Nýsköpun Davíð Rafn Kristjánsson, framkvæmdastjóri Swapp Agency, segir að fyrirtækið starfi í átta löndum.
Nýsköpun Davíð Rafn Kristjánsson, framkvæmdastjóri Swapp Agency, segir að fyrirtækið starfi í átta löndum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fjarvinna hefur margvíslega kosti og það felast í því mörg tækifæri fyrir alþjóðleg fyrirtæki að bjóða upp á þann kost. Þetta segir Davíð Rafn Kristjánsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Swapp Agency

Magdalena Anna Torfadóttir

magdalena@mbl.is

Fjarvinna hefur margvíslega kosti og það felast í því mörg tækifæri fyrir alþjóðleg fyrirtæki að bjóða upp á þann kost. Þetta segir Davíð Rafn Kristjánsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Swapp Agency. Hann segir að margt hafi breyst á vinnumarkaði og á sviði vinnustaðamenningar frá því að hann stofnaði fyrirtækið.

Davíð stofnaði Swapp Agency árið 2017 og að sögn Davíðs var hugmyndin sú að taka þátt í þeim breytingum sem voru að eiga sér stað á vinnumarkaði.

„Við fundum á okkur að þetta klassíska 9-5 vinnumódel hefði verið að taka breytingum. Svo nokkrum árum síðar kemur covid-heimsfaraldurinn og í kjölfar þess áttu sér stað miklar breytingar á vinnumarkaði,“ segir Davíð og bætir við að um þessar mundir starfi fyrirtækið í átta löndum.

Starfa með alþjóðlegum fyrirtækjum

Swapp Agency ræður inn starfsmann fyrir hönd fyrirtækisins í því landi sem hann er búsettur í og sér um að greiða honum laun samkvæmt lögum og reglum í því landi. Starfsmaðurinn er því launþegi í sínu landi og borgar þar skatt, lífeyrisiðgjöld, orlof og annað.

Swapp Agency er íslenskt sprotafyrirtæki og hefur starfað með mörgum af stærstu fyrirtækjum heims, til að mynda Google, Meta, Harvard, Nasdaq og TripAdvisor svo fátt eitt sé nefnt.

„Það var frekar merkilegt að okkar fyrsti viðskiptavinur var risastórt alþjóðlegt fyrirtæki. Við höfum lagt mikla áherslu á samstarf við erlenda aðila víðs vegar um heim og það hefur gengið mjög vel.“

Spurður hvernig og hvenær hugmyndin að Swapp Agency hafi kviknað segir Davíð að hún hafi komið til sín í kjölfar sjö ára Asíudvalar.

„Ég bjó í Asíu í sjö ár. Þar hitti maður fólk sem sýndi manni að það er til önnur leið. Til dæmis sá maður forritara í Suðaustur-Asíu vinna í fjarvinnu á bandarískum launum. Á þeim tíma hugsaði ég með mér að þetta fyrirkomulag væri aðeins fyrir fáa útvalda en staðan í dag er þannig að margir geta haft þennan lífsstíl. Þetta var kveikjan að því að ég stofnaði fyrirtækið.“

Fjarvinna sé komin til að vera

Davíð dvaldi í San Francisco í Bandaríkjunum í sumar og kveðst þá hafa séð raunveruleg áhrif af fjarvinnu.

„Maður sá að bein áhrif fjarvinnu eru gríðarleg á San Francisco þar sem bílaumferð hefur minnkað verulega, auð skrifstofuhúsnæði úti um allt og samvinnurýmum fjölgar dag frá degi. Það er því engin spurning að fjarvinna er komin til að vera og mun að öllum líkindum bara aukast þegar fram líða stundir.“

Davíð bætir við að hafa þurfi í huga að fjarvinna hafi sína kosti og sína galla. Það fari líka mikið eftir eðli fyrirtækjanna og starfseminnar hvort hún sé yfirhöfuð fýsilegur kostur.

„Fjarvinna hentar fólki og fyrirtækjum misvel en ef litið er á heildarmyndina þá virkar fjarvinna mjög vel. Covid sýndi okkur það og fyrirtæki og stofnanir eru að gera sitt besta til að finna jafnvægi í þessu. Einmanaleiki er fylgifiskur fjarvinnu en mannskepnan er félagsvera og rannsóknir sýna að það að vinna bara heima er ekki sniðugt til langs tíma,“ segir Davíð en bendir á að gera verði greinarmun á heimavinnu og fjarvinnu.

„Þú þarft ekki að vera bara heima hjá þér þó þú sért í fjarvinnu. Samvinnurými eru til að mynda mjög sniðug lausn.“

Davíð segir að markmið Swapp Agency sé að opna augu fólks fyrir meiri möguleikum og hvetur fólk til að hugsa hlutina öðruvísi.

„Okkur langar að sá fræjum hjá Íslendingum um að þeir geti unnið hjá alþjóðlegum fyrirtækjum en búið áfram á Íslandi í stað þess að flytja búferlum með fjölskyldu sína,“ segir Davíð að lokum.

Swapp Agency

Fyrirtækið var stofnað árið 2017.

Swapp Agency er með starfsemi í átta löndum.

Markmiðið er að bregðast við breytingum á vinnumarkaði.

Hefur starfað með Google, Meta, Harvard, Nasdaq og TripAdvisor

Auðveldar fólki fjarvinnu.

Höf.: Magdalena Anna Torfadóttir