Bestur Gunnar Freyr Róbertsson var með 8,50 í meðaleinkunn í Bestu deild kvenna.
Bestur Gunnar Freyr Róbertsson var með 8,50 í meðaleinkunn í Bestu deild kvenna. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vilhjálmur Alvar Þórarinsson var besti dómarinn í Bestu deild karla í fótbolta í sumar, samkvæmt einkunnagjöf Morgunblaðsins, og Gunnar Freyr Róbertsson var besti dómarinn í Bestu deild kvenna

Dómarar

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Vilhjálmur Alvar Þórarinsson var besti dómarinn í Bestu deild karla í fótbolta í sumar, samkvæmt einkunnagjöf Morgunblaðsins, og Gunnar Freyr Róbertsson var besti dómarinn í Bestu deild kvenna.

Þetta er niðurstaðan þegar heildarframmistaða dómaranna er reiknuð út en þeir Vilhjálmur og Gunnar voru með hæstu meðaleinkunnir í þessum deildum, af þeim sem dæmdu reglulega.

Vilhjálmur Alvar dæmdi 18 leiki í Bestu deild karla og var með meðaleinkunnina 7,94. Næstir á eftir honum komu Elías Ingi Árnason með 7,60 í 10 leikjum og Pétur Guðmundsson með 7,55 í meðaleinkunn í 20 leikjum.

Gunnar Freyr dæmdi sex leiki í Bestu deild kvenna og var með meðaleinkunnina 8,50. Næstir á eftir honum komu Gunnar Oddur Hafliðason með 8,40 fyrir fimm leiki og Þórður Þ. Þórðarson með 8,17 fyrir sex leiki. Þá er miðað við þá sem dæmdu fimm leiki eða fleiri.

Erlendur Eiríksson dæmdi flesta leiki í Bestu deild karla, 21 talsins, en í Bestu deild kvenna dæmdu Soffía Ummarin Kristinsdóttir og Reynir Ingi Finnsson flesta leiki, níu hvort.

Dómurum er raðað á leiki í deildunum samkvæmt erfiðleikastigi og í Bestu deild karla dæma bestu dómararnir hverju sinni. Átta dómarar, þar af fjórir FIFA-dómarar, dæmdu bróðurpart leikjanna í Bestu deild karla.

Þeir sem dæma í Bestu deild kvenna eru í næsta styrkleikaflokki fyrir neðan og þeir dæma jafnframt marga leiki í 1. og 2. deild karla. Í þeim hópi eru mikið fleiri en samtals 31 dómari kom við sögu í 111 leikjum í Bestu deild kvenna á meðan aðeins 15 dómarar dæmdu alla 162 leikina í Bestu deild karla.

Blaðamenn Morgunblaðsins voru á öllum 273 leikjunum í Bestu deildunum á árinu og gáfu dómurum einkunnir á skalanum 1-10.

Höf.: Víðir Sigurðsson