Átök RKÍ svarar neyðarkalli.
Átök RKÍ svarar neyðarkalli. — AFP/Aris Messinis
Rauði krossinn á Íslandi hóf í vikunni söfnun vegna neyðar fyrir botni Miðjarðarhafs og til að styrkja mannúðarstarf á svæðinu. Eru samtökin með því að svara neyðarkalli frá alþjóðaráði Rauða krossins

Rauði krossinn á Íslandi hóf í vikunni söfnun vegna neyðar fyrir botni Miðjarðarhafs og til að styrkja mannúðarstarf á svæðinu. Eru samtökin með því að svara neyðarkalli frá alþjóðaráði Rauða krossins.

Í samtali við Morgunblaðið sagði Oddur Freyr Þorsteinsson, kynningar- og fjölmiðlafulltrúi Rauða krossins á Íslandi, að viðbrögðin hefðu verið sæmileg við söfnuninni, en ekki alveg eins sterk og í öðrum söfnunum hjá þeim. Í dag og yfir helgina verður meiri vinna lögð í kynningarstarf vegna söfnunarinnar. „Þá mun fólk vonandi taka við sér, því almennt er fólk mjög tilbúið að taka þátt í svona söfnunum hjá okkur og vill virkilega styðja starfið sem við erum með.“

Tilgangur söfnunarinnar er að styðja hjálparstarfið sem alþjóðaráð Rauða krossins sinnir á þessu svæði, en alþjóðaráðið er sá hluti Rauða krossins sem starfar aðallega á stríðshrjáðum svæðum.

Alþjóðaráðið er að undirbúa sendingu með ríflega 60 tonnum af hjálpargögnum til Gasa auk þess sem það er í sambandi við báða aðila átakanna til að minna á mikilvægi þess að alþjóðleg mannúðarlög séu virt, ásamt því að óska eftir því að gíslar Hamas-samtakanna verði látnir lausir án tafar. „Eins og allir sjá í fréttum hefur ekki gengið nógu vel að fá aðgang og koma gögnum inn á Gasa,“ segir Oddur, en í gegnum alþjóðaráðið er einnig verið að styðja við landsfélög bæði í Ísrael og Palestínu. Oddur segir að bæði landsfélög hafi misst fólk í hjálparaðgerðum og að Rauði krossinn á Íslandi vilji líka styðja við þau.

„Við vonum að þessari söfnun verði vel tekið, enda er þetta ein af betri leiðunum til þess að leggja starfinu lið,“ segir hann.