Guðbjörg Jónína Eyjólfsdóttir fæddist 20. ágúst 1930 á Hrútafelli undir Austur-Eyjafjöllum. Hún lést á Skógarbrekku á Húsavík 12. október 2023.

Foreldrar hennar voru Helga Ólafsdóttir, f. 11.3. 1901, d. 8.11. 1977, og Eyjólfur Þorsteinsson, f. 25.7. 1892, d. 17.9. 1973. Systkini Guðbjargar eru Trausti, Sigríður, Rútur, Ólafur, Anna Sigríður, Valgerður Helga, Guðný Jóhanna, Þorsteinn, Skæringur og Magnús Borgar.

Guðbjörg giftist 1. nóvember 1958 Árna Arngarði Halldórssyni frá Garði í Mývatnssveit, f. 25.2. 1934, d. 24.3. 2022. Foreldrar hans voru hjónin Sigríður Jónsdóttir, f. 1.6. 1906, d. 1.3. 1997, og Halldór Árnason, f. 12.7. 1898, d. 28.7. 1979.

Börn Guðbjargar og Árna eru: 1) Eyjólfur, f. 7.5. 1958, maki Sigurlaug Guðrún Steingrímsdóttir, f. 24.2. 1959. Börn Eyjólfs eru Steingrímur Jónsson, f. 29.9. 1978, Guðbjörg Eyjólfsdóttir, f. 6.5. 1979, Anna Vala Eyjólfsdóttir, f. 10.8. 1982, Eyrún Eyjólfsdóttir, f. 15.9. 1992. 2) Sigríður, f. 2.1. 1963, maki Ómar Magnússon, f. 29.6. 1948. Börn Sigríðar: Árni Haukur Jóhannesson, f. 30.10. 1983, Ingibjörn Jóhannesson, f. 26.7. 1989, Helga Þóra Ó. Magnússon, f. 1.8. 1998. 3) Helga Þuríður, f. 3.2. 1966, maki Einar Sölvi Friðbergsson, f. 31.8. 1948. Börn Helgu eru: Bergljót Friðbjarnardóttir, f. 3.7. 1986, Sigurður Ólafur Friðbjarnarson, f. 19.12. 1987, Eggert Þórarinsson, f. 3.2. 1997, Ruth Þórarinsdóttir, f. 28.2. 1999. 4) Halldór Arngarður, f. 7.5. 1970, maki Arnþrúður Dagsdóttir, f. 1.4. 1977. Börn Halldórs eru Sylvía Halldórsdóttir, f. 21.3. 1993, Arna Halldórsdóttir, f. 5.1. 1996, Sesselja Lóa Þöll Halldórsdóttir, f. 28.10. 2013, Guðbrandur Arngarður Halldórsson, f. 20.2. 2015.

Dóttir Árna er Guðrún Björk Hallbjörnsdóttir, f. 13.12. 1957, maki Helgi Gústafsson, f. 14.9. 1957. Börn Guðrúnar eru: Júlía Ýr Ómarsdóttir, f. 17.1. 1976, Laufey Mjöll Helgadóttir, f. 16.12. 1989, Kristinn Daníel Helgason, f. 21.10. 1992.

Barnabarnabörn Guðbjargar eru alls 15.

Guðbjörg ólst upp á Hrútafelli undir Austur-Eyjafjöllum. Hún kynntist manni sínum Árna þegar hún fór á vertíð til Vestmannaeyja veturinn 1957 og tóku þau við búi foreldra hans. Auk sauðfjárbúskapar stunduðu þau veiði og reykingu á silungi. Þau voru bændur í Garði til ársins 2015 en síðustu árin dvöldu hjónin í Litlahvammi á Húsavík. Guðbjörg var húsmóðir, ól upp börnin sín og barnabörnin áttu þar vísan samastað, auk annarra barna sem dvöldu í Garði sumarlangt eða lengur.

Útför Guðbjargar fer fram í Skútustaðakirkju í dag, 21. október 2023, og hefst athöfnin klukkan 14. Athöfninni verður streymt á facebooksíðu Skútustaðaprestakalls.

Nú þegar við kveðjum Guðbjörgu Eyjólfsdóttur, Beggu, sadda lífdaga, þá er ekki hægt annað en að stinga niður penna og minnast hennar og þakka fyrir sig. Ég varð þeirra forréttinda aðnjótandi í æsku að fá að dvelja sumarlangt í Garði hjá þeim hjónum Beggu og móðurbróður mínum Árna bónda. Mín fyrsta minning um Beggu var þegar ég kom í Garð á sjötta eða sjöunda ári. Sendur nýsnoðaður með flugi norður og lofað fari með bíl sem átti leið upp í sveit. Allt gekk þetta nú vel og snáðinn lét lítið fyrir sér fara og gerði það sem honum var sagt. Hafði ég ekki einu sinni fyrir því að láta vita af yfirvofandi afléttingarþörf sem síðan auðvitað þýddi að ég kom nokkuð blautur í Garð að ferðarlokum. Ekki var það nú neitt tiltökumál og Begga sá til þess að sá stutti drifi sig úr blautum buxunum og í aðrar þurrar við komuna. Lundarfar Beggu var ætíð, að mér fannst, létt og stutt í hláturinn og viðmót hennar þægilegt.

Þeir sem dvöldu í Garði, bæði heimafólk og tilfallandi gestir, voru ekki illa haldnir í viðurgjörningi. Dagurinn hófst á morgunkaffi, brauði, áleggi, kaffi og mjólk. Síðan var heitur matur í hádeginu, oft silungur úr Mývatni eða lambakjöt. Seinnipartinn var miðdagskaffi og síðan kvöldverður. Dagurinn endaði svo á kvöldkaffi. Yfirleitt eitthvert kruðerí sem Begga hafði bakað. Ekki að spyrja að dugnaðinum.

Hafði ég félagsskap í Garði með Halldóri syni Beggu og Árna, nú bónda í Garði, og frænda okkar Árna Laugdal sem einnig dvaldi í Garði sumarlangt. Oft var kátt á hjalla og eflaust höfum við reynt á þolrif húsráðenda inni á milli en ekki minnist ég annars en að dvöl okkar í Garði hafi verið neitt annað en dásamleg. Fengum að taka þátt í verkum eftir því sem okkur óx aldur til og geta en þess á milli fór tíminn í að uppgötva náttúruna í sveitinni. Kynnast dýralífinu og öllu því sem til fellur við rekstur búskapar.

Begga var ein af þessum konum sem taka hlutverk sitt sem húsmæður föstum tökum. Kom frá Hrútafelli undir Eyjafjöllum þar sem hún hefur örugglega þurft að skila sínu frá unga aldri. Var hún komin upp snemma og fór tímanlega í sæng á kvöldin. Eitt af fjölmörgum verkum Beggu var að reykja silunginn sem Árni bóndi veiddi í vatninu. Og það var nú oft nokkuð mikið um að vera í þeim verkum öllum, man ég. Endaði Begga svo hvern dag á að færa til bókar stuttan texta um viðburði dagsins. Veðurupplýsingar minnir mig, hvernig heyjaðist og tilfallandi viðburði. Pistlar sem gaman væri að rifja upp í dag til að fá innsýn í daglegt líf í Garði hér áður.

Begga og Árni eignuðust fjögur börn, þau Eyjólf, Sigríði, Helgu og Halldór. Allt dugnaðarforkar eins og kyn þeirra segir til um. Kvöddu þau systkinin föður sinn í fyrra og nú hefur Begga yfirgefið þetta jarðlíf. Með henni er gengin einstaklega heilsteypt manneskja, ósérhlífin og dugleg. Afkomendum hennar votta ég samúð mína og þakka Guðbjörgu Eyjólfsdóttur góð kynni og umhyggju í minn garð. Hennar verður minnst með hlýju.

Steinþór Jónsson.