Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í gær að koma á fót starfshópi þriggja ráðuneytisstjóra til að meta þá stöðu sem upp er komin í landbúnaði. Þar er vísað til endurtekinna hækkana á stýrivöxtum og verðhækkana á aðföngum.
„Stóra verkefnið núna er að greina vandann og tala við fólk. Staðan er víða þröng, en við þurfum að vita til dæmis hvort ákveðnir hópar bænda séu verr staddir en aðrir. Út frá þeim upplýsingum sem við fáum verða tillögur mótaðar og þær munu liggja fyrir aldrei síðar en um áramót,“ segir Benedikt Árnason ráðuneytisstjóri í matvælaráðuneytinu. Hann er formaður starfshópsins. Þar sitja einnig Guðmundur Árnason úr fjármálaráðuneytinu og Hermann Sæmundsson úr innviðaráðuneytinu.
Fyrsti fundur starfshóps ráðuneytisstjóra verður á mánudag. Hópnum til ráðgjafar verða fulltrúar frá Byggðastofnun, fjármálafyrirtækjum og ýmsir aðrir sem hagsmuni hafa í landbúnaði.
Í tilkynningu frá Stjórnarráðinu segir að höfuðstóll verðtryggðra lána hafi hækkað hratt síðustu misseri og rýrt eiginfjárstöðu bænda eins og fleiri. „Nú þarf að greina mál með tilliti til skulda- og eða greiðsluvanda. Vandi bænda er viðkvæmur með tilliti til þess hlutverks sem þeir hafa við að tryggja fæðuöryggi,“ segir Benedikt.
Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar hefur sent frá sér ályktun um þessi mál. Þar er lýst erfiðum aðstæðum bænda og sagt að grundvöllur rekstrar margra búa hafi brostið. Matvælaframleiðslu, sem sé í aðalhlutverki í sveitarfélaginu, þurfi að skapa öruggar aðstæður.
„Atvinnuvegur eins og landbúnaður sem í eðli sínu þarf miklar
fjárfestingar með hlutfallslega litla veltu þarf að geta gengið að lána-
kjörum sem skapa meiri fyrirsjáanleika,“ segir í ályktun Eyjafjarðarsveitar.