Enska úrvalsdeildin í fótbolta snýr aftur með látum eftir landsleikjahlé um helgina. Eru nokkrir stórleikir í dag og óhætt er að segja að dagskráin sé þétt frá hádegi og fram á kvöld.
Grannarnir í Liverpool og Everton mætast á Anfield klukkan 11.30. Hefur Everton aðeins einu sinni unnið á Anfield frá árinu 1999 og þá skoraði Gylfi Þór Sigurðsson annað markið í 2:0-sigri.
Liverpool fer með sigri upp að hlið Tottenham og Arsenal í tveimur efstu sætunum. Everton er í baráttu í neðri hlutanum en fjarlægist fallsvæðið með sigri.
Klukkan 14 mætast Manchester City og Brighton í Manchester. Brighton getur með sigri farið upp fyrir meistarana, en Brighton-liðið er í sjötta sæti með 16 stig. Manchester City fer á toppinn, í bili í það minnsta, með sigri.
Stórslagur í London
Stórliðin Chelsea og Arsenal eigast við klukkan 16.30 í Lundúnaslag á Stamford Bridge. Arsenal fer á toppinn með sigri á meðan Chelsea fer væntanlega upp í efri hlutann með sigri.
Er Chelsea-liðið að komast á siglingu eftir hræðilega byrjun, því liðið hefur unnið þrjá síðustu leiki í öllum keppnum. Prófið verður þungt gegn sterku Arsenal-liði.
Loks heimsækir Manchester United nýliðana í Sheffield United klukkan 19.30.
Bæði lið hafa verið í vandræðum, því Manchester United hefur þegar tapað sex leikjum í öllum keppnum á tímabilinu og ekki komist í gang. Sheffield-liðið er í botnsætinu með aðeins eitt stig.