Strokkur Vinsæll áfangastaður allan ársins hring. Tæplega 1,3 milljónir ferðamanna hafa komið á Geysissvæðið í ár samkvæmt teljurum.
Strokkur Vinsæll áfangastaður allan ársins hring. Tæplega 1,3 milljónir ferðamanna hafa komið á Geysissvæðið í ár samkvæmt teljurum. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mikil aukning hefur verið í aðsókn ferðamanna að náttúruperlum á Austurlandi og á Vestfjörðum síðasta árið. Þetta sýna tölur Ferðamálastofu en niðurstöður úr teljurum eru birtar á Mælaborði ferðaþjónustunnar

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Mikil aukning hefur verið í aðsókn ferðamanna að náttúruperlum á Austurlandi og á Vestfjörðum síðasta árið. Þetta sýna tölur Ferðamálastofu en niðurstöður úr teljurum eru birtar á Mælaborði ferðaþjónustunnar.

Þar má sjá að 35% fjölgun varð á gestum í Stuðlagil á Austurlandi í ár miðað við í fyrra. Alger sprenging hefur orðið í aðsókn síðustu tvö ár. Gestafjöldinn hefur nær tvöfaldast frá 2021 og í ár hafa tæplega 188 þúsund manns komið þangað.

Enn meiri hlutfallsleg aukning hefur orðið í aðsókn að Dynjanda í Arnarfirði, stærsta fossi á Vestfjörðum. Gestum fjölgaði þar um 143% milli ára en þeir eru um 113 þúsund í ár.

Arnar Már Ólafsson ferðamálastjóri segir þetta ánægjulega niðurstöðu. Þó að þessir staðir eigi langt í land með að vera jafn vel sóttir og stærstu ferðamannastaðir landsins sé þessi aukning merki um jákvæða þróun.

„Við erum að þokast í rétta átt með að ná betri dreifingu ferðamanna um landið,“ segir Arnar Már í samtali við Morgunblaðið.

Hann segir að 44% ferðamanna hafi heimsótt Austurland í ár en aðeins 31% hafi gist þar í eina nótt eða lengur. Um 23% ferðamanna heimsóttu Vestfirði en aðeins 14% hafi gist þar. „Þetta mjakast þó í rétta átt. Axlirnar eru að breikka, við erum að verða herðabreiðari,“ segir Arnar og vísar til þess að ferðamenn fari nú víðar og ferðamannatímabilið hafi lengst. „Nýliðinn september er til dæmis betri en við höfum áður séð. Hins vegar er það þannig að mestu framfarir í ferðamennsku utan háannar eru bundnar við suðvesturhornið. Það er ein af stóru áskorunum ferðaþjónustunnar að fá meiri umferð um vetur, vor og haust út á land.“

Arnar Már segir að áhugavert geti verið að rýna í tölur um ferðamenn á ákveðnum stöðum. Þær endurspegli þó ekki alltaf þann fjölda ferðamanna sem heimsæki viðkomandi svæði í heild sinni. „Staðir eins og Stuðlagil, Reynisfjara, Fjaðrárgljúfur, Dynjandi og flakið á Sólheimasandi eru dæmi um staði sem ferðamenn vilja sjá og flykkjast að. Þessir staðir hafa öðlast ákveðna frægð í gegnum samfélagsmiðla og áhrifavalda.“

Vinsældir Gullna hringsins svokallaða eru þekktar og samkvæmt teljurum Ferðamálastofu fara flestir ferðamenn að Geysi. Alls hafa 1.283.727 ferðamenn komið þangað í ár og hefur þeim fjölgað um 11% miðað við árið í fyrra. Mælirinn á efra svæði Gullfoss sýnir að þangað hafa komið 734.165 gestir og nemur fjölgun gesta þar 20% milli ára.

Ríflega 444 þúsund gestir hafa komið í Reynisfjöru í ár og þar er fjölgunin milli ára 7%. Gestir í Fjaðrárgljúfri eru 262 þúsund í ár og hefur fjölgað umtalsvert frá því í fyrra, eða um 19%. Athygli vekur að færri sóttu Dimmuborgir heim þetta árið en í fyrra, 139 þúsund gestir samanborið við 217 þúsund í fyrra. Nemur fækkunin 36%.

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon