Ingibjörg Sigurðardóttir fæddist 21. júlí 1957. Hún lést 31. júlí 2023.

Útför hefur farið fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Hún Inga mágkona mín og hann Leifi bróðir minn voru eitt. Þau eignuðust fimm mannvænleg börn og saman lifðu þau fyrir þau.

Í vor birtist Leifi mér í draumi þar sem hann stóð í flutningum og var að ferma síðustu kassana í bílinn, fálátur, hnugginn en á þessum tímapunkti birtist Inga, ein með föggur sínar, og steig upp í bílinn.

Þessi draumur, þótt hugarburður minn væri, settist verulega að mér. Var ástandið orðið svona slæmt? Ætlaði Inga að fara að kveðja eins og hann? Var Leifi kominn til að sækja hana?

Leifi bróðir, yngstur okkar systkina, lést langt um aldur fram árið 2016 eftir langa baráttu við illvígan sjúkdóm. Inga stóð sem klettur við hlið hans, fór með honum í öll viðtöl og hélt utan um allar upplýsingar svo að ekkert færi úrskeiðis. Aldrei kvartaði hún yfir álaginu heldur stóð sterk fjölskyldunnar vegna.

Við Leifi bjuggum saman á háskólaárunum þegar Inga tók að venja komur sínar til hans, afar viðkunnanleg, geislandi og glæsileg í alla staði. Fékk ég því að fylgjast með sambandi þeirra þróast og dafna en Leifi var alla tíð afar stoltur af henni Ingu sinni og er ég viss um að það var strax gagnkvæmt.

Inga var vön að flytja sig um set á sumrin og vinna í Stokkhólmi enda alin upp í Svíþjóð og hélt hún því áfram fyrstu búskaparárin. Leifi náði að vinna þar ytra eitt sumar í Uppsölum og bjó hjá Ingu systur okkar og Óla. Síðasta sumarið sem Inga vann í Stokkhólmi vorum við Einar Ingi flutt til Uppsala og kom Inga því afar oft til okkar í fríum enda stutt á milli borganna. Báðar áttum við von á okkar frumburðum á þessum tíma og náðum einstaklega vel saman enda spenntar fyrir komandi tímum. Þegar heim var komið var aldrei langt á milli okkar, börnunum hafði fjölgað og nú trítlaði barnaskarinn á milli heimilanna en þess á milli var keyrt suður í „garð“ til ömmu og afa og farið í heyskap, kartöflutínslu o.fl.

Eftir nokkur ár í kennslu ákvað Inga að einbeita sér að uppeldi barna sinna með góðum árangri. Inga lagði alla tíð áherslu á heilbrigði og hollustu en örlög okkar verða ekki umflúin. Hún greindist með illkynja æxli sem erfitt var að ráða við. Hún bar harm sinn í hljóði og kvartaði aldrei heldur tók öllu sem að höndum bar með stóískri ró. Það var hennar fas.

Börnin hennar fimm fengu gott veganesti en að missa báða foreldra sína í blóma lífsins með stuttu millibili er þyngra en tárum taki.

Hún var yndisleg móðir, ljúf, dugleg, hjálpfús og greiðvikin en alltaf var hægt að leita til hennar í einu og öllu. Að auki lagði hún mikla rækt við háaldraða móður sína og eyddi ómældum tíma við hlið hennar. Nú þarf móðir hennar að sjá á eftir dóttur sinni og þriðja barni sínu sem yfirgefur þessa jarðvist.

Elsku Siggi, Elín, Kári, Bjarki, Bjartur og fjölskyldur! Ykkar missir er mikill. Þið áttuð yndislega móður og ekkert nema fallegar minningar um fallega konu. Þær minningar munu verma ykkur um ókomna tíð.

Elsku Inga. Hann Leifi þinn mun leiða þig inn í sumarlandið.

Takk fyrir allt og allt.

Sigrún.