Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson: Á fjósbitanum situr sá. Sá ég knýja að landi far. Hálendinu flæmast frá. Á ferli snemma gumi var. Þá kemur lausnin þessa vikuna, svarar Helgi R. Einarsson: Á bita árinn er

Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:

Á fjósbitanum situr sá.

Sá ég knýja að landi far.

Hálendinu flæmast frá.

Á ferli snemma gumi var.

Þá kemur lausnin þessa vikuna, svarar Helgi R. Einarsson:

Á bita árinn er.

Með árunum ég ræ.

Á fætur árla fer.

Falla ár í sæ.

Bergur Torfason á þessa lausn:

Ári snúin gáta er gerð,

þó gera lausn á henni verð,

svo Blöndal geti birt með von,

Bergur – sendir – Torfason.

Á fjósbitanum ári er

með árum bátinn knýjum vér.

Árnar streyma fjöllum frá

á ferli ára snemma sá.

Guðrún B. svarar:

Á fjósbitum árar eflast.

Árin knýr bát að landi

og ár af hálendi hellast.

Húðir árrisul þandi …

(uns nágrannar kvarta og kveina, þó kvatt sé árið með stæl.
Í hverjum heyrist árans væl?)

Hér kemur lausn frá Úlfari Guðmundssyni:

Bústinn ári á bita hló.

Bátinn ár að landi dró.

Streyma árnar stranda til.

Stíga árla'á fætur vil.

Var að kíkja á gátuna og þetta kom mér strax í hug, svarar Harpa á Hjarðarfelli:

Ár þar eg má kenna.

Með ár að landi bar.

Ár úr óbyggð renna.

Svo árrisull hann var.

Sjálfur skýrir Guðmundur gátuna svona:

Á fjósbita ég eygði ár.

Árar knýja að landi far.

Frá jökli æða ár um gjár.

Árla á ferli gumi var.

Þá er limra:

Hann áður var elskhugi slíkur,

að allar dáðu hann píkur,

en síðan hann eltist

að árum og geltist

hann er ekki sjálfum sér líkur.

Síðan er ný gáta eftir Guðmund:

Haustvindar gnauða á glugga,

gleymmérei norpir í skugga,

í skjóli ég skálda hér inni

og skila nú gátunni minni:

Dragfínn á ballstað ég bruna.

Í bústað þeim lengi má una.

Þennan í flekk er að finna.

Ég fer þangað gróðri að sinna.