Guðmundur Ármann Pétursson
Guðmundur Ármann Pétursson
Þar er virðing borin fyrir viðhorfum og skoðunum allra einstaklinga og tillit til þeirra tekið.

Guðmundur Ármann Pétursson

Október er alþjóðlegur mánuður vitundarvakningar um Downs-heilkenni. Vitundarvakning og réttindabarátta í tengslum við Downs-heilkennið og réttindabarátta hagsmunasamtaka fatlaðs fólks er okkur öllum mikilvæg. Árangur þeirrar baráttu skilar okkur betra samfélagi, samfélagi inngildingar.

Inngildandi samfélag er ekki bara einstaklingum með Downs-heilkenni mikilvægt, það er öllum hópum samfélagsins mikilvægt vegna þess að:

Þar er fósturgreining nýtt til stuðnings og fræðslu í stað þess að leita uppi einn ákveðinn hóp með þeim afleiðingum að börn með Downs-heilkenni fæðast nánast ekki lengur.

Þar er leikskóli staður þar sem börn fá að vera, upplifa og kynnast án staðalmynda og skoðana okkar sem eldri erum.

Þar er grunnskóli skóli allra nemenda þar sem enginn fær það hlutskipti að þurfa að „laga sig að“.

Þar er félags- og íþróttastarf aðgengilegt öllum börnum og unglingum. Þar fær enginn þau skilaboð að hans þátttaka sé „ekki fjármögnuð“.

Þar er framhaldsskóli skóli fjölbreyttra tækifæra þar sem allir nemendur geta valið sér nám út frá áhugasviði, hæfni og námsmarkmiðum.

Þar er háskólanám raunhæfur, aðgengilegur og spennandi kostur fyrir alla verðandi háskólanema.

Þar er aðgengi einstaklinga með skerta starfsgetu að vinnumarkaði eðlilegur þáttur í starfsemi ráðningarstofa, ekki „úrræði“ á vegum Vinnumálastofnunar.

Þar eru einstaklingar með skerta starfsgetu launþegar sem hafa framfærslutryggingu sem opnar möguleika til tekna, tækifæra og samfélagsþátttöku í stað þess að vera bótaþegar sem eru bundnir í báða fætur.

Þar eru samfélags- og kerfisbreytingar til að bæta lífsgæði, aðgengi og öryggi allra, ekki orsök útilokunar og aðgreiningar.

Þar er virðing borin fyrir viðhorfum og skoðunum allra einstaklinga og tillit til þeirra tekið.

Þar er ekki valkvætt hvort fara eigi að lögum þegar kemur að lögbundnum rétti ákveðins hóps einstaklinga.

Það á að vera sameiginlegt hagsmunamál okkar allra að íslenskt samfélag sé inngildandi samfélag.

Höfundur er formaður Félags áhugafólks um Downs-heilkennið.

Höf.: Guðmundur Ármann Pétursson