Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir á fundi með Volodimír Selenskí, forseta Úkraínu, í Kænugarði.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir á fundi með Volodimír Selenskí, forseta Úkraínu, í Kænugarði.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég mun áfram leggja áherslu á nýsköpun og frumlega hugsun. Litlar hugmyndir úr óvæntum áttum geta haft mikil áhrif.

Úr ólíkum áttum

Fyrir mína kynslóð og þær sem komist hafa til manns á síðustu áratugum á Íslandi er varla til nokkur óhagganlegri sannleikur en sá að við séum sjálfstætt og fullvalda ríki, að við ráðum okkar eigin málum og getum ræktað okkar eigin menningu og samfélag á þann hátt sem við teljum að gagnist best fyrir sem flesta. Og þótt Ísland hafi flokkast sem þróunarríki í alþjóðlegum samanburði til ársins 1974 teljum við heldur ekkert eðlilegra en að hér á landi séu lífskjör með því allra besta á byggðu bóli hvort sem litið er til efnahagslegra, samfélagslegra eða mennningarlegra gæða.

Sú staða sem Ísland býr við í dag er ekki sjálfsögð. Heimurinn getur verið óútreiknanlegur. Hagsæld og velmegun þjóða getur tekið stakkaskiptum hvort sem er til verri eða betri vegar; og fyrir því geta legið orsakir sem eru ýmist innan eða utan þess sem innlendar ákvarðanir og aðgerðir geta haft áhrif á. Á síðustu öld eru dæmi um ríki sem hafa tekið kollsteypur vegna eigin efnahagslegra og pólitískra ákvarðana, og önnur sem hafa í krafti aga og áræðis umbylt samfélaginu til hins betra. Þótt veröldin geti verið viðsjárverð sýnir sagan að sterkum samfélögum tekst að vinna sig út úr jafnvel hrikalegustu áföllum, en þegar innviðir samfélagsgerðarinnar eru veikir þarf stundum lítinn atburð til þess að hrinda af stað neikvæðri keðjuverkun sem langan tíma getur tekið að vinda ofan af. Samfélag blómstrar þegar fólk tekur verkefni sín alvarlega og trúir að þau skipti máli. Ef grafið er undan trú á mikilvægi þess að gera gagn er hætt við að það molni líka undan getu samfélaga til að leysa úr viðfangsefnum sínum.

Kraftur smæðarinnar

Undanfarin tæp tvö ár hef ég gegnt embætti utanríkisráðherra Íslands. Sá tími hefur verið ótrúlegur. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til þess að gegna því hlutverki og hef lagt mig alla fram um að sinna því af metnaði. Þar hef ég notið innblásturs frá ómetanlegu samstarfsfólki í íslensku utanríkisþjónustunni sem sinnir bæði hagsmunagæslu og fyrirsvari fyrir Ísland af einskærri fagmennsku, alúð og metnaði fyrir hönd landsins. Í því starfi lagði ég sérstaka áherslu á að tala fyrir því að íslensk stjórnvöld legðu sig fram um að finna leiðir til þess að verða að gagni þar sem tækifæri skapast en nota ekki mannfæð sem afsökun fyrir því að sitja hjá. Þvert á móti hef ég talað fyrir því að Ísland nýti sér þá kosti sem felast í því að vera ekki yfirþyrmandi stórt ríki með stirðbusalegt stjórnkerfi. Það er ýmsu hægt að áorka í krafti smæðarinnar. Orð og athafnir Íslands á alþjóðavettvangi geta verið fyrstu steinvölurnar sem rúlla niður brekku og koma af stað stærri skriðu. Við megum aldrei falla í þá gryfju að halda að við skiptum ekki máli, því við gerum það svo sannarlega.

Nýsköpun og frumleg hugsun

Í nýjum verkefnum mun þessi hugsun áfram verða ráðandi í minni nálgun. Fámenn þjóð eins og sú íslenska þarf sérstaklega að gæta að því að allir sem geta leggi sitt af mörkum, hver á sínu sviði. Þótt við gegnum ólíkum hlutverkum þá þarf gott samfélag á framlagi okkar allra að halda. Öll störf sem innt eru af hendi og þjóna þeim tilgangi að uppfylla þarfir eða veita þjónustu skipta máli og eru mikilvæg. Ég trúi því að gott viðhorf til vinnu og verkefna geti haft afgerandi áhrif á hvernig okkur gengur að leysa úr þeim verkefnum sem hið opinbera hefur á sinni hendi. Ég mun áfram leggja áherslu á nýsköpun og frumlega hugsun. Litlar hugmyndir úr óvæntum áttum geta haft mikil áhrif. Ég mun hvetja til þess að við hugsum út fyrir ramma hins hefðbundna, þorum að skora viðteknar venjur á hólm og látum alltaf verkefnin sjálf njóta vafans, en ekki kerfistregðu og innihaldslausar pólitískar skylmingar.

Þegar öllu er á botninn hvolft þá berum við saman ábyrgð á dýrmætu samfélagi og erum í stöðu sem forfeðrum okkar og mæðrum hefði þótt ótrúlegt að stefna að. Skylda okkar, næstu kynslóðar í íslenskum stjórnmálum, er að passa upp á að við höldum áfram að bæta okkur, að við tökum verkefnin alvarlega en ekki sjálf okkur hátíðlega. Þannig verður staða Íslands áfram sterk, hvort sem er á alþjóðlegum vettvangi eða innan landsteinanna.