Vegna stríðsins í Úkraínu hefur hugmyndafræðilegt yfirbragð ráðstefnunnar dofnað og akademían komið í staðinn.

Vettvangur

Björn Bjarnason

bjorn@bjorn.is

Af dugnaði og eldmóði hefur Ólafur Ragnar Grímsson í 10 ár haldið lífi í hringborði norðursins, Arctic Circle. Heimsfaraldur stöðvaði hann ekki. Vegna stríðsins í Úkraínu hefur hugmyndafræðilegt yfirbragð ráðstefnunnar dofnað og akademían komið í staðinn.

Áhugi á norðurslóðum er vissulega enn fyrir hendi eins og fjöldi ráðstefnugesta og umræðuefna sýnir. Andrúmsloftið er hins vegar annað en fyrir 10 árum. Stefnumótandi yfirlýsingar um fjölþjóðlegt norðurslóðasamstarf hafa vikið vegna áherslu á öryggis- og hagsmunagæslu einstakra ríkja.

Fjöldi smáfunda er haldinn þar sem sérfróðir aðilar af ólíku þjóðerni bera saman bækur sínar. Slík samtöl kunna að skila sér inn í stefnumótandi ákvarðanir en hafa mest gildi til að sannreyna staðreyndir eða stuðla að frekari rannsóknum og auka sérfræðilega þekkingu.

Þegar ýtt var úr vör fyrir 10 árum gátu menn með rökum gert sér í hugarlund að norðurslóðir skipuðu til frambúðar þann einstaka sess í alþjóðasamskiptum að þar leystu þjóðir úr ágreiningi eftir leikreglum hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þannig yrði landgrunni skipt milli ríkjanna fimm sem eiga land að Norður-Íshafi: Bandaríkjanna, Kanada, Grænlands/Danmerkur, Noregs og Rússlands.

Talað var um svæðið sem lágspennusvæði þar sem hervaldi yrði ekki beitt til að leysa úr ágreiningi. Samstarfið yrði í anda Norðurskautsráðsins og snerist um rannsóknir í von um betri heim fyrir alla.

Enn eimir eftir af þessu viðhorfi en í því er holur hljómur. Engin áform eru um að minnka olíu- og gasvinnslu í hánorðri þótt fjálglega sé rætt um að loftslagsváin birtist þar í verri mynd en annars staðar. Hervæðing norðurslóða er staðreynd þótt forðast sé að minnast á háspennu.

Eftir innrásina í Úkraínu slitu sjö aðildarríki samstarfi sínu við Rússa í Norðurskautsráðinu. Rússar sögðu sig fyrir einum mánuði úr Barentsráðinu sem stofnað var árið 1993 eftir fall Sovétríkjanna og heitir nú á ensku Barents Euro-Arctic Council með aðild norrænu ríkjanna fimm og Evrópusambandsins.

Samstarfinu innan ráðsins var slitið við Rússa vorið 2022 og nú segjast þeir hætta vegna þess að afstaða Vesturlanda hafi lamað ráðið frá mars 2022 auk þess sem Finnar hafi ekki gert neinar ráðstafanir til að afhenda rússneskum stjórnvöldum formennsku í ráðinu eins og þeim bar í október 2023.

Einangrun sína í norðri reyna Rússar að rjúfa með nánara samstarfi við Kínverja. Í vikunni tók Vladimír Pútín Rússlandsforseti til dæmis þátt í hyllingarhátið í Peking fyrir Xi Jinping Kínaforseta vegna 10 ára afmælis framtaks hans sem kennt er við belti og braut. Framtakið hefur þó alls ekki skilað Rússum því sem þeir vonuðu.

Á upphafsdegi Arctic Circle árið 2016 kynnti Dmitríj Kolbíjkin, landstjóri í rússneska sjálfstjórnarhéraðinu Jamal-Nenets, blómlega framtíð þessa heimskautahéraðs við Kara-haf. Tölurnar sem hann nefndi um gas- og olíuframleiðslu sýndu að hann sæti á sannkallaðri gullkistu Rússlands. Með eyðileggingu á Nord Stream-gasleiðslunum í Eystrasalti hætti allt jarðgas að streyma frá Jamal til Evrópu. Draumarnir rættust ekki.

Á árinu 2017 kynntu Kínverjar silkileiðina um pólinn sem hluta af belti og braut-verkefninu. Urðu stórbrotnar framkvæmdir hluti heildarmyndarinnar um sífellt nánari pólitísk samskipti Rússa og Kínverja. Vegna stríðsins hafa Rússar gert meira úr þessum samskiptum en Kínverjar.

Á fundi sem norska Fridtjof Nansen-stofnunin hélt undir merkjum Arctic Circle um samskipti Rússa og Kínverja í norðri kom fram að ekki væri allt sem sýndist, hvað sem áróðursmyndinni liði.

Kínverjar minnast ekki lengur á silkileiðina um pólinn, ekki einu sinni þegar Pútín var í Peking og átti að eigin sögn þriggja tíma fund með Xi.

Á fundinum var sagt að Rússar væru annars vegar varir um sig gagnvart Kínverjum en hvettu þá hins vegar til að láta meira að sér kveða á Jamal og á siglingaleiðinni milli Atlantshafs og Kyrrahafs fyrir norðan Rússland, Norðurleiðinni.

Eftir að Nord Stream-gasleiðslurnar eyðilögðust í september 2022 sitja Rússar uppi með mikið gas sem þeir vilja selja Kínverjum um ólagða landleiðslu til Kína. Kínverskir kaupendur sýna þessum áformum ekki áhuga. Þeir hafa tryggt sér gas frá Persaflóa, Rússar hafa engan forgang. Fjárfestingar í Rússlandi geta leitt til lokunar á kínversk fyrirtæki í vestri.

Kínverska risaskipafélagið Cosco sendir skip sín ekki Norðurleiðina. Þar ræður ótti við refsiaðgerðir vestrænna stjórnvalda því að ekkert skip siglir leiðina án viðskipta við rússnesk yfirvöld.

Í von um minni áhættu vegna vestrænna refsiaðgerða stofnuðu Kínverjar nýtt skipafélag, Newnew Shipping Line, til að halda úti skipum á Norðurleiðinni. Fyrsta skip félagsins sem fór leiðina frá Kína til Rússlands kom til St. Pétursborgar í fylgd með rússneska ísbrjótnum Sevmorput 8. október. Skipin eru nú á leið austur á bóginn að nýju eftir Norðurleiðinni.

Þau komust hins vegar í fréttir vegna grunsemda um að tjón á gasleiðslu og fjarskiptastreng milli Finnlands og Eistlands og fjarskiptastreng milli Svíþjóðar og Eistlands 8. október tengdist ferðum þeirra.

Við hringborð norðursins gætir anda liðins tíma telji menn sér trú um að þar sé unnt að móta alþjóðakerfið að fyrirmynd úr hánorðri. Sú mynd er horfin eins og ísinn sem bráðnar vegna hlýinda. Við tekur hörð hagsmunagæsla í krafti hervalds.