Þjálfun Margt er tekið fyrir í starfi slysavarnaskólans og meðal annars æfð sjóbjörgun á sundunum við Reykjavík.
Þjálfun Margt er tekið fyrir í starfi slysavarnaskólans og meðal annars æfð sjóbjörgun á sundunum við Reykjavík. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Sá árangur í slysavörnum á meðal sjómanna sem náðst hefur sést best í fækkun slysa. Margir samverkandi þættir koma hér til, en mestu ræður alltaf að við störf og stjórnvöl séu menn sem hafa visku til að mæta þeim aðstæðum sem upp geta…

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Sá árangur í slysavörnum á meðal sjómanna sem náðst hefur sést best í fækkun slysa. Margir samverkandi þættir koma hér til, en mestu ræður alltaf að við störf og stjórnvöl séu menn sem hafa visku til að mæta þeim aðstæðum sem upp geta komið,“ segir Hilmar Snorrason, fráfarandi skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna.

Skólastjórastarfinu, sem Hilmar hefur gegnt síðastliðin 32 ár, lætur hann af nú um mánaðamótin. Nærri sjötugsaldri tekur við nýr kafli í lífinu og þau Hilmar og Áslaug Kristín Hansen eiginkona hans flytjast búferlum til Spánar á næstu vikum. Bogi Þorsteinsson aðstoðarskólastjóri tekur við keflinu af Hilmari.

Álitnir sjóhræddir

Slysavarnaskóli sjómanna, sem Slysavarnafélagið Landsbjörg á og stofnaði, tók til starfa árið 1985. Tilurðina má rekja til þeirra sjóslysa við landið sem voru algeng. Skipskaðar, þar sem menn fórust, voru tíðir og önnur slys, mörg alvarleg, skiptu hundruðum á ári hverju.

Þessum napra veruleika var brugðist við með skipulagðri fræðslu sem stjórnvöld fólu Slysavarnafélagi Íslands, sem þá var, að annast. Ríkissjóður seldi SVFÍ gamla varðskipið Þór fyrir 1.000 kr. haustið 1985. Þar með hafði skólinn fengið aðsetur; skip sem hægt var að sigla milli hafna. Þannig var hægt að taka sjómenn á heimaslóð sinni á námskeið sem fljótt sönnuðu gildi sitt.

„Það eru ekki mörg ár síðan áhugi vaknaði almennt á öryggismálum en hér áður fyrr vöruðu menn sig á því að ræða of mikið um öryggismál um borð í sínu skipi því þá voru þeir einfaldlega álitnir sjóhræddir,“ sagði Hilmar Snorrason í grein í Morgunblaðinu árið 1995. Þessi orð lýsa því ágætlega hver viðhorfin voru. Algengt var fyrir um 30 árum að tíu menn færust í sjóslysum við landið og fjöldi þeirra sem slasaðist var 450-600 ár hvert. Í dag eru tölurnar miklu lægri og komið hafa þau ár í seinni tíð að enginn hefur farist í slysi á sjó.

Skip í vöktun og nákvæmar veðurspár

„Fræðslan til sjómanna hefur skilað sér og veðurspár og -fregnir eru orðnar mun nákvæmari en áður. Skipin eru sömuleiðis öruggari. Áður fyrr voru trébátar ráðandi í fiskiskipaflotanum en nú eru sárafáir slíkir eftir. Þá eru allir bátar og skip við landið í sívöktun Tilkynningaskyldunnar og á vaktinni þar er fljótt brugðist við sjáist eitthvað óvenjulegt,“ segir Hilmar og heldur áfram:

„Hringinn í kringum landið er svo kominn floti björgunarskipa sem nú er verið að endurnýja. Miklu skiptir líka að hafa öfluga landhelgisgæslu. Í hennar flota er flugvél, sérútbúin til leitar og björgunar, þrjár þyrlur og tvö varðskip með mikla dráttargetu og fær í flest. Aðalatriðið er samt að frá árinu 1997 hefur sjómönnum verið skylt að sækja námskeið Slysavarnaskólans sem í ársbyrjun 1997 varð forsenda þess að menn fengju lögskráningu á skip. Svo árið 2003 var endurmenntun á fimm ára fresti lögfest sem er mjög nauðsynlegt.“

Markvissara starf með skráningum

Skyndihjálp, eldvarnir og vinnuöryggi eru aðalgreinar Slysavarnaskóla sjómanna. Einnig sjóbjörgun en þá eru nemendur meðal annars hífðir um borð í þyrlu frá landhelgisgæslunni. Þetta er kjarninn í grunnnámskeiðum sem tugir þúsunda sjómanna hafa sótt á undanförnum áratugum. Námskeiðin eru haldin í skólaskipinu Sæbjörgu, gömlu Akraborginni, sem er nú með heimahöfn á Grandanum í Reykjavík.

„Stundum gerist mikið með einföldum breytingum,“ segir Hilmar Snorrason. Hann rifjar upp að þegar hans afskipti af þessum málum hófust um árið 1990 hafi slys til sjós verið um 800 á ári. Þegar gerðir voru kjarasamningar milli sjómanna og útgerðar um þetta leyti hafi verið sett inn ákvæði um staðgengilslaun. Inntak þess var að ef sjómaður veiktist eða slasaðist við störf þá skyldi hann fá sömu laun og sá sem kæmi í hans stað. Þetta hafi breytt miklu og tilkynningum um slys hafi fjölgað. Myndin hafi orðið skýrari og þarna komið hvati til þess að skrá öll slys. Slíkar upplýsingar hafi gert starf að slysavörnum markvissara.

Grautarpottur lægða

Þótt góður árangur hafi náðst í slysavarnamálum sjómanna breytist umhverfið. Í því sambandi má halda til haga frásögnum skipstjóra á flutningaskipum á Norður-Atlantshafinu sem hér í Morgunblaðinu hafa lýst því að öfgar í veðurfari hafi aukist mikið síðustu ár. Öldurnar hafi aldrei verið hærri og minnst er að á siglingu við Hvarf, suðurodda Grænlands, snemma árs 2022 hafi lægð þar yfir verið 932 millibör og vindstyrkur 50 m/sek.

„Gamlir félagar mínir úr farmennskunni þurftu í fyrravetur á leiðinni til Evrópu að sigla norður fyrir land. Slíkur var grautarpottur lægða hér fyrir sunnan okkur að þar var ófært,“ segir Hilmar. „Gamalreyndur tollvörður sagði við mig nýlega að hann hefði ekki séð farmenn, sem gjarnan taka 3-4 vika túra, koma jafn þreytta í land og nú. Af þessu þurfa allir að læra; hvorki má ofbjóða mannskap né skipunum. Annars er tækni í skipum líka mikið að breytast með rafvæðingu sem hefur kosti og galla. Tækniheimurinn er á fullu að reyna að finna hvernig eigi að takast á við rafmagnselda í skipum, sem hefðbundin slökkvikerfi virðast ekki ráða við. Í öryggisskyni er því mikilvægt að finna þarna lausnir; fátt er verra en eldur í skipum og verstir þeir sem rekja má til rafmagns.“

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson