Norðmenn eiga tvo af bestu leikmönnunum í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, Erling Haaland og Martin Ødegaard. Þeir eiga einn fremsta kylfing heims nú um stundir, Viktor Hovland, og mann í efsta lagi tennisheimsins, Casper Ruud. Karsten Warholm er ólympíu- og heimsmeistari í 400 metra grindahlaupi og aðrir hlauparar, Ingebrigtsen-bræður, hafa náð framúrskarandi árangri í millivegalengdum á umliðnum árum. Svo eru það handboltastelpurnar hans Þóris Hergeirssonar, sem sópað hafa til sín gulli á öllum stærstu mótunum, að ekki sé talað um yfirburði Norðmanna í skíðagöngu. Svona mætti lengi telja. Ætli það sé tilviljun að norska þjóðin búi að öllu þessu afreksfólki í fremstu röð?
„Nei, ekki aldeilis,“ svarar Bjarni Jóhannsson, knattspyrnuþjálfari til áratuga, íþróttakennari og umsjónarmaður afreksíþróttasviðs Borgarholtsskóla. „Þessi árangur er afrakstur mjög markvissrar vinnu í langan tíma.“
Bjarni var í námsleyfi á liðnu skólaári og nýtti það meðal annars til að heimsækja Noreg og kynna sér stefnu þjóðarinnar í afreksíþróttum. Hann byrjaði á því að sækja valin námskeið við sinn gamla skóla, Norges idrettshøgskole í Ósló, en þar var hann við nám á árunum 1985-87, en heimsótti einnig framhaldsskóla sem eru með afreksíþróttasvið, norska knattspyrnusambandið, Þóri Hergeirsson og ýmsa fleiri í þessum vettvangsleiðangri sínum.
Íþróttin gengur fyrir
„Ég kom á afrekssviðinu í Borgarholtsskóla árið 2007 og núna erum við að endurnýja námið og bjóða upp á nýtt námssvið, þannig að við blasti að heimsækja Noreg enda eru þeir langt á undan okkur í þessum efnum. Ramminn í kringum þetta þarf að vera sterkari hér heima. Lykillinn að íþrótta- og afreksuppbyggingu Norðmanna eru skólarnir og sú markvissa vinna nær marga áratugi aftur í tímann. Kerfi sem þeir kalla Toppidretts Gymnasium.“
Bjarni lýsir því á þann veg að nemendum sé gefinn kostur á bóklegu námi með íþrótt sinni sem gengur fyrir. Námið er með öðrum orðum byggt upp kringum íþróttina. Þetta hefur lengi tíðkast í framhaldsskólum en í seinni tíð líka í grunnskólum. „Áhersla er lögð á íþróttina og almenna heilsuvitund og aukaæfingar fara fram á skólatíma en ekki á kvöldin eða morgnana. Sé nemandinn hæfileikaríkur og líklegur til afreka fær hann brautargengi til þess í skólakerfinu að keppa með félagi sínu eða landsliðinu. Íþróttin er sett á oddinn og annað nám er byggt í kringum áhugasvið nemandans. Meðan börnin okkar sitja inni og reikna þá eru norsk börn úti að æfa,“ segir Bjarni sposkur.
„Þetta snýst um að finna styrkleika barnanna og vinna út frá því. Íslenska skólakerfið hefur því miður ekki verið nógu duglegt að fara þessa leið, eins og dæmin sanna. Sóknarfærin eru því tvímælalaust fyrir hendi. Nægir þar að nefna áhugaverða tilraun sem Hermundur Sigmundsson, prófessor í lífeðlisfræðilegri sálfræði, hefur verið að gera með góðum árangri í Vestmannaeyjum undir yfirskriftinni Kveikjum neistann.“
Bjarni segir þessa hugsun, að skólinn sé virkur þátttakandi í uppbyggingu íþróttamanna, í sjálfu sér ekki sérnorska; þetta sé einnig geysilega vel gert í Danmörku, Svíþjóð, Þýskalandi, Hollandi og fleiri löndum. Og lykilatriði er að byrja snemma. „Því fyrr sem maður fær vitneskju um að einhver hafi burði til að verða góður í íþróttum þeim mun meiri möguleikar eru á því að hann verði það.“
Þessi markvissa vinna hefst við 12 ára aldur en fram að því er bannað í Noregi að vera með launaða þjálfara í íþróttum barna og áhersla á keppni er mun minni en við eigum að venjast hér heima. Bjarni segir þetta hafa sína kosti og galla og margir í Noregi öfundi okkur Íslendinga af því að vera með launaða þjálfara í barnastarfi og öllum barnamótunum. „Við erum mjög stolt af þessum barnamótum okkar sem sett hafa svip sinn á menningarlíf bæja, svo sem fótboltamótunum á Akranesi, Akureyri, í Vestmannaeyjum og Kópavogi, Nettómótinu í körfubolta, Andrésar Andar-leikunum á skíðum og svo framvegis. Þessi mót eiga það hins vegar öll sameiginlegt að vera fjáraflanir. Hefur einhver velt fyrir sér hvort það sé gott fyrir börnin?“
Á móti kemur að foreldrar tengjast íþróttaiðkun barna sinna betur fyrstu árin í Noregi en hér. „Norðmenn vinna miklu minna en við, þurfa ekki að vera í tvöfaldri vinnu til að þjóna seðlabankastjóra og arðsemisgræðgi bankanna,“ segir Bjarni sposkur, „og foreldrar eru fyrir vikið meira til staðar fyrir börnin sín, meðal annars í íþróttum, þar sem margir foreldrar sjá hreinlega um þjálfunina. Það á mögulega sinn þátt í árangri barnanna þegar fram í sækir.“
Hann bendir líka á sveigjanleika gagnvart námi á framhaldsskólastigi en í Noregi geti nemendur valið um þriggja, fjögurra eða jafnvel fimm ára nám þegar grunnskóla lýkur. Skyldan er þrjú ár eins og hér. „Þetta gefur unglingum tækifæri til að rækta sína hæfileika betur.“
Mun betri innviðir
Svo er það aðstaðan, innviðirnir, svo við tölum tískumál, en hún er mun betri í Noregi en hér á landi og líklega víðast hvar annars staðar. „Á Íslandi eru bæjarfélögin allsráðandi þegar kemur að uppbyggingu íþróttamannvirkja og annarra innviða, sem þekkist hvergi annars staðar í heiminum. Það er bara á Íslandi sem ríkið styður jafn illa við bakið á þessu starfi. Bara sú staðreynd að menn fái ekki virðisaukaskattinn af uppbyggingu mannvirkja niðurfelldan segir allt sem segja þarf. Það er með ólíkindum. Í Noregi er verið að byggja velli út um allt. Þannig fór Vålerenga nýlega af Bislet-leikvanginum yfir á nýjan 17.500 manna glæsilegan völl þar sem stúkan er fullnýtt undir aðra starfsemi, þarna er 500 manna framhaldsskóli, leikskóli, líkamsræktarstöð og fleira. Á þjóðarleikvangi Norðmanna, Ullevaal, eru stórmarkaðir, veitingastaðir, allskyns verslanir og við aðra hliðina er göngugata og þar eru hótel, kaffihús, stórar verslanir og fleira. Allt þetta er samnýtt með íþóttamannvirkinu sem fær líf allan sólarhringinn. Hverju sætir það? Jú, atvinnulífið tekur nefnilega fullan þátt í uppbyggingu á mannvirkjum. Hvers vegna í ósköpunum er það ekki að gerast hér? Við þurfum fulla virkni og nýtingu á þessum mannvirkjum. Með aðkomu atvinnulífsins gerast hlutirnir líka mun hraðar. Hér heima hafa ríki og borg verið í störukeppni vegna áforma um byggingu nýrrar þjóðarhallar í heilan áratug og ekkert hefur gerst. Ef við ætlum að feta í fótspor Norðmanna þurfum við á þjóðarátaki að halda og algjörri hugarfarsbyltingu í uppbyggingu íþróttamannvirkja, með aðkomu ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífsins.“
Hvað fótboltann varðar þá þarf, að mati Bjarna, ekki endilega hús og hallir til að fullnægja þörf iðkenda, svokallaðir sparkkofar, það er yfirbyggðir sparkvellir, geti líka gert heilmikið gagn, sérstaklega í smærri bæjarfélögunum. Þeir þurfi alls ekki að vera dýrir og vinna mætti með sömu útfærslu og teikningar víða.
Bjarni hafði að vonum gaman af því að heimsækja sinn gamla félaga Þóri Hergeirsson, þjálfara kvennalandsliðs Noregs, en þeir voru samtíða í Norges idrettshøgskole. „Hann hefur unnið frábært starf með norsku stelpurnar en handbolti er gríðarlega vinsæll í Noregi. Efnilegar stelpur fá sénsinn mjög ungar, sérstaklega hjá smærri liðunum, og eru margar hverjar orðnar leikreyndar strax um tvítugt. Í því sambandi skiptir líka máli að styrkur frá sérsamböndunum til íþróttafélaga hækkar eftir því sem fleiri uppaldir leikmenn eru í liðinu. Ég heimsótti líka Elías Þór Halldórsson sem þjálfar kvennalið Frederiksborgar og hann er að vinna fínt starf. Þar eru menn stoltir af ungu leikmönnunum sínum og leggja mikið á sig til að koma þeim upp á næsta stig.“
Landinu skipt upp í hluta
Þegar hér er komið sögu dregur Bjarni glærur úr pússi sínu (í tölvutæku formi); alltaf spennandi og forvitnilegt þegar viðmælendur gera það í miðju viðtali. Noregur blasir við. Við erum að tala um kerfið sem knattspyrnusamband landsins vinnur eftir. Landinu er skipt upp í landshluta sem aftur er skipt upp í fylki, þrjú til fjögur í hverjum landshluta. Í hverju fylki eru fjórir starfsmenn á vegum knattspyrnusambandsins í fullu starfi. Sá fyrsti hefur það hlutverk að finna hæfileikaríka leikmenn og er um leið afreksþjálfari. Næsti sér um öll námskeið í héraðinu. Sá þriðji hjálpar félögunum við reksturinn og tengir þau við styrktaraðila og fleira. Fjórði starfsmaðurinn hefur svo eftirlit með hinum þremur og sér til þess að þeir séu að vinna vinnuna sína. Í hverju fylki geta verið á bilinu 50-80 félög.
Þess má geta að Ólafur Örn Bjarnason, fyrrverandi landsliðsmaður, hefur gegnt fyrsta hlutverkinu í Noregi en hann er nú yfir akadamíunni hjá Stabæk sem Bjarni segir eina þá öflugustu í landinu. „Þetta gerir það að verkum að efnilegir leikmenn, strákar og stelpur, fá tækifæri til að æfa undir stjórn hæfustu þjálfara heima í fylkinu og jafnvel heima í héraði. Byrjað er að leita að hæfileikaríkum leikmönnum strax við 12 ára aldur og þeir eru látnir vita af því að þeir þyki efnilegir sem ætti að hvetja þá til dáða. Um leið er hugað að breiddinni enda hafa Norðmenn löngum trúað því að afrek skapi breidd og breidd skapi afrek. Þannig gengur þeim vel að halda krökkunum inni og það á auðvitað við um fleiri greinar en fótboltann. Hér heima er brottfallið alltof mikið,“ segir Bjarni og bætir við að Norðmenn séu duglegir að búa til fyrirmyndir sem séu hvatning fyrir aðrar greinar.
Hann segir Norðmenn kortleggja hæfileikaríkustu börnin 12 og 13 ára og strax við 14 ára aldur er byrjað að velja þau bestu í lið í fylkinu og 15 ára komast þau bestu í landsliðið í sínum aldursflokki en halda eftir sem áður áfram með sínum fylkisliðum. Eftir 16 ára aldur er hins vegar bara afrekslína og landslið. „Þetta er rosalega markvisst og skilvirkt kerfi enda eru Norðmenn miklu agaðri en við og byrja fyrr að kortleggja hæfileikaríkustu leikmennina; við byrjum eiginlega ekki á því að neinu gagni fyrr en við 15 ára aldurinn. Þannig að Norðmenn eru þremur árum á undan okkur,“ segir Bjarni og bætir við að önnur íþróttasambönd fylgi þessu fyrirkomulagi í grunninn.
Hann segir mikla upphefð í því fólgna að vera valinn í fylkislið, þannig fá miklu fleiri tækifæri til að komast áfram. „Það hefði verið geggjað fyrir mig heima á Norðfirði í gamla daga,“ segir hann sposkur. „Tengingin verður á svo miklu breiðari grunni.“
– Hvar væri maður á borð við Erling Haaland staddur í dag hefði hann fæðst á Íslandi?
„Hann væri skytta í handbolta,“ svarar Bjarni glottandi.
Bjarni bendir á að Haaland komi úr frægum árgangi í Bryne, þar sem heimtur hafi lengi verið góðar. Þannig hafi sex úr 40 manna afrekshópi sem hann var í verið að spila í efstu deild einhvers staðar árið 2021. „Það er þekktur kennari, þjálfari og pedagóg sem heldur utan um það merkilega starf.“
Bjarni segir faglega vinnu af þessu tagi smita út frá sér, að ekki sé talað um öfluga rannsóknarvinnu sem norska íþróttahreyfingin innir af hendi og allir geta sótt gögn í. „Fjármögnunin í grunnstarfinu er líka mikil; það vantar alveg hérlendis. Unglingalandsliðin eru að stórum hluta fjármögnuð af vinum og ættingjum og með klósettpappírssölu. Núna skilst mér að handknattleiksdeild FH sé að standa fyrir happdrætti til að geta tekið þátt í Evrópukeppni. Lið sem er með einn af bestu handboltamönnum heims undanfarinn áratug innanborðs. Það er djöfullegt að fara í löndun á morgnana og æfa á kvöldin og ætla að vera í heimsklassa.“
Spurður hvort norska kerfið, sem hér hefur verið lýst, sé ennþá öflugra en hann bjóst við svarar Bjarni umsvifalaust játandi. „Og það á bara eftir að vaxa.“
Gamla góða keppnisskapið
– Hvað ætlar þú að gera við þessar upplýsingar sem þú aflaðir í Noregi?
„Ég á sæti í nýskipuðum vinnuhópi á vegum Vésteins Hafsteinssonar, afreksstjóra ÍSÍ, sem er maður með mikla vigt og skýra sýn í þessum efnum. Ráðuneytið hefur einnig aðkomu að þeim vinnuhópi og ég sé þar um tillögur um nýjar hugmyndir fyrir afrekslínur framhaldsskólanna. Við ráðgerum að sú vinna muni taka á bilinu eitt til tvö ár. Ég legg upp með nýja hugmyndafræði í Borgarholtsskóla og hugsanlega nýja námslínu. Ársæll Guðmundsson skólameistari bauð mér það og ég er honum mjög þakklátur. Ég finn að það er vakning í þessum málum og vaxandi áhugi. Ég orðinn 65 ára og ágætt að enda starfsferilinn á þessu.“
– Þú talar af eldmóði um þessi mál. Er ástríðan alltaf jafnmikil?
„Já, þegar manni er sýnt traust og maður telur sig enn vera með ferskar hugmyndir. Gamla góða keppnisskapið er heldur aldrei langt undan.“
Hann brosir.
– Er jafnvel ástæða til hóflegrar bjartsýni þegar kemur að þessum afreksíþróttamálum okkar Íslendinga?
„Já, ég held það. Vinna Vésteins er gríðarlega spennandi. Menn hefðu bara átt að byrja fyrr á henni. Ég er líka þakklátur Ásmundi Einari Daðasyni, ráðherra barna- og menningarmála, fyrir hans stuðning og metnað fyrir þessum málaflokki. Það er margt að gerast kringum hann. Það er líka lífleg umræða komin í gang, Hermundur Sigmundsson, Þorgrímur Þráinsson og fleiri, sem er gott. Heilsu- og heiðbrigðisuppeldið fer batnandi hér þó það eigi enn langt í land með að ná Noregi. Finnum áhugamál barna snemma, íþróttir, tónlist, myndlist, leiklist, verklegar greinar og vinnum út frá þeim. Vöndum okkur við að ala upp börnin okkar. Það er léttara að byggja upp börn en gera við fullorðna.“