„Ég trúi því og treysti að ég sé ekki ein á þessari vegferð. Ég finn mjög sterkt að það er beðið fyrir mér,“ segir Agnes.
„Ég trúi því og treysti að ég sé ekki ein á þessari vegferð. Ég finn mjög sterkt að það er beðið fyrir mér,“ segir Agnes. — Morgunblaðið/Eggert
Ég verð þó að viðurkenna að mér finnst oft að menn telji að það sé hægt að vaða yfir biskupsembættið núna vegna þess að það er kona sem situr í stólnum.

Frú Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands hefur ákveðið að áfrýja úrskurði úrskurðarnefndar þjóðkirkjunnar sem féll nýlega um að biskup hefði ekki haft stjórnsýslulegt umboð til þess að gegna starfi biskups frá 1. júlí í fyrra. Skipunartími hennar sem biskup rann út 30. júní 2022 en tveimur dögum áður sendi forseti kirkjuþings henni bréf um áframhaldandi ráðningu.

„Fæst í þessu lífi kemur mér á óvart. Ég er bara þannig gerð. Sá úrskurður sem féll í vikunni skapar krefjandi stöðu innan stjórnsýslu kirkjunnar. Þarna eru tvær ákvarðanir felldar úr gildi og óljóst hvort það hafi áhrif á aðrar ákvarðanir sem teknar hafa verið. Það snertir síst mig en fjölmarga aðra og má þar nefna skipun presta og fleira,“ segir Agnes.

„Ástæðan fyrir því að ég er að setja þetta mál fyrir dómara landsins er til að bregðast við þessari stöðu sem nú ríkir innan þjóðkirkjunnar. Það geri ég ekki fyrir mína hönd persónulega og prívat heldur fyrir hönd þjóðkirkjunnar og biskupsembættisins. Það þarf að fá botn í þetta mál og taka afstöðu til þess hvort fleiri stjórnsýslulegar ákvarðanir sem hafa verið teknar frá 1. júlí 2022 séu ómerkar. Ég tek þetta alvarlega og það hlýtur að vera sameiginlegt verkefni okkar allra í kirkjunni að ákveða hvernig eigi að bregðast við.

Ég sem biskup Íslands vinn ekki í umboði kirkjuþings. Ég vinn í umboði þeirra sem kusu mig til þessa starfs árið 2012, sem voru fulltrúar kirkjunnar um allt land. Það er búið að vefjast fyrir í öllum þessum breytingum og skipulagsbreytingum undanfarin ár hvar á að setja biskupsembættið og enn er það í mótun.“

Agnes segir hluta af vandanum felast í því að kirkjuþing fann ekki í tæka tíð lausn á skipun biskups. „Í minni biskupstíð hafa orðið einhverjar mestu breytingar á þjóðkirkjunni í hennar sögu. Með breytingum á lögum árið 2021 fékk þjóðkirkjan stjórn eigin mála og er það kirkjuþing sem setur starfsreglur um öll innri mál. Þetta var stórt verkefni sem kallaði á alls kyns breytingar sem því miður er ekki lokið. En ég hef fulla trú á því að með mannauði þjóðkirkjunnar, sem er breiður og öflugur, finnist góð lausn á því.

Við þennan aðskilnað voru skýr skilaboð frá ríkinu um að kirkjuþingi bæri að sjá til þess að breytingin myndi ekki raska starfsemi þjóðkirkjunnar. Það sneri meðal annars að starfsmönnum kirkjunnar, að gerður yrði ráðningarsamningur við þá í hinu nýja fyrirkomulagi. Einhverra hluta vegna var einn starfsmaður undanskilinn þar og það var biskup Íslands. Kirkjuþing hefur nú mótað umgjörð um störf eftirmanna minna, sem er gott, en ekki mín störf.

Á kirkjuþingi komu fram hugmyndir varðandi sex ára kjörtímabil biskups og vígslubiskupa. Þetta þekkist varla annars staðar, í nágrannalöndum skilur enginn sem ég tala við innan kirkjunnar að það sé kjörtímabil hjá biskupum.

Þegar reglurnar um kjörtímabil biskups voru settar á kirkjuþingi þá var talað um að þessar nýju starfsreglur ættu ekki við um sitjandi biskupa sem hefðu verið kosnir undir öðrum reglum. Það var hins vegar ekki sett inn í starfsreglurnar – og þar liggja mistökin að mínum dómi – að þetta sex ára kjörtímabil ætti við um framtíðina en ekki fortíðina.

Mér var ráðlagt að svara bréfinu frá forseta kirkjuþings og lögfræðingur gerði það fyrir mína hönd.“

Eftir þennan nýfallna úrskurð úrskurðarnefndar þjóðkirkjunnar er þá ekki líklegt að ýmislegt sem þú gerir á næstunni í embætti verði véfengt?

„Um það snýst ákvörðun mín um að fá dómstóla til að skera úr um þetta, en þetta snertir einungis stjórnsýslulegar ákvarðanir, ekki hinn guðfræðilega vinkil embættisins. Það er biskup yfir Íslandi í dag, guðfræðilegt hlutverk biskups er hornsteinn embættisins. Ég hef verið prestur í 42 ár og biskup er prestur, hirðir hirðanna, eins og sagt er. Hlutverk hans er fyrst og fremst að gera hinum vígðu þjónum kleift að sinna sínu hlutverki, að boða Guðs orð, hreint og ómengað. Ég hef að sjálfsögðu fullt umboð til þess sem vígður biskup.“

Tekur gagnrýni ekki persónulega

Það er oft mikill óróleiki í kringum kirkjuna. Væri kannski betra fyrir kirkjuna að fara aftur í faðm ríkisins því að kirkjan virðist stundum ekki ráða við sig sjálf?

„Það er bæði hægt að segja já og nei við þeirri spurningu. Þetta er bara eins og þegar börnin verða fullorðin, þau hafa stuðning af foreldrum sínum og fjölskyldu eftir sem áður, en verða að lifa sjálfstæðu lífi og taka eigin ákvarðanir. Og stundum reka sig á og læra. Ég held að þetta sé eins með kirkjuna. Kannski er hún ennþá unglingur og á eftir að þroskast í fullorðna sjálfstæða kirkju. Ég er sannfærð um það.

Allar breytingar valda því að fólk þarf að hugsa hlutina upp á nýtt. Okkur hefur kannski ekki lánast nógu vel innan kirkjunnar að gera það þannig að við virkum samhent. Kirkjuþingið setur reglur en þar sitja sautján leikmenn og tólf prestar og auðvitað takast þar á mismunandi sjónarmið. Það er á ábyrgð okkar allra innan kirkjunnar að vinna betur samhent í einingu.“

Kirkjunnar þjónar boða náungakærleik en það er stundum eins og þeir séu ekki að stunda hann í nægilegum mæli sín á milli heldur séu að vega hver annan.

„Við innan kirkjunnar eigum að ganga fram í fordæmi kærleikans en stundum upplifum við þetta svona. Þetta birtist svo sterkt og mikið innan okkar raða vegna þess að við erum að boða kærleikann og ættum því að hafa hann í heiðri að öllu leyti.

Ég hef reynt að leggja áherslu á það að ná samstöðu innan prestastéttarinnar. Þess vegna gladdi mig persónulega stuðningur presta og djákna sem birtist á prenti í sumar. En stærsti sigurinn fannst mér felast í því að stéttin gæti staðið saman. Um leið fannst mér ég hafa áorkað einhverju.“

Það ætti að vera ljóst að ítrekaðar innanhússdeilur skaða ímynd kirkjunnar. Þú hlýtur að hafa áhyggjur af því.

„Ég hef miklar áhyggjur af því. Við eigum sjálf ekki að efna til innanbúðarátaka. Það særir kirkjunnar fólk og veikir stöðu og trúverðugleika kirkjunnar. Ef við erum ekki sammála þá eigum við að leysa það í einingu og af virðingu fyrir hvert öðru en ekki bera ágreininginn á torg. Mér finnst það ekki við hæfi.“

Þú hefur fengið á þig harða gagnrýni, heldurðu að hluti af þessari gagnrýni gæti stafað af því að þú ert kona í þessu embætti?

„Ég tek gagnrýni ekki persónulega. Ef ég gerði það væri ég fyrir löngu komin undir sæng. Ég verð þó að viðurkenna að mér finnst oft að menn telji að það sé hægt að vaða yfir biskupsembættið núna vegna þess að það er kona sem situr í stólnum.“

Hin eiginlega kirkja

Hvað viltu segja við söfnuðinn, fólkið sem trúir og sækir kirkju en er kannski nokkuð vonsvikið vegna átaka innan kirkjunnar?

„Fólkið í kirkjunni er hin eiginlega kirkja, hinir lifandi steinar, eins og sagt er. Mér finnst leitt að yfirstjórn kirkjunnar geti ekki alltaf komið þannig fram út á við að við virkum sem ein heild. Fólkið í kirkjunni líður fyrir það Ég hef barist fyrir því að gera kirkjuna öruggari gagnvart öllum misgjörðarverkum. Ég hef beitt mér sérstaklega fyrir því að taka á ofbeldismálum innan kirkjunnar til þess að kirkjan sé öruggur staður. Ég er stolt af því en átta mig um leið á því að það geti verið umdeilt af hálfu þeirra einstaklinga sem um ræðir.

Ég bendi á að í öllum könnunum sýnir það sig að fólkið í nærsamfélaginu er ánægt með kirkjuna sína. Prestar landsins eru frábært og vel menntað fólk sem leggur sig fram um að biðja, boða og þjóna og er til þjónustu reiðubúið hvenær sem er. Það skiptir máli. Þar er líka að störfum fleira fólk og fjöldi sjálfboðaliða í sóknarnefndum, kirkjukórunum, meðhjálparar, kirkjuverðir og fleiri sem gefa ríkulega af sér til nærsamfélagsins með störfum sínum fyrir kirkjuna sína.

Kirkjan í nærsamfélaginu er í góðum málum. Sú kirkja sem ég mæti þar er allt önnur en sú sem oft er fjallað um í fjölmiðlum. Þarna er stundum eins og verið sé að tala sitt hvort tungumálið.“

Þú lætur af embætti biskups á næsta ári. Hættirðu sátt þrátt fyrir óróa og gagnrýni?

„Já. Ég er svo heppin að hafa Guð með mér í liði. Ég trúi því og treysti að ég sé ekki ein á þessari vegferð. Ég finn mjög sterkt að það er beðið fyrir mér. Ég finn líka mjög sterkt að ég geng á Guðs vegum, þrátt fyrir allt það veraldlega vafstur sem veldur vandræðum á stundum. Svo er ég stolt af þeim miklu breytingum sem hafa orðið á þjóðkirkjunni í minni tíð og ég trúi því að framtíð þjóðkirkjunnar sé björt. Þess vegna get ég hætt sátt.“