hxb5!
Á þessum punkti nær svartur frumkvæðinu. Hann býður upp á 45. Hxb8 Hxb8 46. Kxf4 en eftir 46. … Hb2! er svartur með betra og getur aldrei tapað.
45. Be4 Re6 46. Bc6 Hb2 47. Re4 f5! 48. Rd2 h3 49. e3 Rg5+ 50. Ke2 dxe3?
Hér var 50. … Re4! enn sterkara og vinnur strax.
51. Kxe3 Be5?
Tímahrak hjá báðum og nú gat hvítur komist yfir það versta með 52. He8+ Kf6 53. f4!
52. f4 Bf6 53. Ha8 Re6 54. Hxa7+ Kd6 55. Ha6 Bd4+ 56. Ke2 Rc7!
- og hvítur gafst upp.
Tvö töp Magnúsar Carlsen
Magnús Carlsen sat í 8.-19. sæti með 5½ vinning af 8 á opna mótinu í Katar fyrir lokaumferðina sem fram fór í gær. Hann tapaði fyrir Suleymenov frá Kasakstan og Indverjanum Karthikeyan í annarri og sjöttu umferð og átti fyrir lokaumferðina enga möguleika á því að vinna mótið. Efstur var Indverjinn Argiasi með 6½ vinning.